Sjálfstæðisstefnan í hnotskurn

Hvað felst í sjálfstæðisstefnunni? Trúin á manninn og frelsisþrá hans er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar. Frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, frjálst framtak, frjáls verslun og frelsi einstaklinganna eru kjarni sjálfstæðisstefnunnar.  Samtímis leggur sjálfstæðisstefnan mikla áherslu á að tryggja afkomu þeirra og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu. Með öðrum orðum; tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi.  Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl hvort sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar. Áherslan er að hjálpa þeim sem lenda í hremmingum til sjálfshjálpar, þar sem það er nokkur kostur.

Hvernig varð sjálfstæðisstefnan til? Sjálfstæðisflokkurinn varð til þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929. Þarna runnu saman borgaraleg öfl sem vildu koma ríkisfjármálum á traustan grunn, m.a. með varfærinni fjármálastjórn, sem ekki tæki úr hófi fram fyrir hendur hvers einstaklings. Baráttan fyrir sjálfstæði þjóðarinnar var líka grunnþáttur í stefnu flokksins. Flokkurinn vildi þá sem nú beita sér fyrir umbótum í landinu og leysa landkosti þess úr læðingi með frumkvæði borgaranna og verklegum framförum, ekki síst nýsköpun, án öfga og átaka.

Hvert er hlutverk ríkisins samkvæmt sjálfstæðisstefnunni? Traust ríkisvald er nauðsynlegt, en verksvið þess þarf að vera skýrt markað.  Ríkisvaldið á að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.  Það kemur fram fyrir hönd íbúanna út á við og gætir hagsmuna þeirra gagnvart öðrum þjóðum.  Það sinnir ýmsum sameiginlegum þörfum, sem einstaklingar geta ekki sinnt eða láta undir höfuð leggjast að sinna.  Öllum Íslendingum skal tryggt jafnrétti; jafn réttur til menntunar og starfa og skilyrði til að þroska og fá notið hæfileika sinna.  Afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu eiga umfram allt að vera takmörkuð og heyra til undantekninga.  Ríkið lifir ekki sjálfstæðu lífi, það er til fyrir fólkið og vegna fólksins, ekki öfugt. Fólkið segir ríkinu fyrir verkum en ríkið ekki fólkinu. Þess vegna leggur Sjálfsstæðisflokkurinn höfuðáherslu á lága skatta og ábyrga nýtingu skattfjár.

Í sjálfstæðisstefnunni felst að hver og einn fái tækifæri til þess að dafna og blómstra í lífinu, efli þannig og styrki land og þjóð, þannig að þeir sem höllum fæti standa fái skjól og liðsinni, að enginn verði út undan. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja eldri borgurum áhyggjulaust ævikvöld með öflugu og sanngjörnu lífeyriskerfi. Allir eiga að geta sótt sér fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags, búsetu eða annarra slíkra aðstæðna. Sjálfstæðisflokkurinn vill að heilbrigðiskerfið sé bæði vel fjármagnað og vel rekið, flokkurinn styður fjölbreytt rekstrarform sem setur velferð almennings ofar öðru.

Hvað greinir sjálfstæðisstefnuna frá hugmyndafræði annarra flokka?  Sjálfstæðisstefnan lýsir sameiginlegu lífsviðhorfi fremur en niðurnjörfaðri hugmyndafræði og vísar á bug þeim tilburðum sem aðrir flokkar hafa haft til þess að greina þjóðina í hópa og stéttir, sem tefla hverri gegn annarri vegna ólíkra hagsmuna.  Félagshyggjuflokkarnir hafa t.d. jafnan haft uppi vígorð um hina eilífu stéttabaráttu en svar sjálfsstæðisstefnunnar liggur í kjörorði Sjálfstæðisflokksins: „Stétt með stétt.”  Það getur ekki verið fámennri þjóð til góðs að stéttirnar séu í eilífum átökum heldur sé í landinu ein þjóð sem hafi í reynd sameiginlegra hagsmuna að gæta. Hvert og eitt okkar hefur sjálfstæðan rétt til lífs, frelsis og athafna, óháð þjóðfélagshópi, stétt, búsetu eða uppruna.

Hvaða sýn hefur Sjálfstæðisflokkurinn í umhverfismálum? Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi lagt áherslu á náttúruvernd, uppgræðslu landsins og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Flokkurinn talar fyrir skynsemishyggju og hefur bæði í ríkisstjórn og sveitarstjórnum beitt sér fyrir friðlýsingu náttúrunnar, hitaveituvæðingu Íslands, orkuskiptum frá olíu í rafmagn, orkuöryggi, sjálfbærri auðlindanýtingu sem byggir á bestu vísindaþekkingu og áfram mætti telja. Sjálfstæðisflokkurinn vill varðveita verðmætin sem felast í íslenskri náttúru til hafs og lands með hagsmuni komandi kynslóða í huga.

Hvað segir Sjálfsstæðisflokkurinn um alþjóðasamvinnu? Sjálfsstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á öfluga alþjóðasamvinnu og opin alþjóðaviðskipti. Þannig eru hagsmunir smáríkis best tryggðir. Slík samvinna má þó aldrei draga úr fullveldi lands og þjóðar, sem fyrri kynslóðir lögðu allt í sölurnar til að ná. Kjarninn í alþjóðlegu samstarfi Íslands byggir á frelsi, mannréttindum, velferð og sameiginlegum gildum og hagsmunum. Sjálfsstæðisflokkurinn vann að aðild Íslands að helstu alþjóðlegum stofnunum svo sem Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og Evrópska efnahagssvæðinu, vill viðhalda henni og treysta viðskipti við aðrar þjóðir á grundvelli fríverslunar.

Hvað segir sjálfsstæðisstefnan um lýðræði og frelsi? Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur sem er fylgjandi valddreifingu í þjóðfélaginu. Hann setur traust sitt og trú á hverja manneskju í þeirri vissu, að fái frumkvæði, framkvæmdaþróttur og kapp hvers og eins notið sín, miði samfélaginu öllu skjótast áfram.  Stefna flokksins miðast við það, að fólk fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig fram, sér og sínum til viðurværis, hagsbóta og ánægju. Sjálfstæðisstefnan leggur áherslu á að sjálfstæðisbaráttan getur aldrei tekið enda. Lýðræði og lýðfrelsi er ekki tryggt, vegna þess eins að þingkosningar og sveitarstjórnarkosningar fara fram fjórða hvert ár.  Ef t.d. þessar stofnanir fólksins, þing og sveitarstjórnir, gleyma að vald þeirra kemur frá fólkinu og fara að haga sér eins og opinberar stofnanir hafi sjálfstæðar þarfir, er bæði lýðræði og lýðfrelsinu hætta búin. Frelsi verður aldrei tryggt í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna eru önnur kjörorð Sjálfstæðisflokksins „Báknið burt.”