Óli Björn – Alltaf til hægri

Óli BjörnÓli Björn Kárason alþingismaður hefur haldið úti hlaðvarpi síðan í október 2019. Þar fjallar hann um stjórnmál, listir og menningu, umhverfismál, efnahagsmál, viðskipti og hugmyndafræði.

Hlaðvarpsþættina má finna á Podbean, Spotify, Apple Podcast, Stitcher, Castbox og Google podcast. Einnig má finna þættina hér að neðan.

 

44 – Stjórnmálamaður „á að vera hugrakkur, vinnusamur og hafa hjartað á réttum stað”

Vígfimur baráttumaður, hreinlyndur drengskaparmaður, hjartahlýr og hjálpfús, trygglyndur, hugrakkur stjórnmálamaður og orðheppinn húmoristi. Þannig hefur Ólafi Thors, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins til áratuga, verið lýst. Óumdeilt er að Ólafur var einhver áhrifamesti stjórnmálamaður okkar Íslendinga á síðustu öld.

Ólafur var óhræddur að feta inn á nýjar brautir í stjórnmálum – beita vinnubrögðum og aðferðum sem fáum hafði hugkvæmst eða ekki haft burði til.

43 – Lífið sjálft felur í sér áhættu

Lífið sjálft fel­ur í sér áhættu. Sá sem vill enga áhættu taka hreyf­ir sig aldrei, ger­ir eins lítið og hægt er, held­ur sig heima við, fer ekki út úr húsi, skap­ar ekk­ert, takmark­ar sam­skipti við aðra eins og mögu­legt er. Hægt en örugglega vesl­ast viðkom­andi upp and­lega og lík­am­lega – verður lif­andi dauður. Dauðinn einn tryggir að hægt sé að koma í veg fyr­ir áhættu lífs­ins.

Hið sama á við um sam­fé­lög og ein­stak­linga. Sam­fé­lag sem lok­ar á eða takmark­ar til lengri tíma mann­leg sam­skipti, slekk­ur ljós­in og stöðvar hjól at­vinnu­lífs­ins, molnar með tím­an­um að inn­an – hætt­ir að vera sam­fé­lag frjálsra borg­ara.

Tíma­bundn­ar aðgerðir sem skerða borg­ara­leg rétt­indi kunna að vera réttlætanlegar í nafni al­manna­ör­ygg­is. Slík­ar ráðstaf­an­ir eru neyðaraðgerðir á tímum mik­ill­ar óvissu. En þegar stjórn­völd skerða frelsi ein­stak­linga meira en hálfu ári eft­ir að óvissu­stigi var lýst yfir hér á landi vegna kór­ónu­veirunn­ar, þá dug­ar ekki leng­ur ein­föld til­vís­un í lög um sótt­varn­ir. Heim­ild­in verður að vera skýr og afdráttar­laus í lög­um og hún fæst ekki án aðkomu lög­gjaf­ans, jafnvel þótt ætlunin sé að slaka á klónni hægt og bítandi. Ákvarðanir stjórnvalda þurfa að styðjast við skýran bókstafa laga og þær mega ekki ráðast af hræðslu og ótta við að takast á við áhættur lífsins.

42 – Heimboð og vegtyllur – Forseti MDE gagnrýndur

Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu lagði nýlega land undir fót og heimsótti Tyrkland heim, átti fund með Erdógan forseta og þáði heiðurdoktorsnafnbót frá Háskólanum í Istanbúl,  „háskóla sem rak fjölda fræðimanna úr starfi á ólöglegan hátt“ líkt og Kenneth Roth, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Human Rights Watch benti réttilega á.

Á undanförnum árum hafa þúsundir blaðamanna, fræðimanna og pólitískir andstæðingar Er­dog­an for­seta verið hand­tekn­ir, flæmdir úr starfi. Dómskerfið hefur verið og er nú undir hæl stjórnvalda.

Róbert Spanó hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir heimsóknina og fulltrúar mannréttindasamtaka, tyrkneskir stjórnarandstæðingar og landflótta Tyrkir hafa kallað eftir afsögn hans sem forseta.  For­seti sjálf­stæðs dóm­stóls sem eigi að standa vörð um mann­rétt­indi fólks eigi ekki að þiggja heim­boð eða vegtyllur manns sem sé að breyta lýðræðis­ríki í ein­ræðis­ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin.

En Róbert á sína verjendur ekki síst hér á landi. Og fyrir marga er forvitnilegt hverjir hafa gripið til varna.

41 – Gölluð lagasetning – aukin áhætta launafólks

Alþingi samþykkti 3. september frumvarp félagsmálaráðherra um svokölluð hlutdeildarlán. Óhætt er að segja að stuðningur við málið hafi verið víðtækur og þvert á flokka. Allir þingmenn fyrir utan einn studdu frumvarpið í endanlegri mynd. Þessi eini sem sat hjá er stjórnarþingmaður og sá er hér talar.

Það er ekki einfalt eða léttvægt fyrir stjórnarþingmann að sitja hjá þegar frumvarp ríkisstjórnar kemur til atkvæða. Með rökum á halda því fram að hjáseta sé í raun ekki annað en yfirlýsing um að viðkomandi styðji ekki málið og jafngildi því að greiða atkvæði á móti stjórnarfrumvarpi.

En hvað eru hlutdeildarlán og af hverju gat ég ekki stutt stjórnarfrumvarp?

40 – Brostnar forsendur?

