Rósum prýdd mót­mæli á Austur­velli
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Á dögunum efndu Samtök aðstandenda og fíknisjúkra til mótmæla á Austurvelli. Með mótmælunum vildu samtökin koma skýrum skilaboðum til stjórnvalda um erfiða stöðu fólks sem glímir við vímuefnavanda.

Aðstandendur og fólk með fíknisjúkdóma mótmæla einna helst löngum biðlistum í meðferð og afeitrun. Ég tek þessi mál reglulega upp á Alþingi enda er það óásættanlegt að fólk með lífshættulegan sjúkdóm komi að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu. Við getum ekki sætt okkur við að fólk, ungt fólk, deyi unnvörpum. Við erum með skelfilegar tölur um það - þetta blasir við okkur á minningarsíðum Morgunblaðsins.

Hæstvirtur heilbrigðisráðherra hefur sannarlega tekið fjölmörg jákvæð skref í málaflokknum á þessu kjörtímabili. Hann hefur lagt áherslu á viðhaldsmeðferðir, sett aukna fjármuni í neyslurými og varnir gegn ofskömmtun. Og við sjáum merki þess í fjárlögum, m.a. með styrkjum til félagasamtaka og áherslunni á baráttunni við ópíóðafíkn.

Stjórnvöld verða samt að gera betur. Takmarkaður áhugi samfélagsins á aðstæðum fólk með vímuefnavanda getur bara skýrst af neikvæðu viðhorfi í garð þessa sjúklingahóps. Þetta er bara eitthvað annað fólk, fólk með áfallasögu – fólk sem er ekki viðbjargandi. En í þessu litla samfélagi okkar eru þetta börnin okkar, systkini, foreldrar, frændfólk, vinir, nágrannar. Við þekkjum öll einhvern sem glímir við fíknisjúkdóm. Og við verðum að leggjast á árarnar við að greiða aðgang þeirra að heilbrigðisþjónustu.

Samtökin stráðu rósum fyrir framan dyr Alþingis, til að minnast þeirra sem hafa fallið frá í baráttunni við fíkn. Gjörningurinn var áhrifamikill, fallegur og táknrænn. Hann snerti mig inn að hjartarótum og vakti mikla athygli þingmanna á mikilvægri og virðingarverðri baráttu.

Greinin birtist á visir.is 19. desember 2023.