Fæðingarorlofsgreiðslur hækkaðar í 900.000 kr. á mánuði

Alþingi samþykkti í vor breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og eins lögum um sorgarleyfi.

„Aðgerðin dregur úr tekjufalli foreldra í fæðingarorlofi og gerir foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þetta hefur verið eitt af helstu stefnumálum Sjálfstæðisflokksins um árabil en hámarkið hefur staðið í stað síðan 2019 þrátt fyrir miklar launa- og verðlagshækkanir. Það var ánægjulegt að frumvarpið tók breytingum í meðförum þingsins og tekur hækkunin frá 1. apríl til allra þeirra sem eiga rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði,“ segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Breytingarnar fela í sér hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlfssjóði í þremur áföngum eða úr 600.000 kr. á mánuði í 900.000 kr. Fyrsta hækkun er afturvirk frá og með 1. apríl sl. en sú síðasta tekur gildi 1. janúar 2026.

Þá hækka hámarksgreiðslur vegna sorgarleyfis með sama hætti.

Gert er ráð fyrir að fyrirhugaðar breytingar á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2025 og 2026 verði síðan gerðar með reglugerð.

Með hækkun á greiðslum í sorgarleyfi er komið í veg fyrir að foreldrar sem verða fyrir barnsmissi á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verði fyrir tekjufalli við það að fá greiðslur í sorgarleyfi eftir barnsmissinn í staðinn fyrir að fá áframhaldandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

„Þrátt fyrir að vera fremst meðal þjóða heims þegar kemur að launajafnrétti kynjanna þá er launamunur enn til staðar. Það er eitthvað sem verður ekki lagað með jafnlaunavottun heldur fyrst og fremst með því að jafna tækifæri foreldra á vinnumarkaði. Með hærra þaki á fæðingarorlofsgreiðslur erum við taka stórt skref í þá átt,“ segir Berglind Ósk enn fremur.