Borgarlínan er hluti af sérstökum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem undirritaður var með viðhöfn í Ráðherrabústaðnum í september síðastliðnum, en aðeins hluti. Áætlaður kostnaður er um 120 milljarðar króna á næstu 15 árum.

Markmið samkomulagsins er skýrt:

„Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.“

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, fór mikinn í grein í Morgunblaðinu 13. júlí síðastliðinn: „Einkabíllinn er ekki framtíðin“. Formaður skipulags- og samgönguráðs boðaði færri „bílaakreinar og færri bílastæði“ og Borgarlínu með „stórtækum hjólainnviðum“.

Ekki verður annað séð en að einbeittur ásetningu sé innan meirihluta borgarstjórnar að virða samgöngusáttmálanna – þ.e. þann hluta sem þeim hugnast ekki – að vettugi. Sé svo eru forsendur sáttmálans brostnar.

39 – Aukum súrefnið

Hægt og bít­andi verður mynd­in skýr­ari. Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins eru for­dæma­laus­ar. Öll stærstu hag­kerfi heims­ins hafa orðið fyr­ir þungu höggi vegna Covid-19. Þró­un­ar­banki Asíu taldi í maí að efna­hags­leg­ur kostnaður heims­ins af Covid-19 gæti orðið allt að 8,8 bill­jón­ir doll­ara eða 9,7% af heims­fram­leiðslunni.

Af­leiðing­ar Covid á ís­lenskt efna­hags­líf eru í mörgu al­var­legri en hjá öðrum lönd­um og skipt­ir þar mestu hve mik­il­væg ferðaþjón­ust­an er orðin eft­ir ótrú­lega upp­bygg­ingu á síðustu árum. Alþingi kem­ur sam­an síðar í mánuðinum til að af­greiða nýja fjár­mála­stefnu en 1. októ­ber kem­ur nýtt þing sam­an og þá legg­ur fjár­málaráðherra fram fjár­laga­frum­varp fyr­ir kom­andi ár. Það vit­laus­asta sem þingið get­ur gert við nú­ver­andi aðstæður er að freista þess að auka tekj­ur rík­is­ins með þyngri álög­um á fyr­ir­tæki og/​eða heim­ili.

38 – Sjálfstæði fjölmiðla og ríkisstyrkir

Sjálfstæðisfjölmiðlar hafa þurft að sæta því að eiga í sam­keppni við rík­is­fyr­ir­tæki, sem fær þvinguð fram­lög frá skattgreiðend­um en um leið frítt spil á sam­keppn­ismarkaði. Þrátt fyr­ir að erfið staða sjálf­stæðra fjöl­miðla hafi blasað við öll­um í mörg ár, hef­ur varðstaðan um Rík­is­út­varpið aldrei rofnað. Rík­is­út­varpið nýtur þess að vera í mjúk­um og hlýj­um faðmi stjórn­mála­manna. Meiri­hluti Alþing­is hef­ur ekki áhuga á að breyta leik­regl­un­um en virðist ein­huga í að koma frem­ur upp flóknu styrkja­kerfi fyr­ir einka­rekna fjöl­miðla, sem verða um leið háðir rík­is­vald­inu.

Mót­sögn­in um sjálf­stæða fjöl­miðla og rík­is­styrkt­an rekst­ur þeirra sam­kvæmt ákvörðunum op­in­berra út­hlut­un­ar­nefnda og stofn­ana, blas­ir við en veld­ur fáum áhyggj­um.

Sé vilji til þess að styrkja rekstur sjálfstæðra fjölmiðla er það best gert með lækkun skatta.

37 – Sjálfstæði þjóðar eflist með sjálfstæði einstaklinganna

Það er hollt og nauðsynlegt fyrir alla að þekkja söguna. Stjórnmálamenn samtímans verða að skynja úr hvaða jarðvegi hugmyndir þeirra og hugsjónir eru sprottnar. Fyrir talsmenn frelsis eru skrif og ræður Bjarna Benediktssonar (1908-1970), forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, ómetanlegur hugmyndafræðilegur leiðarvísir. Þótt aðstæður breytist og viðfangsefnin einnig er enn tekist á um grunnatriði stjórnmálanna.

Bjarni var sannfærður um nauðsyn þess að rjúfa einangrun Íslands, brjóta hlekki hafna og ófrelsis og tryggja opin samskipti við aðrar þjóðir. En um leið ítrekaði hann mikilvægi þess að Íslendingar héldu tryggð við trú og menningu: „En okkur Íslendingum tjáir ekki á sama veg og flestum öðrum að treysta á mannmergðina, heldur á manndáðina. Á Íslandi þarf sjálfstæði allrar þjóðarinnar að eflast af sjálfstæði einstaklinganna.“

36 – Frelsismálin kalla oft á þolinmæði

Það er innbyggður hvati fyrir þingmenn að afgreiða lagafrumvörp og ályktanir. Hvatinn er öflugri en virðist við fyrstu sýn. Þetta á einnig við um ráðherra. Það er hreinlega ætlast til þess að hver og einn ráðherra leggi fjölda frumvarpa fram á hverjum einasta þingvetri, líkt og það sé heilög skylda að breyta lögum þótt ekkert kalli á slíkt. Ráðherrar eru vegnir og metnir, – af þingmönnum og fjölmiðlum – út frá fjölda en ekki gæðum lagafrumvarpa sem þeir leggja fram.

