„Nú eru liðnir 8 mánuðir frá fyrsta smiti og fyrstu aðgerðum og þá er óhjákvæmilegt að Alþingi láti málið til sín taka,“ sagði Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis í dag í sérstakri umræðu á Alþingi um munnlega skýrslu forsætisráðherra um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnarráðstafana. Auk Sigríðar tók Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins til máls fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
„Þegar menn segjast ætla að fylgja ráðum sérfræðinganna þá þurfa menn að hafa það í huga að sérfræðingum ber ekki saman. Ekki í þessum faraldri eða nokkrum öðrum heldur hafa verið uppi margar skoðanir og mismunandi áherslur þeirra á hvaða leiðir ætti að fara til þess að kveða niður þessa veiru. Í öðru lagi vaknar upp spurning líka að hve miklu leyti hafi verið leitað til sérfræðinga á öðrum sviðum. Stjórnvöldum ber að rannsaka mál nægilega og þá fylgir því að það þarf að heyra ráð sérfræðinga á öðrum sviðum. Í þriðja lagi hefur þessi frasi, „fylgið ráðum sérfræðinga“, í för með sér að það er til þess fallið að færa ábyrgðina frá þeim sem hafa lýðræðislegt umboð til andlitslauss samfélags. Ef þetta ætti að vera leiðarljós í öllum uppákomum sem að þjóðfélaginu stafar […] að fylgja ráði sérfræðinganna þá væri um grundvallarbreytingu á stjórnskipaninni að ræða og það hefur enginn lagt fram slíka breytingu á stjórnskipaninni,“ sagði Sigríður.
Hún ræddi heimildir yfirvalda og sagði: „Sóttvarnalæknir hefur ekki heimild til að setja reglur eða mæla fyrir um opinberar sóttvarnarráðstafanir. Þetta nefni ég í ljósi tilmæla sem sóttvarnarlæknir gaf út fyrir tveimur vikum og varðaði meðal annars ÍSÍ og mér sýnist af fréttum í dag og sé af sama meiði gagnvart almenningi. Almenningur nefnir að það sé eitthvert ósamræmi á milli tilmæla sóttvarnalæknis og reglugerðar ráðherra. Við því er bara eitt svar: Það er auðvitað reglugerð ráðherra sem gildir. Þetta hefur valdið upplýsingaóreiðu og ég hvet stjórnvöld til að skýra þetta aðeins betur.“
Sigríður ræddi sóttvarnir á landamærum og heimildir í þeim efnum.
„Tvöföld skimum á landamærum með sóttkví á milli eru ekki meðal þeirra aðgerða sem kveðið er á um sem heimil sóttvarnaraðgerð á landamærum. Það eru hins vegar undanþáguákvæði til staðar í þessari reglugerð með ákveðnum skilyrðum,“ sagði hún.
„Þegar líður á er nauðsynlegt að stjórnvöld rannsaki málin betur og rannsaki virkni ráðstafana og það tjón sem aðgerðir hafa valdið. Dómar eru þessa dagana að falla erlendis um það að aðgerðir standist ekki lögmætisregluna eða meðalhóf í þessum efnum,“ sagði Sigríður og vísaði þar almennt til ýmissa ráðstafana.
„19. ágúst þá var tekin upp tvöföld skimun með sóttkví á milli á landamærunum og lokaði þeim í raun alveg. Þessi lokun var þvert á fyrri yfirlýsingar sóttvarnaryfirvalda um að þegar veira væri þegar í landi þjónaði það litlum tilgangi að loka landamærum fyrir ferðamönnum,“ sagði hún og vísaði svo til álits 12 sérfræðinga alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem birtist í haust á vef virts læknavísindarits. Þar væri vikið að skimun ferðamanna á landamærum og segi að það sé engin ákjósanleg leið til að koma í veg fyrir að veiran berist yfir landamæri. Þar gildi einu hversu vasklega sé gengið fram við skimanir og sóttkví. Það skýrist af því hversu mislangur einkennalaus meðgöngutími veirunnar geti verið.
„Með þessum hertu aðgerðum á landamærunum fylgdu vonir um að hægt væri að takmarka ráðstafnir innanlands en það hefur ekki gengið eftir,“ sagði Sigríður og einnig: „Allar þessar aðgerðir hefur verið gripið til þegar sýnt er að smitum fækkar. Þetta þarf að hafa í huga vegna þess að ég held að þingið verði að leggja áherslu á að skoða þessar aðgerðir.“
Þá hvatti hún til þess að útbúinn verði sérstakur „vettvangur fyrir þingmenn til þess að ræða þessi mál með reglulegum hætti og eiga milliliðalaust samtal við sóttvarnaryfirvöld ef það á að vera þannig áfram að menn hlíti þeirra tilmælum í einu og öllu.“