310 milljarða lægri skattar

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Rót­tæk­ar breyt­ing­ar á tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga í tíð Bjarna Bene­dikts­son­ar í fjár­málaráðuneyt­inu hafa leitt til þess að ein­stak­ling­ar greiða á þessu ári um 61 millj­arði króna minna í tekju­skatt en þeir hefðu gert að óbreyttu. Þetta jafn­gild­ir að ein­stak­ling­ar greiði að meðaltali um fimm millj­örðum lægri tekju­skatt í hverj­um mánuði.

Í ít­ar­legu svari fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins við skrif­legri fyr­ir­spurn um breyt­ing­ar á skött­um og gjöld­um frá 2013 kem­ur fram að alls hafi skatt­ar verið hækkaðir 28 sinn­um en 63 sinn­um lækkaðir. Þá eru skatta­leg­ar mót­vægisaðgerðir vegna covid-far­ald­urs ekki tald­ar með enda tíma­bundn­ar aðgerðir. Á þessu ári nema sam­an­lögð áhrif hækk­ana og lækk­ana á föstu verðlagi um 95 millj­örðum króna til lækk­un­ar. Að frá­töld­um covid-aðgerðum nem­ur skatta­lækk­un­in um 85 millj­örðum króna að teknu til­liti til hækk­un­ar út­svars á móti lækk­un tekju­skatts árið 2023.

Alls greiddu ein­stak­ling­ar um 333 millj­örðum króna lægri fjár­hæð í tekju­skatt á ell­efu ára tíma­bili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatt­hlut­föll og skatta­regl­ur hefðu verið óbreytt­ar frá tíð vinstri rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Trygg­inga­gjöld hafa lækkað veru­lega og sama má segja um tolla og vöru­gjöld, erfðafjárskatt og fjár­magn­s­tekju­skatt tekju­lægri hópa með veru­legri hækk­un frí­tekju­marks. Alls eru þeir skatt­ar sem hafa lækkað nær 128 millj­örðum lægri á þessu ári en þeir væru að óbreyttu. Á móti koma hins veg­ar ýms­ar skatta­hækk­an­ir alls upp á 43 millj­arða króna.

Yfir tíma­bilið nem­ur upp­söfnuð lækk­un skatta og gjalda um 760 millj­örðum króna á föstu verðlagi. En skatta­hækk­an­ir hafa numið 451 millj­arði og mun­ar þar mestu um banka­skatt­inn og breyt­ing­ar á virðis­auka­skatti. Upp­söfnuð nettó skatta­lækk­un nem­ur 372 millj­örðum í heild­ina en 310 millj­örðum þegar aðgerðir vegna veirufar­ald­urs­ins eru frá­tald­ar og hækk­un út­svars er reiknuð með.

Aukn­ar ráðstöf­un­ar­tekj­ur

Í svari ráðuneyt­is­ins er tekið fram að breyt­ing­ar sem hafa mjög lít­il tekju­áhrif séu ekki meðtald­ar og ekki held­ur breyt­ing­ar á krónu­tölu­gjöld­um nema þær hafi breyst að raun­v­irði til hækk­un­ar og lækk­un­ar. Þá eru veiðigjöld ekki meðtal­in né skatt­frjáls út­tekt sér­eign­ar­sparnaðar vegna íbúðakaupa. Þá eru tíma­bundn­ir skatt­ar sem ekki voru fram­lengd­ir und­an­skild­ir. Þetta á til dæm­is við um auðlegðarskatt sem féll niður árið 2015 og eru tekju­áhrif á rík­is­sjóð met­in á 10,7 millj­arða á verðlagi árs­ins. Þá var orku­skatt­ur felld­ur niður ári síðar sem lækkaði skatt­byrðina um 2,2 millj­arða.

Ráðuneytið taldi sér ekki unnt að svara hvaða áhrif skatt­kerf­is­breyt­ing­arn­ar á þess­um árum hefðu haft á ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­il­anna enda kallaði það á viðmikla rann­sókn. Ljóst væri hins veg­ar að skatt­kerf­is­breyt­ing­arn­ar hefðu lækkað skatta bæði á heim­ili og fyr­ir­tæki og aukið ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­il­anna. Gögn­in sýna að sú aukn­ing er hlut­falls­lega mest hjá tekju­lægri heim­il­um.

Líkt og ráðuneytið bend­ir á í svari sínu þá hafa skatt­ar áhrif á hagræn­ar ákv­arðanir heim­ila og fyr­ir­tækja og þar með á hinar ýmsu hag­stærðir, þar með talið skatt­stofn­ana sjálfa. Það er virki­lega ánægju­legt að sjá þenn­an skiln­ing sem mér finnst oft vanta í umræðu um skatta. Þannig geta tekj­ur rík­is­sjóðs hækkað þótt skatt­hlut­fall sé lækkað vegna auk­inna um­svifa. Þá geta tekj­ur af öðrum skött­um hækkað þótt tekj­ur af öðrum lækki vegna breyt­inga á skatt­hlut­föll­um. Dæmi um þetta er aukn­ar tekj­ur af virðis­auka­skatti vegna lækk­un­ar tekju­skatts. Hversu mik­il hækk­un­in er fer eft­ir aðstæðum á hverj­um tíma og jaðarneyslu­hneigð. Svipað má segja um end­ur­greiðslu virðis­auka­skatts af vinnu á bygg­ing­arstað. Já­kvætt sam­hengi er á milli end­ur­greiðslu­hlut­falls og tekna rík­is­sjóðs af öðrum skatt­stofn­um, eins og trygg­inga­gjaldi og tekju­skatti.