„Við þurfum að koma uppskerunni í hús,” er leiðandi í verkum þeirra sem telja mestu skipta að afgreiða sem flest mál, ekki síst þau sem nefndir þingsins hafa tekið til umfjöllunar. Í sakleysi mínu hef ég bent á að hugsanlegt sé að hluti uppskerunnar sé ónýtur og geti því skemmt það sem þegar er komið í hlöðurnar. Sum mál – frumvörp ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu – eru einfaldlega þannig að hvorki himinn né jörð farast þótt þau dagi uppi og verði aldrei afgreidd (a.m.k. ekki óbreytt).

Þegar litið er yfir liðinn þingvetur verður að játa að frelsismálin voru ekki fyrirferðarmikil. En það voru nokkur mikilvæg skref stigin í rétta átt.

35 – Hugmyndasmiður frjálshyggjunnar

Friedrich Hayek fæddist í Vínarborg árið 1899 og lauk doktorsprófum í lögfræði og hagfræði frá Vínarháskóla. Þar var hann lærisveinn Ludwigs von Mises, sem var fremstur í hópi austurrísku hagfræðinganna svonefndu.

Hayek var einn helsti hugsuður frjálshyggju á 20. öldinni og hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1974. Árið 1944 gaf Hayek út bókina Leiðin til ánauðar (The Road to Serfdom), þar sem hann hélt því fram, að nasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama meiði. Áætlunarbúskapur hlyti að lokum að leiða til einræðis, þar sem hagvald og stjórnvald væri hvort tveggja á sömu hendi og móta þyrfti einstaklinga með góðu eða illu í samræmi við hina opinberu áætlun. Bók Hayeks vakti mikla athygli og er enn í dag mikilvæg í hugmyndabaráttunni.

Rauði þráðurinn í kenningum Hayeks er að séreignarétturinn á framleiðslutækjunum sé grunnskilyrði þess, að almenningur geti notið mannréttinda, – lýðræðis, atvinnufrelsis, prentfrelsis. Allar tilraunir til allsherjar skipulagningar atvinnulífsins af hálfu hins opinbera leiði til slíks ófrelsis fyrir einstaklingana, að líkja megi hag þeirra í slíku þjóðskipulagi við hag ánauðugra þræla . Eigi þetta jafnt við, hvort sem skipulagningin er framkvæmd af svonefndum „hægri-öflum” (fasisma eða nasisma) eða „vinstri-öflum” (sósíalisma eða kommúnisma).

34 – Níræður unglingur

Árangur Sjálfstæðisflokksins allt frá stofnun – við getum sagt lykillinn að árangri er öflug hreyfing ungs fólks, sem setur fram nýjar hugmyndir og er óhrætt að berjast fyrir hugsjónum. Ungir sjálfstæðismenn hafa alla tíð verið ögrandi, sett stefnu sína fram af festu og markað þannig brautina fyrir Sjálfstæðisflokkinn til framtíðar.

Laugardaginn 27. júní síðastliðinn fögnuðu ungir sjálfstæðismenn 90 ára afmæli Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Ég óska ungum sjálfstæðismönnum til hamingju á þessum tímamótum. Það er vissulega verk að vinna og nýjar áskoranir eru framundan.

33 – Varnarbarátta einkarekstrar

Ronald Reag­an, fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, hitti nagl­ann á höfuðið þegar hann lýsti hug­mynd­um rík­is­af­skipta­sinna:

„Ef það hreyf­ist, skatt­leggðu það. Ef það held­ur áfram að hreyf­ast, settu lög. Ef það stopp­ar, settu það á rík­is­styrk.“

Vel­ferðarsam­fé­lag góðra lífs­kjara verður ekki byggt upp með slíkri hug­mynda­fræði. En það skipt­ir þá engu sem í hjarta sínu telja einka­rekst­ur af hinu vonda.

32 – Skattaglaðir útgjaldasinnar og uppskurður

Við sem stönd­um and­spæn­is skattaglöðum út­gjalda­sinn­um og vilj­um stíga á út­gjalda­brems­una höf­um átt í vök að verj­ast. Við glím­um við and­stæðinga sem njóta dyggs stuðnings sér­hags­muna sem telja hags­mun­um sín­um best borgið með að kerfið þenj­ist út – að hlut­falls­lega kökusneiðin sé stærri þótt kak­an sjálf kunni að vera minni.

Það þarf sterk bein og póli­tískt þrek til að stand­ast þann þrýst­ing sem gæslu­menn sér­hags­muna beita. Og þrýst­ing­ur­inn kem­ur ekki síst frá þeim sem bet­ur eru sett­ir í sam­fé­lag­inu. Þeir sem lakast eru sett­ir eru ekki há­vær­ast­ir. Hóf­semd í kröfu­gerð um auk­in út­gjöld fer ekki eft­ir fjárhagsstöðu.

Skilningur á nauðsyn þess að gæta hófsemdar í álögum á fyrirtæki og einstaklinga er takmarkaður. Við sem teljum nauðsynlegt að koma böndum á skattagleði hins opinbera þurfum auðvitað að draga fram staðreyndir. Halda því til haga að skattbyrði á Íslandi, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, er sú þriðja þyngsta í Evrópu að teknu tilliti til lífeyris- og almannatrygginga. En staðreyndir duga ekki, það þarf að setja þær í samhengi við lífskjör almennings. Við verðum að læra að setja skattheimtu og reglubyrði í samhengi við samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölda starfa og möguleika fyrirtækja til að standa undir góðum launum og bættum lífskjörum.

