Kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins

Fyrir okkur öll

Lækkun skatta á almenning og fyrirtæki. Uppbygging innviða í heilbrigðiskerfinu, samgöngum og menntakerfinu. Átak í geðheilbrigðismálum. Hækkun frítekjumarks og stofnun Þjóðarsjóðs í þágu kynslóðanna. Námsmenn njóti styrkja.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir enn frekari lækkun tekjuskatts almennings, lækkun tryggingagjalds og um leið tryggja allt að 100 milljarða króna í aukna uppbyggingu innviða; í samgöngum, menntakerfinu og síðast en ekki síst í heilbrigðiskerfinu og þá sérstaklega uppbyggingu Landspítalans.

Nauðsynlegt er að styrkja enn frekar fjárhagsstöðu eldri borgara og þess vegna á að fjórfalda frítekjumark atvinnutekna í 100 þúsund krónur á mánuði. Arður af sameiginlegum orkuauðlindum renni í Þjóðarsjóð. Hluti hans verði nýttur í að fjölga hjúkrunarheimilum og hluti til að styrkja rannsóknir og nýsköpun enn frekar.

Helstu stefnumál í hnotskurn

Bætum 100 milljörðum við í innviðauppbyggingu

Bankarnir hafa bolmagn til að greiða ríkinu allt að 100 milljarða króna í sérstakar arðgreiðslur á næstu árum.

Við viljum nýta fjármagnið, til viðbótar við áður áætlaðar framkvæmdir, í nauðsynlegar innviðafjárfestingar til að bæta vegina, og styrkja samgöngur um allt land, en einnig aðra innviði svo sem í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu.

Við ætlum að lækka skatta

Við ætlum að lækka tekjuskatt almennings enn frekar.

Um síðustu áramót afnámum við milliþrep tekjuskattsins, sem var yfir 40% miðað við meðalútsvar árið 2013, og lækkuðum neðra þrepið í tæp 37%.

Nú ætlum við að lækka neðra þrepið enn frekar í 35%.

Við ætlum að lækka tryggingargjaldið enn meira. Það skiptir atvinnulífið miklu.

Við ætlum að halda vel utan um eldri kynslóðina, hækka frítekjumarkið og gera sérstakt átak í að fjölga hjúkrunarheimilum.

Við viljum hækka frítekjumark atvinnutekna strax í 100 þúsund krónur á mánuði.

Áfram verður lögð áhersla á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara. Við ætlum að styrkja heimaþjónustuna og gera sérstakt átak í fjölgun hjúkrunarheimila. Þrír milljarðar á ári munu renna úr Þjóðarsjóði í það átak á næstu árum.

Við ætlum að styðja við ungt fólk á húsnæðismarkaði

Við viljum auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu íbúð en tryggja jafnframt að það eigi kost á leiguhúsnæði á virkum leigumarkaði. Lækka verður byggingarkostnað og tryggja aukið framboð á lóðum og íbúðum.  Um leið verði ungu fólki auðvelduð fyrstu íbúðarkaup með bæði skattalegum og vaxtalegum hvötum til sparnaðar, sem standi undir útborgun við fyrstu kaup.

Við viljum styrkja fjárhagslega stöðu öryrkja með börn í námi

Við viljum jafna stöðu ungmenna í námi sem búa hjá foreldrum á örorkulífeyri. Það er réttlætismál að foreldrar þeirra haldi sömu framfærslu eftir að börn þeirra verða 18 ára, meðan á námi stendur.

Við ætlum að hækka greiðslur í fæðingarorlofi

Við viljum tryggja að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fari ekki undir meðallaun á almennum vinnumarkaði. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða að taka tillit til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála á hverjum tíma.

Við viljum að námsmenn fái styrk til náms — ekki bara lán

Við ætlum að taka upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd, 65.000 króna styrk á mánuði og lán ofan á það upp að fullri framfærslu með samtímagreiðslu, sem íslenskum námsmönnum hefur aldrei áður staðið til boða. Mikill meirihluti námsmanna mun njóta ávinnings af breytingunum.

Við ætlum að efla nýsköpun og rannsóknir

Framlög og stuðningur til nýsköpunar hefur stóraukist á þremur árum, úr 2,6 í 4,7 milljarða. Við viljum auka framlög til nýsköpunar og rannsókna. Þrír milljarðar á ári munu renna úr Þjóðarsjóði til eflingar nýsköpunar og rannsókna á næstu árum.

Við ætlum að endurskoða kennsluaðferðir og skólastarf í samvinnu við sveitarfélög, kennara, nemendur og foreldra

Við þurfum að hugsa menntamál upp á nýtt með fagfólki, kennurum, nemendum og foreldrum. Í heimi sem breytist hratt verður menntakerfið að vera sveigjanlegt og framsækið til að halda í við þróun og alþjóðlega samkeppni.

Við viljum aukna fríverslun

Við ætlum að halda áfram á markaðri braut fríverslunar í viðskiptum okkar við umheiminn. Viðskiptastefna okkar hefur skilað gríðarlegum árangri á undanförnum árum. Nú eru um 90% allra tollskrárnúmera tollfrjáls en til samanburðar er aðeins um fjórðungur tollskrárnúmera í Evrópusambandinu tollfrjáls.

Við viljum að allir njóti heilbrigðisþjónustu óháð efnahag

Efnahagur fólks má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að lækka kostnað sjúklinga enn frekar.

Við viljum styðja betur við geðheilbrigði

Við viljum ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. Greina verður og takast á við vandamál á fyrstu stigum og tryggja aðgengi allra að sálfræðiþjónustu, óháð búsetu. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk með geðræn vandamál. Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu sviði.

Við ætlum að innleiða tækninýjungar í heilbrigðisþjónustu

Styrkja þarf stöðu Landspítalans sem rannsókna- og kennslusjúkrahús. Við viljum efla fjarheilbrigðisþjónustu, nýta upplýsinga- og samskiptatækni betur.

Við ætlum að vera áfram í fremstu röð í umhverfismálum

Ísland er til fyrirmyndar í umhverfismálum en við getum gert betur. Við ætlum að fylgja eftir metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum og gæta jafnvægis milli nýtingar og náttúru.

Við ætlum að koma á fót Þjóðarsjóði í þágu kynslóðanna

Við viljum setja arðinn af orkuauðlindum landsins í Þjóðarsjóð. Í sjóð þennan renni arður af orkuauðlindum í eigu ríkis. Sjóðurinn á að vera sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, aftra ofhitnun er vel árar og tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum.
Hluti sjóðsins verður nýttur í aðkallandi samfélagsverkefni.