Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
„Mér varð vissulega orða vant, þegar ég heyrði hina hryllilegu og hörmulegu fregn um morð Kennedys Bandaríkjaforseta, glæsimennis í blóma lífsins, æðsta manns mesta stórveldis heims og leiðtoga allra frjálsra þjóða,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í útvarpsávarpi 22. nóvember 1963. Í dag er þess minnst að 60 ár eru frá því að John F. Kennedy var myrtur, þá 46 ára gamall.
Þótt Kennedy hafi aðeins verið forseti í tæp þrjú ár markaði hann spor í sögu eigin þjóðar og alls heimsins. Í nokkru er arfleifð hans þversagnakennd. Saga Kennedy-fjölskyldunnar er allt í senn saga auðs og valda, gjörvileika og óhamingju.
Kennedy var og hefur aldrei verið óumdeildur. En þrátt fyrir allt er hann í hópi þeirra forseta sem Bandaríkjamenn kunna hvað best að meta; George Washington, Thomas Jefferson, Abraham Lincoln, Franklin D. Roosevelt og Ronald Reagan.
Morgunblaðið minnist Kennedys í leiðara daginn eftir og sagði meðal annars:
„Hinn ungi Bandaríkjaforseti, sem nú er fallinn, var frjálslyndur og þrekmikill maður. Í innanlandsstjórnmálum þjóðar sinnar barðist hann af eldlegum áhuga fyrir auknum tryggingum, fyrir auknu félagslegu öryggi, og á alþjóðavettvangi var hann ötulasti forvígismaður drengilegrar og heiðarlegrar samvinnu þjóða í milli. Hann var harður andstæðingur hvers konar einangrunarstefnu og gerði sér ljóst, að örlög mannkynsins eru í dag sameiginleg, að þjóðir þess eru í raun og sannleika allar í sama báti.“
Meistarar orðs og hugsjóna
Kennedy var demókrati og harður and-kommúnisti sem áttaði sig á skyldum Bandaríkjanna í samfélagi þjóðanna. Hann var sannfærður um nauðsyn samvinnu lýðræðisþjóða í baráttu gegn alræðisöflum sem ógnuðu frelsi þjóða.
„Látum allar þjóðir vita, hvort sem þær óska okkur góðs eða ills, að við erum reiðubúin til að greiða hvað sem er, bera allar þær byrðar, mæta öllum þrautum, styðja alla okkar vini, standa gegn öllum óvinum, til að tryggja að frelsið lifi og dafni,“ sagði Kennedy í innsetningarræðu sinni 20. janúar 1961. Demókratinn Joe Biden Bandaríkjaforseti er of veikburða til að tala á þessum nótum með sundraðan flokk sér að baki sem er þjakaður af pólitískri rétthugsun og sósíalisma. Lýðhyggja kemur í veg fyrir að Donald Trump taki undir orð Kennedys. Hann misskilur hvað Kennedy átti við þegar hann undirstrikaði að Bandaríkjamenn ættu aldrei að semja af hræðslu en þeir ættu aldrei að hræðast að semja.
„Ef fleiri stjórnmálamenn þekktu ljóð og fleiri skáld þekktu stjórnmál, þá er ég sannfærður um að heimurinn væri aðeins betri staður,“ sagði Kennedy í ræðu við Harvard-háskólann 1956, þá 39 ára gamall. Gamlir menn um áttrætt, sem líklega berjast um forsetaembætti á nýju ári, eru annaðhvort of sljóir eða of hatrammir, til að átta sig á merkingu orðanna.
Kennedy var fulltrúi nýrra tíma. Gaf ungu fólki um allan heim von og bjartari sýn á framtíðina. Um tveimur áratugum síðar reisti Reagan sjálfsmynd Bandaríkjanna við – byggði upp sjálfstraust þjóðar eftir skipbrot Nixons og Carters. Reagan og Kennedy voru hvor með sínum hætti meistarar orðsins – hugsjónamenn með skýra sýn á heiminn. Varðmenn frelsis. Þrátt fyrir að vera ekki pólitískir samherjar skildu þeir vel samhengi skatta og efnahagslegrar velsældar. Demókratar samtímans skilja ekki frekar en íslenskir vinstri menn hvað Kennedy átti við í ræðu á fundi félags hagfræðinga í New York 1962: „Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“
Kennedy og Reagan beittu sér báðir fyrir skattalækkunum.
Nærmynd hugrekkis
Traustur sjálfstæðismaður færði mér góða bók að gjöf þegar ég stóð á nokkrum tímamótum í stjórnmálum fyrir nokkru; Nærmyndir hugrekkis („Profiles in Courage“) eftir John F. Kennedy. Bókin kom út árið 1956. Þar dregur Kennedy upp nærmyndir af stjórnmálamönnum sem hann dáðist að vegna stefnufestu þeirra og pólitísks hugrekkis, andspænis kjósendum, viðteknum skoðunum og pólitískum þrýstihópum.
Þótt 67 ár séu síðan bókin kom fyrst út á hún ekki minna erindi til samtímans en í upphafi. Í andrúmslofti slaufunar, pólitískrar rétthugsunar og sundrungar, er það meiri áskorun en áður að sýna pólitískt hugrekki. Standa og falla með eigin skoðunum. Kennedy hélt því fram að stjórnmálin væru orðin vélvædd og stjórnað af atvinnustjórnmálamönnum og almannatengslum. Hver og einn yrði hins vegar að ákveða hvernig hann starfar sem kjörinn fulltrúi. Aðeins sá sem fylgir samvisku sinni, óháð þeim fórnum sem því fylgja, sýnir pólitískt hugrekki.
„Hver maður gerir skyldu sína – þótt að honum steðji persónulegir erfiðleikar, hættur og ögranir – og það er undirstaða alls mannlegs siðgæðis.“ Þannig lýsti John F. Kennedy lífsviðhorfi sínu – sýn á baráttu fyrir hugsjónum og sannfæringu um stjórnmálastarf sem mætti ekki stjórnast af eigingirni eða smánun samferðamanna. Þótt Kennedy hafi langt í frá verið gallalaus og á stundum átt erfitt með að lifa eftir eigin forskrift, er ég sannfærður um að stjórnmál samtímans í Bandaríkjunum (og víðar á Vesturlöndum) myndu vekja hjá honum óhug. En hann hefði, líkt og hann gerði í ræðu við Loyola-háskólann í Baltimore 1958, hvatt okkur til að örvænta ekki heldur bregðast við og undirgangast eigin ábyrgð á framtíðinni.
Er nema von að spurt sé: Hvar eru arftakar Kennedys, Reagans og Lincolns? Hvar eru stjórnmálamennirnir sem berjast fyrir hugsjónum? Hvar eru stjórnmálamennirnir sem hafna smánun, slaufun, árásargirni og lýðhyggju? Hvar eru kjósendur sem vilja forseta með skýra framtíðarsýn – sem sameinar í stað þess að sundra? Hvers vegna á 340 milljóna þjóð ekki aðra og betri valkosti en Joe Biden og Donald Trump?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2023.