Mikilvægt að bæta hratt úr veikum lagastoðum

„Við vitum einfaldlega meira í dag heldur en við vissum fyrir 7-8 mánuðum síðan þó vissulega séu ennþá margir þættir óvissir í sambandi við veiruna, útbreiðslu hennar, aðgerðir og áhrif þeirra,“ sagði Birgir Ármannsson formaður þingflokks sjálfstæðismanna í dag í sérstakri umræðu á Alþingi um munnlega skýrslu forsætisráðherra um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnarráðstafana. Auk Birgis tók Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis til máls fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

„Það þýðir meðal annars að út frá ýmsum reglum stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins þá er hægt að gera meiri kröfu til ákvarðana sem teknar eru í dag heldur en var hægt að gera fyrir 7-8 mánuðum síðan,“ sagði Birgir og að því sé hægt að gera strangari kröfur til þeirra ákvarðana sem teknar eru í dag en þeirra sem voru teknar í upphafi faraldurs.

„Þetta þýðir að hægt er að ætlast til þess af stjórnvöldum, okkur hér í þinginu, ríkisstjórn og öðrum þeim sem fara með opinbert vald í þessu sambandi að ákvarðanir séu teknar með meiri yfirvegun og undirbúningi en var hægt að ætlast til þegar faraldurinn var að fara í gang. Þetta skiptir máli þegar við leggjum mat á einstaka aðgerðir og aðgerðirnar í heild. Það skiptir máli þegar við veltum fyrir okkur því hvernig við getum mátað ýmsar meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins á ákvarðanatöku í þessu sambandi og þá erum við með í huga helst lögmætisregluna sem felur það í sér að fyrir opinberum íþyngjandi ákvörðun verður að vera skýr lagastoð,“ sagði Birgir og vísaði einnig til meðalhófsreglunnar.

„Þegar að réttindi eru skert á grundvelli laga og annarra fyrirmæla stjórnvalda sem eiga sér stoð í lögum þarf […] að gæta þess að það sé ekki gengið lengra en nauðsynlegt er í hverju tilviki fyrir sig og þá eru eins og Páll Hreinsson rekur ágætlega í texta sínum ákveðnir mælikvarðar sem þarf að leggja á aðgerðirnar. Það er ekki hægt að segja að skapalónið sé eitt eða algilt eða að það sé með vissu hægt að segja fyrirfram hvernig hvert tilvik yrði metið fyrir sig. Það yrði t.d. ef mál kæmi fyrir dómstóla metið út frá aðstæðum hvaða vitneskja er fyrir hendi o.s.frv. en það þarf hins vegar alltaf að fara fram einhvers konar mat í þessu sambandi,“ sagði Birgir. Hér nefndi hann að aðgerðir sem gripið væri til yrðu að vera til þess fallnar að ná því markmiði sem að væri stefnt, einnig að ef hægt væri að velja á milli mismunandi úrræða bæri að velja vægasta úrræðið sem getur komið að gagni og í þriðja lagi „að þegar búið er að velja úrræðið verður að gæta þess að beita því ekki af meiri hörku eða með meira íþyngjandi hætti heldur en nauðsyn er á.“

Þýðir ekki að við getum kippt varúðarreglunni úr gildi.

„Það verður að ætla stjórnvöldum ákveðið svigrúm í þessum efnum og því meiri sem óvissan er því meira verður svigrúmið. Það liggur ljóst fyrir. Það þýðir hins vegar ekki að matið þurfi ekki að eiga sér stað. Matið þarf að eiga sér stað þegar ákvarðanir eru teknar miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir eða hægt er að ætlast til að liggi fyrir á þeim tíma.

Það er ekki svo að erfiðir tímar þýði að við getum kippt varúðarreglunum úr sambandi. Það má öfugt halda því fram að því alvarlegra sem ástandið er því mikilvægara sé að menn séu meðvitaðir um varúðarreglurnar og gæti sín að þessu leyti,“ sagði Birgir og fagnaði því að til stæði að fara í endurskoðun á sóttvarnarlöggjöfinni og að fara eigi hratt í að endurskoða þau ákvæði sem mestu máli skipti.

„Ég tel að þarna geti verið um að ræða veikar lagastoðir fyrir sumum þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og það hef ég bent á bæði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið fyrir tveimur mánuðum að þar kann að þurfa að bæta úr og þar þarf að bæta úr hratt. Þýðir ekki að mínu mati að bíða eftir heildarendurskoðun sóttvarnarlaganna heldur mikilvægt að bæta hratt úr þeim aðgerðum þar sem lagastoð fyrir einstaka íþyngjandi aðgerðum kann að vera veik eins og mér sýnist hún vera,“ sagði Birgir í lok ræðu sinnar.

Ræðuna í heild sinni má finna hér.