Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
Í liðinni viku afgreiddi ríkisstjórnin frá sér tvö frumvörp um sameiningar stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Annars vegar um Umhverfis- og orkustofnun og hins vegar um Náttúruverndar- og minjastofnun. Fyrr í haust tók Alþingi við fyrsta sameiningarmálinu varðandi stofnanir ráðuneytisins þar sem sameina á Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn (Ramý). Ef öll málin ná fram að ganga munu níu stofnanir ráðuneytisins verða að þremur öflugum stofnunum. Sumar hverjar eru í dag mjög litlar og reyndar hefur sú minnsta aðeins tvo starfsmenn.
Við undirbúning þessara sameiningarmála var farið eftir leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar. Gert er ráð fyrir hagræðingu sem nemur 6-7% af rekstrarkostnaði sem nýtist í kjarnastarfsemi viðkomandi stofnana. Sérstaklega var skoðað hvort eitthvað af starfsemi viðkomandi stofnana teldist til samkeppnisreksturs. Ráðuneytið hefur einnig samið við Ríkiskaup um úttekt á ráðuneytinu og stofnunum þess með það að markmiði að nýta betur útboð og hagkvæm innkaup. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem samningur af þessu tagi er gerður og væntum við mikils af samstarfinu.
Nóg af skýrslum
Það að fækka stofnunum og ná þannig fram aukinni skilvirkni og hagræðingu samræmist stefnu þessarar ríkisstjórnar. Í gegnum tíðina hafa fjölmargir sett fram metnaðarfull markmið um að sameina stofnanir, en raunin er sú að lítið hefur gerst annað en að fyrir liggja skýrslur um mikilvægi þess að sameina stofnanir.
En af hverju er meira um skýrslugerð og minna um raunverulega framkvæmd sameininga? Nú getur enginn haldið því fram að það væri skynsamlegt að hverfa frá þeim sameiningum stofnana sem þegar hafa átt sér stað og færa þær í fyrra horf. Það saknar enginn þess fjölda skattstjóra, tollstjóra eða annarra forstöðumanna ríkisstofnana sem áður voru til staðar og enginn talar í dag fyrir hugmyndum um að endurvekja þau embætti.
„Sérstakar aðstæður“
Undirritaður hefur nokkuð langa reynslu af því að sameina stofnanir og hagræða í ríkisrekstri enda er af nógu að taka. Ríkisstofnanir á Íslandi eru tæplega 160 talsins en þá eru ótalin opinber hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða lögaðilar sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Ríkisfyrirtæki í B-hluta og C-hluta telja á annan tug og sjálfstæðar stjórnsýslunefndir telja á sjöunda tuginn. Stofnanir eru mismunandi að stærð en rúmlega helmingur stofnana í A-hluta hefur færri en 50 starfsmenn og fjórðungur hefur færri en 20 starfsmenn.
Það virðast allir sammála um mikilvægi þess að sameina stofnanir en þegar á reynir virðast alltaf koma upp sérstakar aðstæður sem gera það að verkum að margir telja breytingar nauðsynlegar, en „bara ekki þegar kemur að mér“.
Ég hlakka til umræðunnar í þinginu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. desember 2023.