Þögnin sem nísti inn að beini

Birgir Þórarinsson alþingismaður:

For­setafrú Ísra­els, Michal Herzog, vek­ur ný­verið í viku­rit­inu Newsweek at­hygli á þögn alþjóðastofn­ana á borð við UN Women og fleiri sem berj­ast gegn of­beldi gegn kon­um. Þögn­in snýr að ísra­elsk­um kon­um sem urðu fyr­ir hrotta­legu of­beldi í hryðju­verka­árás 7. októ­ber af hendi Ham­as-sam­tak­anna sem ill­ræmd eru fyr­ir ódæði sín. Þögn­in er ófyr­ir­gef­an­leg seg­ir for­setafrú­in. Það sé ekki svo að viðbrögð þess­ara alþjóðastofn­ana gagn­vart kerf­is­bundn­um nauðgun­um og morðum Ham­as á ísra­elsk­um kon­um hafi verið veik­b­urða. Þau hafi ein­fald­lega verið eng­in. Alþjóðastofn­an­ir sem hafa jafn­rétti og vald­efl­ingu kvenna að mark­miði og berj­ast gegn hvers kon­ar of­beldi gegn kon­um hafi brugðist. Þær hafi brugðist ísra­elsk­um kon­um á ög­ur­stundu.

UN Women brugðust ísra­elsk­um kon­um á ög­ur­stundu

„Með því að bregðast ísra­elsk­um kon­um brugðust þess­ar stofn­an­ir einnig allri mann­rétt­inda­bar­áttu kvenna og bar­áttu gegn of­beldi kvenna í heim­in­um. Þess­ar lyk­il­stofn­an­ir stráðu meira að segja salti í sár­in með því að vera treg til að viður­kenna að voðaverk Ham­as gegn sak­laus­um kon­um í Ísra­el hefðu átt sér stað, þrátt fyr­ir yf­ir­gnæf­andi sann­an­ir þess efn­is.“ Sann­an­ir sem Ham­as-liðar sjálf­ir færðu um­heim­in­um með því að taka hryll­ings­verk­in upp með búk­mynda­vél­um til að geta stært sig af illsku sinni og hrotta­skap gegn gyðing­um. Strax á fyrsta degi árás­ar­inn­ar sýndi Ham­as þýsk-ísra­elska stúlku sem var sví­virt og myrt. Nöktu lík­inu var síðan ekið um á pall­bíl um stræti Gasa og lýður­inn fagnaði. Að end­ingu var líkið af­höfðað. Ham­as-liðar hafi auk þess játað í yf­ir­heyrsl­um að fjöldanauðgan­ir hafi verið skipu­lagðar sem hluti af hryðju­verka­árás­inni. Sex vik­um eft­ir hryðju­verka­árás Ham­as í Ísra­el kom loks yf­ir­lýs­ing frá fram­kvæmda­stjóra UN Women um að stofn­un­in for­dæmdi glæpi Ham­as í Ísra­el og lofaði að þeir yrðu rann­sakaðir. Yf­ir­lýs­ing­in kom í kjöl­far þrýst­ings frá kven­rétt­inda­sam­tök­um í Ísra­el.

Kon­ur, óháð þjóðerni og trú, eiga að geta treyst því að alþjóðastofn­an­ir á borð við UN Women standi með þeim í bar­átt­unni gegn of­beldi og for­dæmi það harðlega. Á því hef­ur orðið mis­brest­ur.

Get­um við ekki ör­ugg­lega treyst því að þeir sem kenna sig við rétt­indi kvenna og mann­rétt­indi hér á landi yf­ir­leitt hafi for­dæmt ill­virki Ham­as í garð gyðinga­kvenna og annarra fórn­ar­lamba hryðju­verka­sam­tak­anna?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2023.