Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga minna okkur enn og aftur á að það erum ekki við mannfólkið sem stýrum í raun þessu landi. Ógnarkrafturinn fyllir okkur auðmýkt gagnvart því að lífið getur tekið breytingum á örskotsstund sama hvort okkur líkar betur eða verr.
Að þessu sinni eru það íbúar Grindavíkur sem hafa mátt þola stærri skammt en við hin og munu eflaust áfram gera. Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort og þá hvar muni gjósa en við vitum að tilvera alls fólks sem þar starfar og býr hefur verið skekin og að öllum líkindum verður atburðarásin fram undan mikil og krefjandi.
Það sem einkennir samfélag sem hefur burði til að halda utan um svona atburði á sem farsælastan hátt er gangverk, nánast eins og gömul standklukka, sem hrekkur í gang og ber svo áfram klukkutímana jafnvel þó hún hafi staðið aðgerðalaus árum saman.
Þetta er gangverk samhugar, samheldni, forgangsröðunar og forsjálni. Allt frá nýjustu tækniinnviðum sem sýna okkur kvikuganga nánast í rauntíma og vara okkur við ósýnilegri vá, til rammvirkra vinnuvéla sem koma fyrirvaralaust á staðinn til að reisa varnargarða ef þá þarf. Ekkert af þess gerist af sjálfu sér. Þekkingin og tæknin er afrakstur markvissrar þekkingaröflunar í áratugi – og í raun árhundruð. Vinnuvélarnar eru þar vegna þess að stjórnvöld hafa kortlagt allar vinnuvélar landsins svo hægt yrði að kalla fljótt og örugglega til þau tæki sem til þyrfti og gætu komið fyrirvaralaust. Þetta eru bara lítil dæmi um gangverkið sem tifar áfram nánast án þess að við verðum þess vör.
Svo er það hjartalag mannauðsins, sem er ekki síður dýrmætt. Það er fallegt að fylgjast með hvað fólk er einhuga gott við annað fólk þegar á reynir. Þó við sjáum stundum daga þar sem hver höndin er upp á móti annarri er dýrmæti okkar fólgið í hve fljót við erum að rétta hvert öðru hjálparhönd þegar á reynir. Forseti Íslands sagði um helgina að við værum eins og fjölskylda þar sem allir þekkja einhvern úr Grindavík. Við getum líka sagt að við séum eins og systkinahópur sem á það stundum til að hnakkrífast en stendur alltaf saman þegar á reynir.
Fólk sem býr í farsælum samfélögum verður ekki endilega vart við dagsdaglega hversu margt þarf til að gangverkið gangi upp, enda eiga góð gangverk að tifa áfram í hljóði svo fólk geti einbeitt sér að öðrum hlutum í sínu lífi. En fólkið verður að geta treyst því að gangverkið sé til staðar og að því sé hjálpað þegar á reynir.
Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum og við sameinumst öll í þeirri von að skaðinn verði sem allra minnstur umfram það sem orðið er. Um leið geta þeir treyst að augu allra eru og verða áfram á því sem hægt er að gera og hafa stjórn á þeim til aðstoðar í þessu volduga landi sem við búum í.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. nóvember 2023.