Alþingi samþykkti breytingar á lögum um örorkulífeyri fyrir þinglok. Málið á sér langan aðdraganda en nefnd var sett á fót 2013 undir formennsku Péturs heitins Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokksins og byggja nýju lögin að stórum hluta á áheyrslum þeirrar vinnu.
Í stað þriggja kerfa, annars vegar innan almannatrygginga og hins vegar félagslega kerfisins, verður einn örorkulífeyrir sem gildir fyrir þá sem ekki geta verið á vinnumarkaði. Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Samþætt sérfræðimat verður tekið upp í stað gamla örorkumatsins. Í stað þess að horfa eingöngu til læknisfræðilegra þátta verður litið heildrænt á stöðu einstaklings út frá umhverfi og aðstæðum.
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur verða teknar upp í stað endurhæfingarlífeyris og stoppað í göt í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests. Áfram verður þó notast við endurhæfingaráætlun.
Hlutaörorkulífeyrir verður fyrir þá sem hafa 25-50% vinnugetu. Það á að gera fólki kleift að auka tekjur sínar með atvinnu eftir því sem fólk getur. Hlutaörorkulífeyrir er nýmæli sem ætlað er að tryggja betur afkomu þeirra sem geta unnið hlutastörf.
Almennt frítekjumark verður hækkað og verður 100.000 krónur. Tekjur fólks skerðast þá ekki fyrr en tekjur þess annars staðar frá ná 100.000 kr.
Sértækt frítekjumark verður 250.000 kr. til viðbótar við hið almenna frítekjumark og er hugsað fyrir þá sem eru á hlutaörorkulífeyri.
Með samhæfingarteymi á aukin þjónusta og samtal á milli stofnana að gera það að verkum að fólk lendur síður milli skips og bryggju í kerfinu. Samhæfingarteymi hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustuaðila og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
Virknistyrkur verður innleiddur sem er hugsaður til allt að tveggja ára sem stuðningur við þá sem eru á hlutaörorku og eru í virkri atvinnuleit. Að tveimur árum liðnum má ófska aftur eftir samþættu sérfræðimati.
Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
Alls munu 95% örorkulífeyrisþega fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Lögin koma til framkvæmda 1. september 2025.