31 – Evruland í tilvistarkreppu

Þær þrengingar sem riðið hafa yfir í kjölfar kórónuveirufaraldursins hafa afhjúpað með skýrum hætti hve efnahagsleg staða evrulandanna er misjöfn. Í einfaldleika sínum má segja að löndin í norðri njóti velmegunar umfram þau í suðri. Gjáin milli suðurs og norðurs heldur áfram að breikka – efnahagslegt ójafnvægi er orðið meira. Fyrir okkur Íslendinga er það ekki gleðiefni.

30 – Covid-19: Stundum eiga stjórnmálamenn að þegja

Stjórnmálamenn verða að beita sjálfa sig aga og standa þétt við bakið á sérfræðingum sem stjórna baráttunni gegn illvígum vírus. Við sem sitjum á Alþingi getum haft okkar skoðanir á einstökum ákvörðunum þeirra en við verðum að hafa andlegan styrk til að þegja að þessu sinni. Við þurfum að einbeita okkur að öðru – efnahagslegum aðgerðum til að lágmarka skaðann fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

Covid-19 ætlar að reynast alþjóðlegu efnahagslífi þyngri í skauti en nokkur reiknaði með. Hversu alvarleg eða langvarandi efnahagslegu áhrifin eru veit enginn. En við Íslendingar erum betur í stakk búnir en flestar aðrar þjóðir til að takast á við vandann – jafnt á sviði heilbrigðisþjónustu sem efnahagsmála. Við höfum safnað korni í hlöðurnar á undanförnum árum.

29 – Viðskiptafrelsi, sjálfstæði atvinnurekandinn og klípukapítalismi

Á meðan stjórnmálamenn (og embættismenn ekki síður) hafa jafnmikil áhrif á efnahagslífið og almennar leikreglur og raun ber vitni verða alltaf til fyrirtæki sem þeir telja „kerfislega mikilvæg“. Vegna þessa sé ekki aðeins nauðsynlegt að hafa með þeim eftirlit heldur ekki síður að búin sé til formleg eða óformleg bakábyrgð á rekstri þeirra. Ábyrgðina veita skattgreiðendur án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Sagan geymir fjölmörg dæmi frá flestum Vesturlöndum þar sem skattgreiðendur hafa fengið reikninginn fyrir „björgunaraðgerðum“ ríkisins – ekki aðeins þegar björgunarhring hefur verið hent út til fjármálafyrirtækja heldur einnig annarra stórfyrirtækja. „Kerfislega mikilvæg“? Kannski. En alveg örugglega pólitískt mikilvæg fyrir ráðandi öfl.

Ég ætla að fjalla aðeins um viðskiptafrelsi, samkeppni, sjálfstæða atvinnurekandann, hætturnar sem fylgja skattalegum ívilnunum, fyrirgreiðslu stjórnmálamanna, og klíkukapítalisma.

28 – Við erum að gera eitthvað rétt

Ísland er fyr­ir­mynd­ar­hag­kerfi í út­tekt Alþjóða efna­hags­ráðsins.

Ísland er ör­ugg­asta og friðsam­asta land heims.

Jafn­rétti kynj­anna er hvergi meira en á Íslandi.

Á Íslandi eru greidd hæstu meðallaun­in.

Í engu ríki OECD renn­ur stærri hluti af verðmæta­sköp­un efna­hags­lífs­ins til laun­fólks en á Íslandi.

Jöfnuður er meiri á Íslandi en á öðrum Norður­lönd­um.

Mér er til efs að nokk­ur smáþjóð hafi nokk­urn tíma alið af sér jafn­marga hæfi­leika­ríka lista­menn og Íslend­ing­ar, að ekki sé talað um af­reks­fólk í íþrótt­um.

Við erum að gera eitthvað rétt.

27 – Skattar, efnahagslegt frelsi og jafnræði einstaklinga

Efnahagslegt frelsi er einn af hornsteinum frjáls samfélags. Einn mikilvægasti þáttur efnahagslegs frelsis er rétturinn til að ráðstafa því sem aflað er. Hið sama á við um réttinn til að ráðstafa eignum án afskipta annarra.

Flest ef ekki öll lýðræðisríki hafa talið nauðsynlegt að innheimta skatta af tekjum einstaklinga. Rökin fyrir tekjuskatti hafa fyrst og síðast verið tvíþætt. Annars vegar sé hinu opinbera nauðsynlegt að afla tekna til að standa undir starfsemi ríkis og sveitarfélaga, og hins vegar eigi að nýta skattkerfið til að jafna lífskjörin – færa fjármuni frá einum til annars.

26 – „Lifandi” lögskýringar og veikt löggjafarvald

Löggjafinn – Alþingi – er fremur veikbyggður gagnvart framkvæmdavaldinu og sumir halda því fram að þingið sé lítið annað en afgreiðslustofnun, þar sem frumvörp ráðherra eru afgreidd á færibandi. Það er ekki aðeins framkvæmdavaldið sem hefur sótt að löggjafanum. Dómstólar hafa gert það með ákveðnum hætti. Hugmyndin um að dómstólar geti tekið sér „lagasetningarvald” er útbreidd í öllum hinum vestræna heimi.

25 – Við eigum mikið undir

Fáar þjóðir eiga meira undir flugi en við Íslendingar. Efnahagslegt mikilvægi flugrekstrar er gríðarlegt – meira en flestir gera sér grein fyrir. Við eigum hins vegar mörg verkefni ókláruð til að tryggja undirstöður flugsins og þar með ferðaþjónustunnar. Þetta er ekki bara spurning um efnahagslegt mikilvægi heldur ekki síður öryggi.

