Diljá Mist Einarsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Fíknisjúkdómar eru lífshættulegir og ljóst er að bið eftir heilbrigðisþjónustu getur verið dauðadómur. Meðan sjúklingarnir bíða eftir að fá viðeigandi þjónustu er gífurlegt álag á aðstandendum þeirra og fjölskyldum með tilheyrandi afleiðingum og kostnaði fyrir samfélagið.
Við þingmenn höfum ekki farið varhluta af háværri umræðu og ákalli vegna bágrar stöðu fólks með vímuefnavanda. Heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir því að við tökum á vímuefnavandanum innan heilbrigðiskerfisins og tekið fjölmörg jákvæð skref hvað viðkemur skaðaminnkandi úrræðum. Við þurfum samt að gera miklu, miklu betur. Ég mælti í því skyni nýlega fyrir tillögu til þingsályktunar um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda, en stuðningur við tillöguna er þverpólitískur.
Staðan er því miður þannig að fólk með vímuefnavanda, fólk með lífshættulegan sjúkdóm, lætur í dag lífið á biðlistum eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þetta er oft á tíðum ungt fólk sem fær hreinlega ekki sama stuðning og þjónustu í félags- og heilbrigðiskerfinu og annað langveikt fólk.
Á næstu dögum mun kunnugleg sjón mæta okkur á fjölförnum stöðum um allt land. Sjálfboðaliðar á vegum SÁÁ – Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann munu dreifa sér og selja SÁÁ-álfinn góða. Salan er mikilvægur þáttur í fjáröflun SÁÁ og mun hún fara fram út 3. desember. Samtökin gegna lykilhlutverki í baráttunni við fíknisjúkdóma og við eigum flest ef ekki öll tengsl við þeirra góða starf. Starfsemi samtakanna er að miklu leyti fjármögnuð með frjálsum framlögum og sjálfboðastarfi. Ég hvet því alla sem hafa einhvern tímann hugsað hlýlega til þjónustu SÁÁ til að kaupa álfinn – jafnvel tvo!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2023.