Óli Björn Kárason alþingismaður:
Þótt dauf sé dagsins skíma
og dimma okkur hjá
við bíðum bjartra tíma
því bráðum kemur sá
sem ljós af ljósi gefur.
Nú lífið sigrað hefur!
Við lofum hann, Guðs son,
sem gefur trú og von.
Við fögnum því við fáum
að halda heilög jól.
Hann kom frá himni háum
og hann er lífsins sól.
Herskarar engla' og manna
nú syngja „Hósíanna!“
Við lofum soninn þann
sem boðar kærleikann.
(Örn Arnarson)
Það mikilvægasta í lífinu er óáþreifanlegt – ósýnilegt hinu sjáandi auga. Verður ekki sannað með köldum aðferðum vísindanna. Trúin, miskunnsemin, kærleikurinn, vonin fléttast saman og verða ekki keypt eða klófest. Ekki hrifsað til sín.
Sá sem trúir ekki krefst sönnunar á öllu. Vill geta séð og þreifað á. Hann þykist vita nóg og spyr því ekki, leitar ekki og finnur ekkert. Í trúleysinu glatast hæfileikinn til að þiggja andlegar gjafir. Glugginn að sálinni er lokaður.
Herra Sigurbjörn Einarsson biskup varaði við vitsmunadrambi, þekkingarhroka og oflæti vegna gáfna og lærdóms. Í hugvekju sem birtist hér í Morgunblaðinu í febrúar 2008, minnti hann á að Jesús háði harða baráttu við menn, sem þurftu ekki að leita og spyrja: „Slíkir menn þóttust þá, eins og jafnan, öðrum færari til þess að fræða og móta aðra. Ríki sannleikans lokast þeim, sem finna ekki, að þá skorti neinn, segir Jesús. En sælir eru fátækir í anda, þeir leita og þeir finna.“
Í trúarljóðinu „Hin fyrstu jól“ minnir Davíð Oddsson ritstjóri okkur á að leit okkar kristinna manna heldur sífellt áfram – hún sé eilíf:
Þótt Kristur sé fundinn er göngunni löngu ekki lokið.
Leitin er eilíf, þó hann hafi létt mönnum okið.
Eitt svarið er fengið, en glíman og lífsgátan krefjast
að gangan að jötu sé ætíð og sífellt að hefjast.
Leitin er allt annað en flóttinn, þetta sífellda „undanhald undan því að taka hreinlega afstöðu, gera upp, horfast í augu við sjálfan sig, beygja sig fyrir nærgöngulu alvöru svari“, skrifaði Sigurbjörn Einarsson. Þeir sem bíti af sér svar, vilji ekki eða þori ekki að heyra. „Kristnir trúmenn gera sér fyllstu grein fyrir því, hvað það er lítið, sem við vitum. En það skynja þeir fyrst og fremst í ljósi þeirrar vitundar og vissu, að það sér takmarkalaust mikið og dýrmætt, sem okkur er ætlað að vita og reyna í eilífri samfylgd með Kristni.“
Í sameiginlegri trú förum við kristnir ekki í manngreinarálit. Við vitum að í augum Guðs erum við öll jöfn, óháð stétt, aldri, kyni, kynhneigð, kynþætti og trúarbrögðum. Jafnvel trúleysinginn á skjól hjá Jesú, opni hann gluggann. „Hér er enginn gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Jesú Kristi,“ skrifar Páll í Galatabréfinu: „Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.““
Skipulega hefur trúin á Guð verið gerð útlæg úr íslenskum skólum. Hið trúarlega er niðrað og nítt í nafni frelsisins, og hefðir og helgi kristninnar jaðarsett. „Hefur það aukið á andlega vellíðan unga fólksins að innræta því tortryggni gegn trú og trúariðkun, kristnum sið, eins og markvisst er gert?“ spurði herra Karl Sigurbjörnsson í predikun á gamlársdag 2017. Svarið birtist meðal annars í aukinni hörku í samfélaginu og minnkandi umburðarlyndi fyrir ólíkum skoðunum. Þegar sótt er að kristnum gildum og þannig reynt að skera á rætur samfélagsins er gott að minnast orða Páls. En um leið verðum við að spyrna á móti, standa upp og hrópa: Já, við trúum, og gluggi sálar okkar er opinn. Þannig tökum við á móti ljósi jólanna. Um leið ræktum við kristnar hefðir, bænina og helgidóma. „Við saman og hvert og eitt,“ sagði Karl. Þannig skýlum við bænarloganum smáa og blaktandi trúarljósinu.
Gunnar Kristjánsson, prófastur á Reynivöllum, gerði mikilvægi trúarinnar að umtalsefni í útvarpsprédikun á jóladegi 2012: „Návist hins heilaga, sem gefur lífi okkar og starfi, sögu okkar og samskiptum við aðra, við menn og skepnur, við landið, fjöllin, við birtu dagsins, nýja dýpt, nýja merkingu, dýpri tilgang. Þetta er hið trúarlega í lífi okkar … Er það ekki hún sem ber okkur áfram frá degi til dags með nýrri von fyrir hverjum degi, með nýju hugrekki til að lifa, með nýrri löngun til að láta gott af okkur leiða?“
Jesús, þú ert vor jólagjöf,
sem jafnan besta vér fáum.
Þú gefinn ert oss við ystu höf,
en einkum þó börnum smáum.
Brestur oss alla býsna margt.
Heyr barnavarirnar óma.
Þú gefur oss lífsins gullið bjart
því gleðinnar raddir hljóma.
(Valdimar Briem)
Jólin minna okkur á að trúin gengur á hólm við óttann, sefar sorgina og veitir von. Jólin gefa okkur fyrirheit um kyrrð og frið hið innra – sálarró í sátt við allt og alla. Við tökum á móti Guði með lítillæti og þakklæti. Og við gefum fjölskyldu og vinum ómetanlega gjöf – óáþreifanlega og ósýnilega. Við gefum af okkur sjálfum með nærveru og minningum.
Ég óska lesendum Morgunblaðsins og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2023.