Enginn þingmaður hefur betri innsýn og skilning á flugi og mikilvægi þess en Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Ég kom ekki að tómum kofanum hjá honum þegar við ræddum um hve við erum efnahagslega háð flugi og ferðaþjónustu.

24 – Blæðandi hjarta íhaldsmanns

Jack Kemp var maður drenglyndis í stjórnmálum. Hann taldi sig eiga pólitíska andstæðinga en enga pólitíska óvini. Í hverjum andstæðingi sá hann mögulega bandamenn og var óhræddur við að hrósa demókrötum og eiga við þá samvinnu til að vinna að hagsmunum almennings.

Ronald Reagan og Jack Kemp sannfærðu samherja sína í Repúblikanaflokknum um að með bjartsýni á efnahagslega framtíð væri hægt að ná eyrum og stuðningi kjósenda sem áður höfðu fylgt demókrötum að málum – allt frá verkamönnum til minnihlutahópa, frá fátækum fjölskyldum stórborganna til millistéttarinnar.

23 – Elítan, umræðustjórnar og almenningur

Líklegast eru „umræðustjórar“ til í flestum frjálsum samfélögum – fólk sem er sannfært um að það sé best til þess fallið að ákveðna um hvað skuli fjallað, hvað skuli krufið til mergjar í fjölmiðlum og hvert kastljósið skuli beinast hverju sinni. Umræðustjórarnir eru ófeimnir við að fella dóma yfir mönnum og málefnum og óhræddir við fordæma „rangar“ skoðanir.

Umræðustjórarnir eru eða vilja a.m.k. vera hluti af valdastéttinni – elítunni sem telur sig hafa meiri burði og þekkingu en almenningur til að ákveða rétt og rangt. Þröngur hópur embættismanna, sérfræðinga og vel menntaðra háskólamanna hafa lengi talið sér það skylt að „leiðbeina“ almenningi til að komast að réttri niðurstöðu. Umræðustjórnir leika undir og gefa oft tóninn.

22 – Samvinna og áskoranir kynslóðanna

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar er áskorun sem kynslóðirnar verða að mæta í sameiningu. Góðu fréttirnar eru að við stöndum sterka að vígi efnahagslega, lífeyriskerfið með því öflugasta sem þekkist í heiminum, lífaldur er að hækka og lífsgæðin að aukast. Vondu fréttirnar eru þær að hlutfallslega verða æ færri á vinnumarkaði.

Við þurf­um hug­ar­fars­breyt­ingu. Ungt fólk verður að virða rétt þeirra eldri til að taka virk­an þátt í vinnu­markaðinum og skynja þau verðmæti sem fólg­in eru í reynslu og þekk­ingu. Að sama skapi verða þeir eldri að gefa yngra fólki svig­rúm, vera opn­ir fyr­ir nýj­um hug­mynd­um og aðferðum. Hug­ar­fars­breyt­ing­in felst í auk­inni sam­vinnu milli kynslóða.

21 – Grænir skattar: Góð hugmynd?

Það hljómar ekki illa að leggja á græna skatta enda allt vænt sem er vel grænt. Umhverfisskattar eru ekki nýtt fyrirbæri en með aukinni vitund um náttúruvernd hefur verið lögð áhersla á að slíkir skattar skuli innheimtir. Vísbendingar eru um að grænir skattar hafi neikvæð áhrif á tekjulága hópa. Skattarnir leggjast hlutfallslega þyngra á tekjulága en hátekjufólk. Ekki má heldur gleyma því að möguleikar fólks til að breyta hegðun sinni eru oft í réttu hlutfalli við tekjur. Hátekjumaðurinn á auðveldara með að taka strax þátt í orkuskiptum með því að kaupa sér rafmagnsbíl (og njóta raunar töluverðra ívilnana) en unga fjölskyldan sem hefur ekki efni á öðru en halda áfram að nota gamla bensínfjölskyldubílinn.

Sé tilgangurinn að baki grænum sköttum að stuðla að breyttri hegðun fyrirtækja og einstaklinga til að ná fram ákveðnum markmiðum í umhverfismálum, liggur það í hlutarins eðli að skattarnir skila æ minni tekjum eftir því sem árin líða.

20 – Fábreytilegt líf án listar

Sag­an kenn­ir okk­ur að póli­tískt sjálf­stæði þjóðar bygg­ist á sögu, tungu og menn­ingu. Glati þjóð arf­leifð sinni, mun hún fyrr frem­ur en síðar missa sjálf­stæði sitt. Sá er þetta skrif­ar er að minnsta kosti sann­færður um að öfl­ugt lista- og menn­ing­ar­líf sé brjóst­vörn fá­mennr­ar þjóðar – tryggi bet­ur en margt annað full­veldið.

Lífið án list­ar­inn­ar yrði fá­breyti­legt – grá­myglu­legt amst­ur þar sem hver dag­ur væri öðrum lík­ur. List­in og menningin eru krydd lífs­ins og and­legt fóður hvers og eins.

Marg­ir telja nauðsyn­legt að hið op­in­bera verji veru­leg­um fjár­mun­um til lista- og menn­ing­ar­starf­semi. Á hverju ári er ákall um auk­in framlög. Svo eru þeir til sem telja rétt að draga úr eða jafn­vel hætta öll­um op­in­ber­um stuðningi. Ég hef lengi verið sann­færður um að op­in­bert stuðnings­kerfi við ís­lenska lista­menn þjóni ekki mark­miðum um fjölbreytta og öfl­uga listastarf­semi. Kerfið vinn­ur á móti nýj­um hug­mynd­um og haml­ar því að nýtt blóð fái að renna um æðar lista­heims­ins.

