Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Ég tek gjarnan á móti ungmennum sem vilja heimsækja vinnustaðinn minn, Alþingi. Þessar heimsóknir eru hreinlega með því skemmtilegra sem ég geri. Nýlega tókum við kollegi minn á móti ungmennaráði. Ungmennaráð eru frábær vettvangur fyrir ungt fólk til að hafa áhrif á samfélagið. Samtalið við ungmennin var venju samkvæmt líflegt og hressandi og spurningarnar sem þau beindu til okkar að þessu sinni voru sérstaklega góðar og beinskeyttar.
Af hverju borgum við svona háa skatta? Af hverju er ekki hægt að lækka skatta og fara bara betur með peninginn? Af hverju þurfum við að borga skatta en megum svo ekki kjósa? Hvað getur Alþingi gert í leikskólamálum? Og af hverju er verið að eyða peningum í rándýran strætó í framtíðinni í stað þess að bæta strætó núna og gera hann bara gjaldfrjálsan?
Ungt fólk hefur oft skýra hugsun og viðhorf og kemur með fersk sjónarmið að borðinu. Ungt fólk sættir sig líka síður við loðin svör og útúrsnúninga – það vill skýr svör við skýrum spurningum.
Við borgum alltof háa skatta og ættum að fara betur með peninginn sem við heimtum af skattgreiðendum. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn lækkað skatta og beitt sér fyrir skynsamlegri forgangsröðun almannafjár þótt alltaf megi þar gera betur. Við ættum að treysta ungu fólki betur og fólk getur tekið þátt í prófkjörum á vegum Sjálfstæðisflokksins frá 15 ára aldri. Alþingi hefur nýlega lengt rétt foreldra til fæðingarorlofs. En sum sveitarfélög mættu gera betur þegar kemur að dagvistunarmálum. Ég hef m.a. tekið þau mál upp í þinginu. Mér er það síðan óskiljanlegt hvers vegna við ætlum að eyða peningum í rándýran strætó í framtíðinni í stað þess að bæta kerfið sem við höfum nú þegar og sárafáir nota, en það er svo efni í lengri pistil en þennan.
Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir því að kosningaaldur verði lækkaður og slík frumvörp eru lögð reglulega fram á Alþingi. Ég hef nú lagt fram frumvarp með annarri nálgun, sem sé um að einstaklingar byrji ekki að greiða tekjuskatt af launatekjum fyrr en við 18 ára aldur. Við bindum kosningarétt við þann aldur og þar með tækifærið til þess að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru, svo sem í skattamálum. Af hverju eiga ungmenni annars að þurfa borga skatta, en ekki kjósa?
Greinin birtist fyrst á Vísi.is 6. desember 2023