Mat ráðuneyt­is­ins á áhrif­um ein­stakra skatt­breyt­inga bygg­ist á hliðstæðum aðferðum „við þær sem venj­an er að nota við áhrifamat í laga­frum­vörp­um og áætlana­gerð í rík­is­fjár­mál­um til að meta skamm­tíma­áhrif skatt­kerf­is­breyt­inga, þ.e. á upp­hafs­ári og allra næstu árum. Er þá byggt á til­tæk­um upp­lýs­ing­um um tekju­stofna og for­send­ur skatt­álagn­ing­ar og oft­ast notuð til­tölu­lega ein­föld kyrr­stæð nálg­un við út­reikn­inga en þó leit­ast við að taka að ein­hverju marki til­lit til óbeinna áhrifa sem skatt­stofn­ar verða fyr­ir með tím­an­um vegna viðbragða aðila við skatt­kerf­is­breyt­ing­um. Óvissa um um­fang og tíma­setn­ingu slíkra viðbragða er oft veru­leg í upp­hafi enda ræður þar sam­spil margra þátta.“

150 millj­arða lækk­un

Eins og sést á meðfylgj­andi mynd eru tekj­ur rík­is­sjóðs af virðis­auka­skatti yfir 24 millj­örðum króna hærri en að óbreyttu kerfi 2012 enda hafa tölu­verðar breyt­ing­ar verið gerðar á skatt­in­um. Neðra þrep virðis­auk­ans var hækkað, efra þrepið lækkað og skatt­stofn­inn breikkaður. Ávinn­ing­ur rík­is­sjóðs er veru­leg­ur sam­kvæmt áætl­un­um. Á móti kem­ur af­nám al­mennra vöru­gjalda og niður­fell­ing flestra tolla, að und­an­skild­um land­búnaðar­vör­um, sem talið er að leiði til 20 millj­arða lægri skatta á þessu ári. Upp­söfnuð áhrif af niður­fell­ingu vöru­gjalda og tolla eru um 150 millj­arðar á tíma­bil­inu. Áhrif virðis­auka­skatts­breyt­inga eru liðlega 163 millj­arðar.

Kol­efn­is­gjald hef­ur hækkað nokkuð hressi­lega á liðnum árum. Skatt­in­um er ætlað að styðja við að sett mark­mið í lofts­lags­mál­um ná­ist. Ég hef haft tölu­verðar efa­semd­ir um ágæti kol­efn­is­gjalds­ins. Vís­bend­ing­ar eru um að gjaldið legg­ist mis­jafn­lega þungt á at­vinnu­grein­ar sem og launa­fólk. Um­hverf­is­skatt­ar, svo­kallaðir græn­ir skatt­ar, kunna að vera skyn­sam­leg­ir. Hætt­an er sú að þeir verði skjól fyr­ir aukna skatt­heimtu og hafi nei­kvæð áhrif á sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar. Þessu til viðbót­ar hef­ur verið varað við því að græn­ir skatt­ar legg­ist hlut­falls­lega þyngra á þá sem lægstu tekj­urn­ar hafa. Um­hverf­is­skatt­ar geta því aukið efna­hags­leg­an ójöfnuð.

Ekki verður annað sagt en að fjár­mála­markaður­inn hafi þurft að bera byrðar á síðustu árum. Upp­safnaðar skatta­breyt­ing­ar á fjár­mála­markaðinn frá 2013 nema liðlega 176 millj­örðum króna og mun­ar þar lang­mestu um banka­skatt­inn svo­kallaða. Skatt­ur­inn var lagður á 2011 en var hækkaður veru­lega í stjórn­artíð Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks og var meðal ann­ars lagður á þrota­bú föllnu bank­anna. Mik­il hækk­un skatts­ins var ekki síst til að fjár­magna um­fangs­mikl­ar leiðrétt­ing­ar verðtryggðra hús­næðislána. Alþingi samþykkti und­ir lok 2019 að lækka banka­skatt­inn í áföng­um fram til árs­ins 2024. Lækk­un­in styður við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að auka skil­virkni í fjár­mála­kerf­inu og lækka kostnað neyt­enda. Banka­skatt­ur­inn skilaði alls um 147 millj­örðum króna frá 2013 til 2023.

Bönd á skattagleðina

Því verður illa mót­mælt að frá ár­inu 2013 hef­ur tölu­vert áunn­ist í að hemja skattagleði rík­is­ins. Árang­ur­inn blas­ir við þegar rýnt er í tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar. En jafn­vel þótt flest skref­in sem stig­in hafa verið síðasta ára­tug­inn séu í rétta átt, stend­ur sú staðreynd óhögguð að Ísland er háskatta­land í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Ég hef verið óþreyt­andi við að benda á að skatt­byrði launa­fólks og fyr­ir­tækja hafi bæði áhrif á sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar og á lífs­kjör.

Bjarni Bene­dikts­son skil­ur eft­ir góðan veg­vísi eft­ir rúm­an ára­tug í fjár­málaráðuneyt­inu. Þann veg­vísi munu þeir stjórn­mála­menn, sem líta á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki sem tekju-hlaðborð, ekki nota. Við hin skilj­um að hóf­semd í skatt­heimtu og öðrum álög­um skil­ar sí­fellt aukn­um tekj­um í rík­is­sjóð þar sem ýtt er und­ir efna­hags­starf­semi. Þær auknu tekj­ur eru for­senda þess að sótt verði áfram fram í upp­bygg­ingu vel­ferðar­kerf­is­ins og mik­il­vægra sam­fé­lags­legra og efna­hags­legra innviða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. október 2023.