19 – Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt …

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur trú­in verið tor­tryggð. Við sem tök­um und­ir með þjóðskáld­inu og trú­um á tvennt í heimi; Guð í al­heims­geimi og Guð í okk­ur sjálf­um, erum sögð ein­feldn­ing­ar og af sum­um jafn­vel hættu­leg. Í hraða nú­tím­ans er sú hætta fyr­ir hendi að við tök­um upp siði Bakka­bræðra sem töldu sig geta bjargað glugga­leysi með því að bera sól­ar­ljósið inn í bæ­inn. Í pre­dik­un í Hall­gríms­kirkju á öðrum degi jóla árið 2002 velti herra Sig­ur­björn Ein­ars­son bisk­up því fyr­ir sér af hverju krist­in trú ætti und­ir högg að sækja:

„Maður nú­tím­ans á erfitt með að skilja að það sé ein­hvers virði sem ekki þarf að kaupa eða kló­festa. Hann get­ur svo mikið sjálf­ur. Er það ekki þess vegna sem krist­in trú er svo lít­ils met­in af mörg­um? Hún er rétt eins og sól­in, sem bara gef­ur geisl­ana sína og heimt­ar ekk­ert annað en að fá að lýsa og verma og gefa líf.“

Séra Karl V. Matthíasson fékk mig til að flytja stutta hugvekju á öðrum sunnudegi aðventu í Guðríðarkirkju. Ég sótti í smiðju herra Sigurbjarnar Einarsson en sagði einnig frá afa mínum, Guðjóni bakara, sem 24 ára gamall kom ungri ekkju og fimm börnum hennar til aðstoðar. Og mér er lítil vísa séra Valdimars Briem hugleikinn:

Það engin er dyggð þótt þú elskir þá heitt

sem ástríki mesta þér veita.

Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt

þá síst má það kærleikur heita.

18 – Kerfið er alltaf á vaktinni

Kerfið er á vakt­inni yfir eig­in vel­ferð og þegar að því er sótt get­ur það sýnt klærn­ar. Dæm­in eru mörg, misal­var­leg og hafa valdið ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um fjár­hagstjóni en einnig a.m.k. tíma­bundn­um álits­hnekki og erfiðleik­um. Tvö ný­leg dæmi eru langt frá því að vera þau al­var­leg­ustu held­ur gefa þau ákveðna inn­sýn í inn­gró­inn hugs­ana­hátt kerf­is­ins. Annað dæmið snert­ir Seðlabank­ann og sam­skipti við blaðamann, hitt er viðbrögð for­ráðamanna og vel­unn­ara Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins við frum­varps­drög­um ráðherra sam­keppn­is­mála sem lögð hafa verið fram til kynn­ing­ar og umræðu.

17 – Múr skammarinnar

Árið 1989 riðaði sósí­al­ism­inn til falls í Aust­ur-Evr­ópu. Sov­ét­rík­in glímdu við gríðarlega efna­hags­lega erfiðleika og mat­ar­skort. Í Póllandi hafði frels­is­bylgja þegar náð að leika um landið und­ir fán­um Sam­stöðu. Í ág­úst mynduðu tvær millj­ón­ir íbúa Eystra­salts­ríkj­anna – Eist­lands, Lett­lands og Lit­há­ens – 600 kíló­metra langa keðju þvert yfir lönd­in, til að krefjast sjálf­stæðis frá Sov­ét­ríkj­un­um. Ung­verja­land opnaði landa­mær­in til Aust­ur­rík­is.

Nokkr­um mánuðum fyr­ir fall múrs­ins – sem Willy Brandt kallaði múr skamm­ar­inn­ar – hafði heim­ur­inn hins veg­ar verið minnt­ur óþyrmi­lega á hversu reiðubún­ar alræðis- og kúg­un­ar­stjórn­ir eru til að beita eig­in lands­menn of­beldi.

16 – Öflugt tæki til jöfnuðar

Það er rannsóknarefni að enn skuli rifist um verkaskiptingu hins opinbera og einkafyrirtækja, hvort heldur á sviði heilbrigðisþjónustu eða menntunar. Íslensk heilbrigðisþjónusta kemst ekki af án einkarekstrar. Íslenskt menntakerfi er blómlegra og öflugra vegna sjálfstætt starfandi skóla – Ísaksskóli, Hjallastefnan, Verslunarskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Ég hef orðið fyrir vonbrigðum vegna þess hversu illa hefur tekist að innleiða með skipulegum hætti samkeppni um þjónustu sem við höfum tekið ákvörðun um að standa sameiginlega undir.

15 – Ríki barnfóstrunnar

„Almenningur er fávís og því þarf að hafa vit fyrir honum og verja gagnvart sjálfum sér.”

Auðvitað er þetta aldrei sagt upphátt en er þó grunnstefið í hugmyndafræði stjórnlyndra manna, sem telja nauðsynlegt að ríkið sé alltumlykjandi. Án barnfóstru ríkisins sé hætta á að einstaklingar fari sér að voða eða valdi samferðamönnum sínum skaða. Ekkert mannlegt er barnfóstrunni óviðkomandi og vandmál eru hennar sérgrein. Þetta vita hinir stjórnlyndu og við hin sitjum aðgerðalítil hjá. Stjórnsýslan, fjölmiðlar og stjórnmálin eru gegnsýrð af hugmyndafræði barnfóstruríkisins. Ekkert vandamál er of lítið og ekkert of stórt til að barnfóstran sé ekki kölluð á vettvang. Og nú þarf fóstran ekki aðeins að huga að íslenskum „kjánum“ heldur ekki síður að þeim þúsundum erlendra ferðamanna sem streyma til landsins.

