Birgir Þórarinsson alþingismaður:
Forsetafrú Ísraels, Michal Herzog, vekur nýverið í vikuritinu Newsweek athygli á þögn alþjóðastofnana á borð við UN Women og fleiri sem berjast gegn ofbeldi gegn konum. Þögnin snýr að ísraelskum konum sem urðu fyrir hrottalegu ofbeldi í hryðjuverkaárás 7. október af hendi Hamas-samtakanna sem illræmd eru fyrir ódæði sín. Þögnin er ófyrirgefanleg segir forsetafrúin. Það sé ekki svo að viðbrögð þessara alþjóðastofnana gagnvart kerfisbundnum nauðgunum og morðum Hamas á ísraelskum konum hafi verið veikburða. Þau hafi einfaldlega verið engin. Alþjóðastofnanir sem hafa jafnrétti og valdeflingu kvenna að markmiði og berjast gegn hvers konar ofbeldi gegn konum hafi brugðist. Þær hafi brugðist ísraelskum konum á ögurstundu.
UN Women brugðust ísraelskum konum á ögurstundu
„Með því að bregðast ísraelskum konum brugðust þessar stofnanir einnig allri mannréttindabaráttu kvenna og baráttu gegn ofbeldi kvenna í heiminum. Þessar lykilstofnanir stráðu meira að segja salti í sárin með því að vera treg til að viðurkenna að voðaverk Hamas gegn saklausum konum í Ísrael hefðu átt sér stað, þrátt fyrir yfirgnæfandi sannanir þess efnis.“ Sannanir sem Hamas-liðar sjálfir færðu umheiminum með því að taka hryllingsverkin upp með búkmyndavélum til að geta stært sig af illsku sinni og hrottaskap gegn gyðingum. Strax á fyrsta degi árásarinnar sýndi Hamas þýsk-ísraelska stúlku sem var svívirt og myrt. Nöktu líkinu var síðan ekið um á pallbíl um stræti Gasa og lýðurinn fagnaði. Að endingu var líkið afhöfðað. Hamas-liðar hafi auk þess játað í yfirheyrslum að fjöldanauðganir hafi verið skipulagðar sem hluti af hryðjuverkaárásinni. Sex vikum eftir hryðjuverkaárás Hamas í Ísrael kom loks yfirlýsing frá framkvæmdastjóra UN Women um að stofnunin fordæmdi glæpi Hamas í Ísrael og lofaði að þeir yrðu rannsakaðir. Yfirlýsingin kom í kjölfar þrýstings frá kvenréttindasamtökum í Ísrael.
Konur, óháð þjóðerni og trú, eiga að geta treyst því að alþjóðastofnanir á borð við UN Women standi með þeim í baráttunni gegn ofbeldi og fordæmi það harðlega. Á því hefur orðið misbrestur.
Getum við ekki örugglega treyst því að þeir sem kenna sig við réttindi kvenna og mannréttindi hér á landi yfirleitt hafi fordæmt illvirki Hamas í garð gyðingakvenna og annarra fórnarlamba hryðjuverkasamtakanna?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2023.