Ljósmynd: Ninni Andersson/Regeringskansliet

Góður árangur ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar við þinglok

Fjölmörg mikilvæg mál ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar náðu fram að ganga við þinglok.

Meðal þeirra eru breytingar á útlendingalögunum eftir harða og langa baráttu Sjálfstæðisflokksins í  málaflokknum í hartnær áratug sem ætíð hafa mætt mikilli andstöðu, ekki síst frá Pírötum og Samfylkingu. Með þeim breytingum sem nú náðu fram að ganga að tillögu Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra er íslensk löggjöf færð nær því sem gerist í nágrannalöndum okkar ásamt því að auka skilvirkni í kerfinu. Séríslenskar reglur voru afnumdar sem m.a. fólu í sér að þeir sem höfðu hlotið vernd í öðru ríki gátu jafnframt sótt um vernd hér. Með nýju lögunum er slegin skjaldborg utan um verndarkerfið og félagslega innviði í landinu og ætlunin að fjöldi umsókna verði færri og að afgreiðsla á umsóknum hingað til lands verði skilvirkari. Sjá nánar hér.

Stofnunum umhverfisráðuneytis fækkað úr 13 í 9

Með breytingum á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra var stofnunum ráðuneytisins fækkað úr 13 í 9 og með því var skilvirkni innan kerfisins aukin. Orkumálin eru sett í forgang og nú eru leyfisveitingar vegna nýrra virkjana á hendi einnar stofnunar, umhverfis- og orkustofnunar, sem mun auka málsmeðferðarhraða og skilvirkni í leyfisveitingum. Jafnframt varð til ný náttúruverndarstofnun sem fer með stjórnsýslu og eftirlit á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar. Fyrr á þessu ári urðu jafnframt breytingar á öðrum stofnunum með nýrri Náttúrufræðistofnun. Sjá nánar hér.

Lögreglu veittar nauðsynlegar heimildir

Alþingi samþykkti jafnframt breytingar á lögreglulögum að tillögu Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra þar sem heimildir lögreglu eru skýrðar og efldar í þágu afbrotavarna, ekki síst hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og öryggi ríkisins – allt í þágu öryggis borgaranna. Með nýjum lögum er skerpt á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í því skyni að draga úr brotastarfsemi. Jafnframt eru veittar afar takmarkaðar heimildir lögreglu til að grípa til beitinga þvingunarúrræða í afbrotavarnaskyni. Með því er lagður grunnur að enn frekari upprætingu á skipulagðri brotastarfsemi í landinu og gegn mögulegri hryðjuverkastarfsemi. Sjá nánar hér.

Nýtt og betra örorkulífeyriskerfi

Örorkulífeyriskerfið var tekið til endurskoðunar og samþykkti Alþingi ný lög þess efnis fyrir þinglok. Málið á sér langan aðdraganda en nefnd var sett á fót 2013 undir formennsku Péturs heitins Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokksins og byggja nýju lögin að stórum hluta á áheyrslum þeirrar vinnu. Í stað þriggja kerfa er tekinn upp einn örorkulífeyrir. Tekið er upp samþætt örorkumat í stað gamla matsins, stoppað er í göt í kerfinu, tekinn er upp hlutaörorkulífeyrir fyrir þá sem hafa 25-50% vinnugettu sem tryggir betur afkomu þeirra sem geta unnið hlutastörf, almennt frítekjumark er hækkað og sértækt frítekjumark kemur ofan á það fyrir þá sem eru á hlutaörorkulífeyri ásamt því sem virknistyrkur verður innleiddur sem er hugsaður sem tveggja ára stuðningur við þá sem eru í virkri atvinnuleit. Alls munu 95% örorkulífeyrisþega fá hærri greiðslur í nýja kerfinu og ýtir það jafnframt undir mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku, bætir kjör fólks og einfaldar kerfið frá því sem áður var. Sjá nánar hér.

Mannréttindastofnun sett á fót

Alþingi samþykkti í vor lög um nýja mannréttindastofnun sem Ísland hefur verið skuldbundið til að koma á fót síðan árið 2019. Er þar verið að uyppfylla svokölluð Parísarviðmið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf látið sig mannréttindi varða og stóð m.a. að lagabreytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995. Athygli hefur vakið að þingmenn Miðflokksins hafa farið mikinn yfir hinni nýju stofnun og látið eins og þeir viti ekki hvaðan á sig standi veðrið. Hins vegar samþykktu allir viðstaddir þingmenn Miðflokksins málið í atkvæðagreiðslu í þinginu árið 2019 og tóku þar með þátt í að skuldbinda Alþingi til að setja stofnunina á fót. Stofnuninni er ætlað að hafa eftirlit með þeim réttindum sem bundin eru í stjórnarskrá, er hún er þó ekki stjórnvald og valdheimildir hennar mjög takmarkaðar samanborið við aðrar eftirlitsstofnanir. Því til marks hefur hin nýja stofnun engin þvingunarúrræði. Sjá nánar hér.

Fæðingarorlofsgreiðslur hækka

Alþingi samþykkti breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og eins lög um sorgarleyfi. Breytingarnar fela í sér hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlfssjóði í þremur áföngum eða úr 600.000 kr. á mánuði í 900.000 kr. Fyrsta hækkun er afturvirk frá og með 1. apríl sl. en sú síðasta tekur gildi 1. janúar 2026. Þá hækka hámarksgreiðslur vegna sorgarleyfis með sama hætti. Með hækkun á greiðslum í sorgarleyfi er komið í veg fyrir að foreldrar sem verða fyrir barnsmissi á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verði fyrir tekjufalli við það að fá greiðslur í sorgarleyfi eftir barnsmissinn í staðinn fyrir að fá áframhaldandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Sjá nánar hér.

Stuðningur við Grindvíkinga o.fl.

Fleiri mál má nefna, m.a. fjöl­marg­ar stuðningsaðgerðir við fólk og fyr­ir­tæki vegna ástands­ins í Grinda­vík, sameiningu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs í nýjan öflugan sjóð, Nýsköpunarsjóðinn Kríu að tillögu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, lög um heim­ild til sölu á eign­ar­hluta rík­is­ins í Íslands­banka, kvótasetningu á grásleppu var komið á, húsnæðisbætur og barnabætur voru hækkaðar verulega ásamt því að dregið var úr tekjuskerðingum svo fleiri fjölskyldur fái notið stuðnings í formi barnabóta.