Alþjóðasamstarf

Sjálfstæðisflokkurinn tekur virkan þátt í ýmsu alþjóðasamstarfi. Flokkurinn tekur bæði þátt í samstarfi flokkahópa sem og í tvíhliða samstarfi við ýmsa systurflokka svo sem íhaldsflokka Bretlands, Noregs, Danmerkur og Færeyja, CDU í Þýskalandi o.fl.

Meðal helstu flokkahópa sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í er Flokkahópur hægrimanna í norrænu samstarfi og Evrópusamtökin ACRE.

Flokkahópur hægrimanna í norrænu samstarfi

Auk Sjálfstæðisflokksins eiga aðild að samstarfinu sjö íhaldsflokkar á Norðurlöndum.  Flokkarnir eru: Danski Íhaldsflokkurinn, Fólkaflokkurinn í Færeyjum, Hægriflokkurinn í Noregi, Moderaterna í Svíþjóð, Moderaterna á Álandseyjum, Óháði flokkurinn á Álandseyjum og Kokoomus í Finnlandi.

Samstarfið fer að mestu fram á vettvangi Norðurlandaráðs en þó starfar hópurinn jafnframt utan þess. Flokkarnir vinna að framgangi sameiginlegra hugsjóna innan norræns samstarfs og skipuleggja sig á vettvangi flokkahópsins.  Hér má nálgast frekari upplýsingar um flokkahópinn.

Evrópusamstarf

Sjálfstæðisflokkurinn ákvað árið 2011 að taka þátt í alþjóðasamstarfi hægrimanna á Evrópusambandsvettvangi sem leggja áherslu á samvinnu Evrópuríkja, en hafa efasemdir um ágæti þróunar í átt að sambandsríki. ACRE eru alþjóðleg samtök stjórnmálaflokka sem aðhyllast Evrópusamstarf sem og hugmyndir um einstaklingsfrelsi, þingræði, virðingu fyrir fullveldi þjóðríkja, takmörkun ríkisvalds og opna og frjálsa markaði auk þess sem þeir hafa efasemdir um frekari samruna ESB-landa. Samtökin voru stofnuð að frumkvæði breska Íhaldsflokksins í október 2009 í kjölfar stofnunar Evrópuþinghóps íhaldsmanna og umbótasinna (ECR) sem stofnaður var í júní sama ár. Í dag er ECR þriðji stærsti Evrópuþinghópurinn.  Rétt er að taka fram að aðild að Evrópuþinghópi ECR jafngildir ekki aðild að Evrópusamtökunum ACRE né öfugt. Upplýsingar um alla þá flokka og einstaklinga sem eiga aðild að AECR má nálgast á heimasíðu samtakanna.

Helstu stefnumál ACRE, sem koma fram í Reykjavíkuryfirlýsingu samtakanna, eru aukið viðskipta- og athafnafrelsi, áhersla á frjáls og sanngjörn viðskipti, lækkun skatta, takmörkun ríkisvalds í þágu einstaklingsfrelsis og þjóðarhags. Samtökin vilja draga úr skriffinnsku hjá stofnunum Evrópusambandsins og stuðla að auknu gegnsæi. Þá leggja þau megináherslu á vestrænt samstarf, m.a. innan NATO, þar sem virðing er borin fyrir fullveldi þjóðríkja hvort sem þau eru ný eða gömul, lítil eða stór. Einnig leggja samtökin áherslu á orkuöryggi í formi sjálfbærrar og hreinnar orku. Allir flokkar sem eiga aðild að samtökunum undirgangast þessi grundvallarsjónarmið.

Stefna ACRE fellur vel að grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Þar vegur auðvitað þungt áhersla samtakanna á frelsi einstaklingsins sem og gagnrýni þeirra á aukna miðstýringu innan Evrópusambandsins og þróun þess í átt að sambandsríki. Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn leggja samtökin mikla áherslu á vestræna samvinnu í anda þeirra grunngilda sem talin voru upp hér að ofan.

Í raun má segja að árið 2011 hafi valið staðið milli þess að starfa á vettvangi ACRE eða hinna stóru samtaka evrópskra hægrimanna; Evrópska Þjóðarflokksins (EPP).  Þar skilur hins vegar verulega á milli hvað varðar þróun Evrópusambandsins, en á meðal systurflokka Sjálfstæðisflokksins sem hafa valið EPP sem sinn samstarfsvettvang eru flestir mjög hlynntir aðild ríkja sinna að Evrópusambandinu og jafnvel sáttir við þróun þess.