Gleðinnar raddir hljóma
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Þótt dauf sé dags­ins skíma
og dimma okk­ur hjá
við bíðum bjartra tíma
því bráðum kem­ur sá
sem ljós af ljósi gef­ur.
Nú lífið sigrað hef­ur!
Við lof­um hann, Guðs son,
sem gef­ur trú og von.

Við fögn­um því við fáum
að halda heil­ög jól.
Hann kom frá himni háum
og hann er lífs­ins sól.
Her­skar­ar engla' og manna
nú syngja „Hósí­anna!“
Við lof­um son­inn þann
sem boðar kær­leik­ann.
(Örn Arn­ar­son)

Það mik­il­væg­asta í líf­inu er óáþreif­an­legt – ósýni­legt hinu sjá­andi auga. Verður ekki sannað með köld­um aðferðum vís­ind­anna. Trú­in, mis­kunn­sem­in, kær­leik­ur­inn, von­in flétt­ast sam­an og verða ekki keypt eða kló­fest. Ekki hrifsað til sín.

Sá sem trú­ir ekki krefst sönn­un­ar á öllu. Vill geta séð og þreifað á. Hann þyk­ist vita nóg og spyr því ekki, leit­ar ekki og finn­ur ekk­ert. Í trú­leys­inu glat­ast hæfi­leik­inn til að þiggja and­leg­ar gjaf­ir. Glugg­inn að sál­inni er lokaður.

Herra Sig­ur­björn Ein­ars­son bisk­up varaði við vits­muna­drambi, þekk­ing­ar­hroka og of­læti vegna gáfna og lær­dóms. Í hug­vekju sem birt­ist hér í Morg­un­blaðinu í fe­brú­ar 2008, minnti hann á að Jesús háði harða bar­áttu við menn, sem þurftu ekki að leita og spyrja: „Slík­ir menn þótt­ust þá, eins og jafn­an, öðrum fær­ari til þess að fræða og móta aðra. Ríki sann­leik­ans lokast þeim, sem finna ekki, að þá skorti neinn, seg­ir Jesús. En sæl­ir eru fá­tæk­ir í anda, þeir leita og þeir finna.“

Í trú­ar­ljóðinu „Hin fyrstu jól“ minn­ir Davíð Odds­son rit­stjóri okk­ur á að leit okk­ar krist­inna manna held­ur sí­fellt áfram – hún sé ei­líf:

Þótt Krist­ur sé fund­inn er göng­unni löngu ekki lokið.
Leit­in er ei­líf, þó hann hafi létt mönn­um okið.
Eitt svarið er fengið, en glím­an og lífs­gát­an krefjast
að gang­an að jötu sé ætíð og sí­fellt að hefjast.

Leit­in er allt annað en flótt­inn, þetta sí­fellda „und­an­hald und­an því að taka hrein­lega af­stöðu, gera upp, horf­ast í augu við sjálf­an sig, beygja sig fyr­ir nær­göng­ulu al­vöru svari“, skrifaði Sig­ur­björn Ein­ars­son. Þeir sem bíti af sér svar, vilji ekki eða þori ekki að heyra. „Kristn­ir trú­menn gera sér fyllstu grein fyr­ir því, hvað það er lítið, sem við vit­um. En það skynja þeir fyrst og fremst í ljósi þeirr­ar vit­und­ar og vissu, að það sér tak­marka­laust mikið og dýr­mætt, sem okk­ur er ætlað að vita og reyna í ei­lífri sam­fylgd með Kristni.“

Í sam­eig­in­legri trú för­um við kristn­ir ekki í mann­greinarálit. Við vit­um að í aug­um Guðs erum við öll jöfn, óháð stétt, aldri, kyni, kyn­hneigð, kynþætti og trú­ar­brögðum. Jafn­vel trú­leys­ing­inn á skjól hjá Jesú, opni hann glugg­ann. „Hér er eng­inn gyðing­ur né grísk­ur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð all­ir eitt í Jesú Kristi,“ skrif­ar Páll í Galata­bréf­inu: „Allt lög­málið er upp­fyllt með þessu eina boðorði: „Þú skalt elska ná­unga þinn eins og sjálf­an þig.““

Skipu­lega hef­ur trú­in á Guð verið gerð út­læg úr ís­lensk­um skól­um. Hið trú­ar­lega er niðrað og nítt í nafni frels­is­ins, og hefðir og helgi kristn­inn­ar jaðar­sett. „Hef­ur það aukið á and­lega vellíðan unga fólks­ins að inn­ræta því tor­tryggni gegn trú og trú­ariðkun, kristn­um sið, eins og mark­visst er gert?“ spurði herra Karl Sig­ur­björns­son í pre­dik­un á gaml­árs­dag 2017. Svarið birt­ist meðal ann­ars í auk­inni hörku í sam­fé­lag­inu og minnk­andi umb­urðarlyndi fyr­ir ólík­um skoðunum. Þegar sótt er að kristn­um gild­um og þannig reynt að skera á ræt­ur sam­fé­lags­ins er gott að minn­ast orða Páls. En um leið verðum við að spyrna á móti, standa upp og hrópa: Já, við trú­um, og gluggi sál­ar okk­ar er op­inn. Þannig tök­um við á móti ljósi jól­anna. Um leið rækt­um við kristn­ar hefðir, bæn­ina og helgi­dóma. „Við sam­an og hvert og eitt,“ sagði Karl. Þannig skýl­um við bænar­log­an­um smáa og blakt­andi trú­ar­ljós­inu.

Gunn­ar Kristjáns­son, pró­fast­ur á Reyni­völl­um, gerði mik­il­vægi trú­ar­inn­ar að um­tals­efni í út­varps­pré­dik­un á jóla­degi 2012: „Návist hins heil­aga, sem gef­ur lífi okk­ar og starfi, sögu okk­ar og sam­skipt­um við aðra, við menn og skepn­ur, við landið, fjöll­in, við birtu dags­ins, nýja dýpt, nýja merk­ingu, dýpri til­gang. Þetta er hið trú­ar­lega í lífi okk­ar … Er það ekki hún sem ber okk­ur áfram frá degi til dags með nýrri von fyr­ir hverj­um degi, með nýju hug­rekki til að lifa, með nýrri löng­un til að láta gott af okk­ur leiða?“

Jesús, þú ert vor jóla­gjöf,
sem jafn­an besta vér fáum.
Þú gef­inn ert oss við ystu höf,
en einkum þó börn­um smá­um.
Brest­ur oss alla býsna margt.
Heyr barna­var­irn­ar óma.
Þú gef­ur oss lífs­ins gullið bjart
því gleðinn­ar radd­ir hljóma.
(Valdi­mar Briem)

Jól­in minna okk­ur á að trú­in geng­ur á hólm við ótt­ann, sef­ar sorg­ina og veit­ir von. Jól­in gefa okk­ur fyr­ir­heit um kyrrð og frið hið innra – sál­ar­ró í sátt við allt og alla. Við tök­um á móti Guði með lít­il­læti og þakk­læti. Og við gef­um fjöl­skyldu og vin­um ómet­an­lega gjöf – óáþreif­an­lega og ósýni­lega. Við gef­um af okk­ur sjálf­um með nær­veru og minn­ing­um.

Ég óska les­end­um Morg­un­blaðsins og lands­mönn­um öll­um gleðilegra jóla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2023.