Fer ójöfnuður vaxandi á Íslandi?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Á þessum miðli er því reglulega haldið fram að ójöfnuður fari vaxandi á Íslandi. Ójöfnuður sé í raun mikið vandamál á landinu sem orsakist af ákvörðunum stjórnmálamanna og þeir eru hvattir til að ráðast að rótum vandans.

Þetta er m.a. viðfangsefni nýlegs leiðara. Þar eru fjölmargar staðhæfingar taldar þessu til til stuðnings. Og ekki mikið gefið fyrir alþjóðlegar, viðurkenndar mælingar á ójöfnuði þar sem Ísland stendur iðulega framarlega eða fremst meðal jafningja. Í staðinn er farið út í hinar ýmsu útfærslur eða æfingar til þess að undirbyggja staðhæfinguna, m.a. að undanskilja fasteignir þegar eignir landsmanna eru bornar saman! Og t.d. með yfirferð yfir ársreikninga einnar atvinnugreinar. Svo eru fáeinir launamenn valdir og tekjur þeirra lagðar saman þannig að launafjárhæðir hljóma stjarnfræðilegar. Milljarðar, hvað þá tugir eða hundruð milljarða, eru enda ekki fjárhæðir sem fólk hefur góða tilfinningu fyrir og undirrituð þar ekki undanskilin.

Nú, en ef Íslendingar vilja ekki samþykkja alþjóðlega viðurkenndan samanburð á jöfnuði, hvernig má þá best að skoða þróun hans? Og þá um leið hvort aðgerðir stjórnmálamanna hafi haft áhrif á jöfnuð (eða ójöfnuð)?

Það er t.d. hægt að gera myndrænt. Þannig áttar fólk sig e.t.v. betur á stöðunni en með að lesa handahófskennda upptalningu á milljörðum og prósentum:

Þarna er einhverjum gert til geðs með grafi um skiptingu á eigin fé utan fasteigna. Myndirnar sýna, svo ekki verður dregið í efa með réttum rökum, að jöfnuður á Íslandi hefur aukist sl. áratug. Sumir kynnu jafnvel að segja að stjórnmálamenn ættu hrós skilið fyrir ákvarðanir sem þeir hafa tekið og leitt hafa til þessa. – Eða hentar það kannski ekki málstaðnum að segja hlutina eins og þeir sannarlega eru?