Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fór fram í Skíðaskálanum í Hveradölum í gær, sunnudaginn 2. október.
Björgvin Jóhannesson, framkvæmdastjóri og varaþingmaður úr Árborg var einróma kjörinn formaður kjördæmisráðs og tekur við af Ingvari P. Guðbjörnssyni, upplýsingafulltrúa og sveitarstjórnarfulltrúa, sem gegnt hefur formennsku í ráðinu síðan í júní 2018, en baðst undan endurkjöri til formanns.
Töluverð endurnýjun varð á stjórn kjördæmisráðsins en auk formanns skipa hana; Björn Kjartansson, Ölfusi, Hanna Björg Konráðsdóttir, Reykjanesbæ, Elín Fríða Sigurðardóttir, Rangárþingi eystra, Gísli Heiðarsson, Suðurnesjabæ, Þuríður B. Ægisdóttir, Reykjanesbæ, Sveinn Hreiðar Jensson, Skaftárhreppi, Páll Róbert Matthíasson, Hornafirði, Bjarni Ólafur Guðmundsson, Vestmannaeyjum, Hanna Lovísa Olsen, Hveragerði, Ingvi Már Guðnason, Árborg, Eva Lind Matthíasdóttir, Grindavík, Hermann Nökkvi Gunnarsson, Reykjanesbæ og Ingvar P. Guðbjörnsson, Rangárþingi ytra. Að auki er sjálfkjörinn í stjórn Davíð Ernir Kolbeins, formaður Kjördæmasamtaka ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.
Eftir hefðbundin aðalfundarstörf ávörpuðu þingmenn flokksins í kjördæminu þau; Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Birgir Þórarinsson fundinn og svöruðu fyrirspurnum fundarmanna. Á fundinum sköpuðust líflegar umræður um málefni kjördæmisins og um komandi landsfund Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í Laugardalshöll dagana 4. – 6. nóvember næstkomandi.
Þetta var fyrsti aðalfundur kjördæmisráðsins sem haldinn er sem staðfundur eftir heimsfaraldur, en sá síðasti var haldinn á Kirkjubæjarklaustri árið 2019. Þó fór fundurinn að hluta fram í gegnum fjarfundarbúnað, en fulltrúar kjördæmisráðsins í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði áttu þess kost að taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað og var mæting á fundinn með miklum ágætum.