Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar á laugardaginn. Í flokksráði sitja nokkur hundruð manns, alls staðar að af landinu, með ólíkan bakgrunn, úr öllum starfsgreinum, launafólk og atvinnurekendur, ungir og gamlir, karlar og konur. Þetta er fólkið sem ber uppi pólitískt starf Sjálfstæðisflokksins og mótar stefnuna.
Með nokkurri einföldun er hægt að halda því fram að fulltrúar í flokksráði eigi fyrst og síðast þrennt sameiginlegt: Óbilandi trú á krafta frelsisins. Burði til að hugsa sjálfstætt og fylgja hugsun sinni eftir. Og umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsviðhorfum og lífsháttum.
Á flokksráðsfundinum hafa allir í huga – meðvitað eða ómeðvitað – brýningu Bjarna Benediktssonar (1908-1970) á 25 ára afmæli lýðveldisins. Engu góðu verður komið til leiðar nema menn séu tilbúnir „í senn að nenna að leggja á sig hugsun og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær umbætur, er löngun þeirra stendur til“.
Ágjöf
Þeir sem mæta til flokksráðsfundarins gera sér ágætlega grein fyrir því að ríkisstjórnin siglir ekki lygnan sjó. Fram undan eru fjölmörg verkefni sem verður að leysa af festu og trúmennsku. Árangurinn verður í besta falli takmarkaður ef trúnaður og traust ríkir ekki á milli þeirra ólíku flokka sem standa að ríkisstjórninni.
Óháð afstöðu til hvalveiða er ekki hægt að réttlæta stjórnsýslu matvælaráðherra með fyrirvaralausri stöðvun veiða. Ákvörðunin var allt í senn ósanngjörn, ekki samkvæmt lögum og gekk gegn meðalhófsreglu og atvinnufrelsi sem varin er af stjórnarskrá. Ég hef áður haldið því fram að það sé pólitískur barnaskapur að halda að framganga matvælaráðherra hafi ekki áhrif á samstarf innan ríkisstjórnarinnar.
Sjálfstæðisfólk, sem berst fyrir atvinnufrelsi og vill tryggja að stjórnsýsla sé samkvæmt lögum og að stjórnvöld gæti sanngirni gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum, getur illa setið þögult.
Traust verður aldrei byggt á þögninni. Og þögnin auðveldar ekki að leysa brýn verkefni.
Hvaða væntingar?
Á laugardaginn þurfa sjálfstæðismenn að skipuleggja seinni hálfleik í ríkisstjórn. Það verður ekki gert nema þeir geri upp við sig hvaða væntingar þeir hafa til ríkisstjórnarinnar og hvaða verkefnum eigi fyrst og síðast að einbeita sér að. Óskalistar einstakra ráðherra mega ekki draga athyglina og kraftinn frá því mestu skiptir.
Að mestu er augljóst hvaða verkefni ríkisstjórnin á að leggja áherslu á á síðari hluta kjörtímabilsins og um leið láta önnur til hliðar.
Aðhald í ríkisfjármálum er ein forsenda þess að endanlega verði komið böndum á verðbólguna. Þar er ríkisstjórnin á réttri leið. Ráðherrar og stjórnarþingmenn verða að standast freistingar og kröfur um aukin útgjöld á komandi árum. Og það mun reyna á þegar nær dregur kosningum. Stöðugleiki í efnahagsmálum er forsenda að hægt sé að ná farsælum kjarasamningum.
Hefja þarf stórátak í grænni orkuframleiðslu og styrkja grunninn undir orkuskipti. Þar skiptir máli að einfalda enn frekar regluverkið. Samhliða verður að tryggja raforkuöryggi um allt land, sem er undirstaða atvinnu og byggðar. Án orku verða lítil verðmæti til að standa undir öflugu velferðarsamfélagi.
Um leið og verndarkerfi flóttamanna er varið verður að ná stjórn á málaflokknum og þeim kostnaði sem skattgreiðendur standa undir. Tryggja verður að þeir sem eru hér ólöglega yfirgefi landið svo fljótt sem auðið er. Önnur norræn lönd eru ágætar fyrirmyndir í þessum efnum.
Hafi fréttir um ofbeldi og skipulega glæpastarfsemi ekki sannfært stjórnarliða um nauðsyn þess að breyta lögreglulögum er fátt sem getur fengið þá til að horfast í augu við alvarlega stöðu. Það verður hins vegar ekki undan því vikist að veita lögreglunni auknar heimildir til afbrotavarna, samhliða öflugu eftirliti með starfsemi hennar. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að gera lögreglunni kleift að eiga mikilvæg samskipti við systurstofnanir í öðrum löndum í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Þetta er spurning um þjóðaröryggi.
Í aðdraganda kjaraviðræðna, sem verða flóknar og jafnvel erfiðar, kemst ríkisstjórnin ekki hjá því að tryggja að ríkissáttasemjari hafi nauðsynleg verkfæri til að höggva á hnúta sem kunna að koma á erfiðar deilur. Annað er fullkomið ábyrgðarleysi.
Verkefnin eru fleiri
En fyrst og síðast verður sjálfstæðisfólk um allt land að skynja að í ríkisstjórn séu þingmenn og ráðherrar trúir grunnhugsjónum. Að haldið verði áfram að berjast fyrir því að hver og einn fái að vera eins og hann er. Að allir hafi frelsi til að haga lífi sínu eins og þeir kjósa án þess að ganga á rétt annarra. Að staðinn sé vörður um athafnafrelsi einstaklinga – atvinnufrelsi er órjúfanlegur hluti af frjálsu samfélagi. Að framtakssemi einstaklinga sé ekki brotin niður af hinu opinbera með þungum álögum, flóknum reglum eða beinni samkeppni.
Ég hlakka alltaf til að mæta á lands- og flokksráðsfundi. Þeir eru „ættarmót“ fólks sem á sameiginlegar rætur í hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar. Auðvitað verður tekist á og vissulega hleypur einhverjum kapp í kinn. Einmitt þess vegna er svo gefandi að taka þátt í lifandi starfi stjórnmálaflokks sem sækir kraftinn í trúna á einstaklinginn og orkuna, í hreinskiptnar umræður, fjölbreyttar skoðanir og rökræður um nýjar hugmyndir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst 2023.