14 – Bakari, leikari og íhaldsmaður

Guðjón Sigurðsson bakarameistari var ekki hár í lofti en samsvaraði sér ágætlega, snaggaralegur og kvikur í hreyfingum, glaðlegur og hressilegur í framkomu, fundvís á spaugilegar hliðar lífsins. Einstakur sögumaður þar sem meðfæddir leikhæfileikar fengu útrás.

Guðjón fæddist á Mannskaðahóli í Hofshreppi 3. nóvember 1908. Hann átti og rak Sauðárkróksbakarí í áratugi. Guðjón bakari var leikari af guðs náð og átti góðar samvistir við leiklistargyðjuna, ekki síst þegar hann fékk að njóta sín í gamanleik. Þar fékk léttlyndi og kímnigáfa hans að njóta sín. En hann hafði alla tíð ákveðnar skoðanir á þjóðmálum og sjálfstæðismaður inn að beini og átti erfitt með að skilja hvernig nokkur maður gæti verið annað.

Hér er sagt lítillega frá manni sem var af kynslóð sem lagði grunninn að því samfélagi velferðar sem Íslendingar búa við þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Hann byggði upp glæsilegt iðnfyrirtæki í litlu bæjarfélagi og lét ekki áföll drepa sig niður.

13 – Sjálfstæði sveitarfélaga

Reglu­lega koma fram hug­mynd­ir um að rétt sé og skylt að þvinga fá­menn sveit­ar­fé­lög til að sam­ein­ast öðrum. Lærðir og leikn­ir taka til máls og færa fyr­ir því (mis­jöfn) rök að það sé lífs­nauðsyn­legt að fækka sveit­ar­fé­lög­um til að ná fram hag­kvæmni stærðar­inn­ar. Til­lög­ur um fækk­un sveit­ar­fé­laga eru ekki frum­leg­ar enda byggj­ast þær á þeirri trú að það sem er lítið sé veik­b­urða og aumt en hið stóra og fjöl­menna sterkt og burðugt. Sem sagt: Stórt er betra en lítið og fjöl­menni er hag­kvæm­ara en fá­menni.

12 – Leikreglurnar eru skakkar – það er vitlaust gefið

Það er eitthvað öfugsnúið við að fjárhagur ríkisfyrirtækis í samkeppnisrekstri vænkist með hverju árinu sem líður á sama tíma og mörg einkafyrirtæki berjast í bökkum. Leikreglurnar eru skakkar – það er vitlaust gefið. Það eru hins vegar litlar eða engar líkur á því að leikreglunum verði breytt á komandi árum, a.m.k. ekki þegar kemur að ríkisrekstri fjölmiðla. Öllum má vera það ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þingmanna stendur dyggilega vörð um Ríkisútvarpið.

11 – Fábreytni og höft – frelsi og tækifæri

Fyr­ir yngra fólk sem geng­ur að frels­inu sem vísu og tel­ur góð lífs­kjör sjálf­sögð er erfitt að skilja þjóðfé­lags­bar­átt­una sem oft var ill­víg, fyr­ir og eft­ir síðari heims­styrj­öld. Tek­ist var á um hug­mynda­fræði miðstýr­ing­ar og alræðis ann­ars veg­ar og at­hafna­frels­is ein­stak­ling­anna hins veg­ar. Þegar tveir ungir menn frá Sauðár­króki ákváðu að leggj­ast í víking til Kan­ada 1954 var flestu í íslensku efnahagslífi hand­stýrt af stjórn­völd­um. Atvinnulífið var fátæklegt og veikburða. Fjár­mála­markaður var ekki til og vext­ir voru ákveðnir af rík­is­stjórn. Gengi var mis­mun­andi eft­ir vör­um og svarta­markaður með gjald­eyri var í blóma. Flest var háð leyf­um og vöru­úr­val fá­tæk­legt.

10 – Heilbrigðiskerfið – við erum öll sjúkratryggð

Í ein­fald­leika sín­um má halda því fram að út­gjöld rík­is­ins vegna heil­brigðismála séu fjár­mögnuð með iðgjöld­um okk­ar allra – skött­um og gjöld­um. Við höf­um keypt sjúkra­trygg­ing­ar sam­eig­in­lega til að standa und­ir nauðsyn­legri þjón­ustu. Grunn­ur sam­eig­in­legra sjúkra­trygg­inga er jafn­ræði.

Þegar sjúk­ling­ur sem þarf á þjón­ustu að halda verður að bíða mánuðum sam­an til að fá bót meina sinna er í raun verið að svipta hann sjúkra­trygg­ingu. Grunn­ur sam­eig­in­legra sjúkra­trygg­inga moln­ar. Hug­sjón­in um aðgengi allra að góðri og nauðsyn­legri þjón­ustu er merk­ing­ar­laus þegar beðið er á biðlist­um rík­is­ins.

