Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fór víða á Ísafirði og á Bolungarvík í dag.
Hann heimsótti Arctic Fish þar sem fiskeldismál á Vestfjörðum voru rædd. Þá kom hann við hjá Vegagerðinni þar sem framtíðarsýn í vegamálum Vestfirðinga voru til umræðu. Því næst kom hann við hjá Menntaskóla Ísafjarðar þar sem skólameistari og kennarar við skólann tóku á móti honum og kynntu honum starfsemi skólans.
Bjarni kom við hjá ,,Fisherman” á Suðureyri þar sem fram fer frumkvöðlastarf og nýsköpun á sviði sjávarafurða.
Í hádeginu var ávarpaði Bjarni fjölsóttan súpufund á kosningaskrifstofu flokksins á Ísafirði ásamt Daníel Jakobssyni, oddvita flokksins í bæjarfélaginu. Í kjölfarið spunnust fjörugar umræður þar sem helst brann á fundarmönnum samgöngumál, virkjanamál, fiskeldismál, heilbrigðis- og menntamál.
Var mikill einhugur meðal fundarmanna að finna raunhæfar lausnir.
Eftir hádegi heimsótti Bjarni bæjarskrifstofu Bolungarvíkur og hitti Jón Pál Hreinsson, bæjarstjóra þar sem rætt var um helstu áherslur og málefni bæjarins. Því næst heimsótti Bjarni Orkubú Vestfjarða og fundaði með Halldóri V. Magnússyni, framkvæmdastjóra veitusviðs og Elíasi Jónatanssyni, orkubússtjóra. Var þar rætt um raforkumál Vestfjarða og dreifikerfi raforku á svæðinu.
Í Vélsmiðju Ísafjarðar drakk Bjarni Bragakaffi með feðgunum Braga og Steinþóri og sköpuðust lifandi umræður um málefni líðandi stundar, ekki síst um lífeyrismál og almannatryggingar.
Þá sýndi Einar Valur Kristjánsson föruneytinu Pál Pálsson, nýjan glæsilegan skuttogara Hraðfrystihússins Gunnvarar.