Óli Björn Kárason alþingismaður:
Ég ætla að taka mér það leyfi að setja fram fimm fullyrðingar og halda því fram að þær séu almenn og augljós sannindi:
•Ekkert samfélag sækir fram til bættra lífskjara án góðs, kraftmikils og fjölbreytts menntakerfis.
•Samkeppnishæfni þjóðar og menntun eru tvíburasystur.
•Hornsteinn að menntun er lagður í leik- og grunnskólum.
•Menntakerfið er mikilvirkasta tækið til að auka jöfnuð og tryggja jöfn tækifæri.
•Í gildi er sáttmáli þjóðar um að tryggja öllum góða grunnmenntun óháð efnahag, búsetu og uppruna.
Með þessi sannindi í huga hljóta niðurstöður PISA 2022, alþjóðlegs könnunarprófs, að valda öllum verulegum áhyggjum. Prófið er á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar [OECD] og mælir lesskilning fimmtán ára nemenda og læsi þeirra á stærðfræði og náttúruvísindi. Alþjóðlegur samanburður á gæðum menntunar og stöðu nemenda er vissulega vandasamur en PISA gefur a.m.k. góða vísbendingu um stöðu grunnskólans á Íslandi í samanburði við önnur lönd og þróun síðustu ár.
Niðurstöðurnar eru sláandi svo ekki sé sterkar til orða tekið. Um 40% fimmtán ára nemenda búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi – einn af hverjum fjórum! Annar hver drengja hefur ekki öðlast færni sem nauðsynleg er til að geta lesið sér til gagns og fróðleiks. Að óbreyttu eru möguleikar þessara drengja til að taka fullan þátt í samfélaginu, hasla sér völl í atvinnulífinu og/eða afla sér frekari menntunar stórkostlega skertir.
Afturför í mörg ár
Allt frá 2009 hefur þróunin hér á landi einkennst af afturför. Í PISA 2009 var frammistaða íslenskra nemenda um eða yfir meðaltali OECD-landa og svipuð og á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu sem stendur flestum löndum framar. Árið 2012 stóðu íslenskir nemendur verr að vígi á öllum matssviðum. Og það hefur haldið áfram að síga á ógæfuhliðina.
Í öllum greinum, lesskilningi, stærðfræði og náttúruvísindum, hefur hlutfall þeirra nemenda sem ekki búa yfir grunnhæfni hækkað. Frá 2012 hefur hlutfallið nær tvöfaldast þegar kemur að lesskilningi. Eins og sést á meðfylgjandi mynd hefur neikvæð þróunin verið lítillega skárri í stærðfræði og náttúruvísindum. Það vekur einnig athygli að aðeins 3% nemenda eru talin hafa afburðahæfni í lesskilningi, 2% í læsi á náttúruvísindi og 5% í stærðfræði. Þetta hlutfall hefur farið lækkandi á síðustu árum.
Í samanburði við önnur lönd er staða grunnskólans á Íslandi grafalvarleg. Við erum í sjötta neðsta sæti OECD-ríkja. Aðeins Grikkland, Síle, Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbía eru með lakari árangur. Okkur eru mislagðar hendur við að tryggja góða grunnmenntun barnanna okkar. Og þrátt fyrir að grunnskólinn sé sá dýrasti á Vesturlöndum standa íslenskir nemendur jafnöldrum sínum að baki í undirstöðugreinum. Við höfum hunsað viðvörunarbjöllurnar í mörg ár.
Kerfið virkar ekki
Vissulega er PISA ekki eini mælikvarðinn á gæði skólastarfs. Ánægja og vellíðan, sköpun og félagsfærni eru mikilvægir þættir í starfi hvers skóla. Í þessu virðast íslenskir skólar standa vel. En brotalamirnar í grunnmenntuninni eru svo alvarlegar að ekkert samfélag getur sætt sig við þær. Menntun er spurning um framtíð barnanna. Léleg menntun rænir þau tækifærum í lífinu og sem þjóð stöndum við ekki við sáttmálann um að tryggja öllum góða grunnmenntun.
Yfirvöld menntamála, kennarar, foreldrar – við öll – verðum að horfast í augu við það að kerfið virkar ekki. Skipulag skóla heldur gæðum menntunar niðri, er lamandi fyrir dugmikla kennara. Árangur (eða árangursleysi) skóla er sveipaður leyndarhjúp sem hvorki kennarar né foreldrar hafa náð að brjóta. Þingmönnum er meinað að fá upplýsingar, líkt og ég komst að þegar ég lagði fram skriflega fyrirspurn á síðasta þingvetri um niðurstöður PISA-kannana árin 2009 til 2018 eftir skólum. Fyrirslátturinn var að niðurstöður fyrir einstaka skóla geti gefið ónákvæma mynd af hæfni og getu nemenda og þróun þeirra yfir tíma. Ekki einu sinni skólastjórnendur fá niðurstöðurnar. Leyndarhyggjan er ekki traustvekjandi. Skólastjórnendum, kennurum og foreldrum er gert ókleift að nýta sér mikilvægar upplýsingar.
Hæfileikarnir allt um kring
•Í upphafi setti ég fram fimm fullyrðingar. Ég ætla að bæta tveimur við.
•Íslenskir nemendur eru síst lakari en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum.
Fjöldi hæfileikaríkra kennara og skólastjórnenda vinnur innan veggja grunnskólans en kerfið vinnur gegn þeim – þeir fá ekki að njóta sín.
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla fullyrti í samtali við mbl.is að búið sé að gera umhverfi kennara erfitt. Það sé „svolítið verið að úthýsa kennurum“. Hann heldur því fram að námskrá grunnskólanna sé ekki með neinu innihaldi. Kennarar viti ekki nákvæmlega hvað þeir eigi að kenna: „Það er fullt af flottu fólki í kennslu en námskráin tiltekur ekkert sérstakt sem á að kenna. Þetta er allt opið. Öll þekkingaratriði eru tekin út og þetta er ávísun á hrun, eins og þessi niðurstaða í PISA-könnuninni lýsir, sem mun halda áfram.“
Það er von hverrar kynslóðar að lífskjör þeirra sem á eftir koma verði betri og tækifærin fjölbreyttari. Hið sama á við um menntun. Ég hef áður varað við því að sú hætta virðist raunveruleg að kynslóðin sem nú vex úr grasi fái ekki notið betri menntunar en við sem eldri erum. Þvert á móti. Gæðum menntunar hrakar á milli kynslóða.
Alvarlegir brestir í grunnskólanum blasa við öllum. Okkur ber skylda til að bregðast við og brjóta upp kerfið. Fáir ef nokkrir eru betur til þess fallnir að leiða þá vinnu en Jón Pétur Zimsen og fjöldi hæfileikaríkra kennara með skýra sýn á skipulag skólastarfsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2023.