9 – Byggðastefna framtíðarinnar

Kannski er ein­fald­ast að lýsa skyn­sam­legri byggðastefnu með eft­ir­far­andi hætti:

Byggðastefna framtíðar­inn­ar felst fyrst og síðast í því að draga úr op­in­ber­um af­skipt­um og áhrif­um stjórn­mála­manna og emb­ætt­is­manna á dag­legt líf al­menn­ings – að tryggja val­frelsi borg­ar­anna til starfa og bú­setu.

8 – Stundum þarf að segja hlutina eins og þeir eru

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kemur hreint fram og segir hlutina eins og þeir eru. Hann þolir illa pólitískan réttrúnað. Brynjar er fyrsti gestur minn og við förum yfir víðan völl.

7 – Hófsemd, málamiðlun og samræðustjórnmál

Hugmyndin um að hófsemd sé dyggð í baráttu hugmynda er ein birtingarmynd hins pólitíska rétttrúnaðar sem náð hefur að festa rætur í íslensku samfélagi líkt og í öðrumlýðræðisríkjum. Málamiðlun er talin skynsamlegust. Krafan er að svokölluð samræðustjórnmál komi í stað átakastjórnmála. Rökin fyrir því að hófsemd sé dyggð í stjórnmálabaráttu byggir hins vegar á nokkrum misskilningi. Það er engin dyggð að gæta hófsemdar í baráttu fyrir mannréttindum og frelsi. Þetta á við um réttindabaráttu samkynhneigðra, um jafnan rétt kynjanna, um baráttuna gegn ofurvaldi yfirstétta. Þau ríki þar sem átök hugmynda – samkeppni hugmynda – hefur verið leyfð eru mestu og öflugustu velferðarríki heims.

6 – Séreignastefna er frelsisstefna

Eignamyndun millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri laun stendur á tveimur meginstoðum. Annars vegar á lífeyrisréttindum og hins vegar á verðmæti eigin húsnæðis. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði. Við hægri menn höfum kallað þetta séreignarstefnu og bent á að hún sé einn af hornsteinum borgaralegs samfélags. En séreignarstefnan er lítið annað en frelsisstefna – leið að því markmiði að launafólk búi við fjárhagslegt sjálfstæði.

Ekki eru allir hrifnir af séreignarstefnunni – frelsinu sem fylgir eignamyndun og fjárhagslegu sjálfstæði, svo merkilegt sem það er.

5 – Náttúruvernd er arðbær

Nátt­úru­vernd get­ur verið ágæt­lega arðbær og því skyn­sam­leg frá sjón­ar­hóli hag­fræðinn­ar. Nýt­ing nátt­úr­unn­ar og vernd henn­ar fara vel sam­an eins og Íslending­ar hafa sýnt fram á með fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu. Þar tvinn­ast nátt­úru­vernd og arðbær nýt­ing í eitt. Íslensk ferðaþjón­usta á allt sitt und­ir náttúruvernd. Hreint vatn og heil­næm mat­væli verða aldrei að fullu met­in til fjár, en eru ein und­ir­staða góðra lífs­kjara.

4 – Kjarabarátta

Ég er sam­mála þeim for­ystu­mönn­um verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar sem halda því fram að tekjuskattskerfi ein­stak­linga sé rang­látt og að hvat­ar kerf­is­ins séu vitlaus­ir. Launa­fólki er oft refsað fyr­ir að bæta sinn hag. Við eig­um sam­leið í bar­átt­unni um að lækka skatta á venju­legt launa­fólk. Ég hef lagt fram ákveðnar tillög­ur um kerf­is­breyt­ingu, en þær eru langt í frá að vera þær einu sem gætu verið skyn­sam­leg­ar. En ég á hins veg­ar enga sam­leið með þeim sem telja nauðsyn­legt að láta kjara­bar­áttu snú­ast um að rýra kjör annarra.

3 – Stjórnarskrá: Ríkisstjórn laga – ekki manna

Stjórn­ar­skrá­in er æðsta rétt­ar­heim­ild Íslands og yfir önn­ur lög haf­in. Grund­vall­ar­rit­um á ekki að breyta nema brýna nauðsyn beri til. Þeim þjóðum vegn­ar best sem um­gang­ast stjórn­ar­skrá af virðingu og vinna að breyt­ing­um af yf­ir­veg­un, þannig að sátt og al­menn­ur stuðning­ur sé við það sem gert er. Svipti­vind­ar, tísku­sveifl­ur eða dæg­ur­flug­ur ein­stakra stjórn­mála­manna og -flokka geta ekki orðið und­ir­staða breyt­inga á stjórn­ar­skrá lýðfrjálsra ríkja. Stjórn­ar­skrá legg­ur grunn­inn að rík­is­stjórn laga en ekki manna.

2 – Klisjur og merkimiðapólitík

Ekki verður annað séð en að þeim stjórnmálamönnum fjölgi fremur en fækki sem telja það til árangurs fallið að nota merkimiða á sjálfa sig en ekki síður á pólitíska andstæðinga. Klisjur og merkimiðar eru oft árangursrík aðferð og gefa stjórnmálamönnum tækifæri til að forðast efnislegar umræður um mikilvæg mál.

1 – Hvað er ríkið alltaf að vasast?

Ég óttast að skilgreining á ríkisvaldinu og hlutverki þess verði stöðugt óskýrari – fremur þokukennd hugmynd. Fyrir marga hentar það vel. Eftir því sem markmiðin, skyldurnar og verkefnin eru óljósari því greiðari er leið ríkishyggjunnar. Mörkin milli ríkisins og einstaklingsins, milli ríkisrekstrar og einkarekstrar, þurrkast hægt og bítandi út.