Óli Björn Kárason alþingismaður skrifaði í dag áhugaverða grein í Morgunblaðið þar sem hann rekur þær skattkerfisbreytingar sem átt hafa sér stað í tíð Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu síðasta áratuginn.
Hann segir róttækar breytingar hafa átt sér stað á tekjuskattskerfi einstaklinga í tíð Bjarna. Þær hafi leitt í ljós að einstaklingar greiða á þessu ári um 61 milljarði króna minna í tekjuskatt en þeir hefðu gert að óbreyttu. Þetta jafngildir því að einstaklingar greiði að meðaltali um fimm milljörðum lægri tekjuskatt í hverjum mánuði.
Óli Björn vísar í ítarlegt svar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu við skriflegri fyrirspurn hans þar sem fram kemur að alls hafi skattar verið lækkaðir 63 sinnum í tíð Bjarna. Þá séu skattalegar mótvægisaðgerðir vegna covid-faraldur ekki meðtaldar, enda tímabundnar aðgerðir.
„Á þessu ári nema samanlögð áhrif hækkana og lækkana á föstu verðlagi um 95 milljörðum króna til lækkunar. Að frátöldum covid-aðgerðum nemur skattalækkunin um 85 milljörðum króna að teknu tilliti til hækkunar útsvars á móti lækkun tekjuskatts árið 2023,“ segir hann í greininni.
Þar kemur jafnframt fram að einstaklingar hafi greitt alls 333 milljörðum króna lægri fjárhæð í tekjuskatt á ellefu ára tímabili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatthlutföll og skattareglur hefðu verið óbreyttar frá tíð vinstri ríkisstjórnarinnar.
Hann nefnir einnig tryggingagjald sem hafi lækkað verulega og eins tolla og vörugjöld, erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt tekjulægri hópa með verulegri hækkun frítekjumarks. Þeir skattar séu nær 128 milljörðum lægri á þessu ári en þeir væru að óbreyttu. Á móti komi hinsvegar ýmsar skattahækkanir upp á 43 milljarða króna.
„Yfir tímabilið nemur uppsöfnuð lækkun skatta og gjalda um 760 milljörðum króna á föstu verðlagi. En skattahækkanir hafa numið 451 milljarði og munar þar mestu um bankaskattinn og breytingar á virðisaukaskatti. Uppsöfnuð nettó skattalækkun nemur 372 milljörðum í heildina en 310 milljörðum þegar aðgerðir vegna veirufaraldursins eru frátaldar og hækkun útsvars er reiknuð með,“ segir Óli Björn.
Greinin í heild sinni má lesa hér.
Einnig má lesa frétt úr sömu grein hér.