Árangur í baráttu fyrir launum fatlaðra

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Und­an­farna daga hafa fjöl­miðlar ritað og rætt um laun fatlaðra ein­stak­linga. Við hjá Þroska­hjálp á Suður­nesj­um höf­um farið aðrar leiðir í launa­mál­um en þeir sem við ber­um okk­ur sam­an við. Þar hef­ur öll okk­ar orka síðustu 10 árin farið í að bæta kjör og aðbúnað þeirra sem hjá okk­ur vinna. Eft­ir að þjón­usta sem ríkið veitti fötluðu fólki var flutt frá ríki til sveit­ar­fé­laga 1. janú­ar 2011 stóð Þroska­hjálp á Suður­nesj­um frammi fyr­ir mikl­um vanda. Fót­um var kippt und­an um­svifa­mikl­um rekstri í Ragn­ars­seli. Þar var tekið á móti fötluðum börn­um úr grunn- og fram­halds­skól­un­um á Suður­nesj­um eft­ir skóla­tíma og þeim boðin fjöl­breytt fé­lagsþjón­usta, sjúkraþjálf­un og gæsla. Með yf­ir­töku mál­efna fatlaðra til sveit­ar­fé­lag­anna færðist öll sú þjón­usta yfir til skól­anna. Sag­an geym­ir af­rek þessa fólks sem vann sig út úr vand­an­um, losaði hús­næði í Ragn­ars­seli og greiddi upp skuld­ir þegar tekj­urn­ar hættu að ber­ast.

En draum­ur­inn um stuðning og at­vinnu­sköp­un fyr­ir fatlaða var á lífi. Dósa­seli óx fisk­ur um hrygg og er sjálf­stætt fé­lag í eigu Þroska­hjálp­ar á Suður­nesj­um, sem hef­ur ekki notið op­in­berra styrkja um­fram önn­ur fyr­ir­tæki eða at­vinnu­líf.

Styrk­ari rekst­ur, betri laun

Fram­an af var rekst­ur Dósa­sels erfiður en góðir hlut­ir að ger­ast. Fyrstu árin í rekstri voru lág laun greidd til viðbót­ar við bæt­ur, en með sam­stilltu átaki stjórn­ar­manna, End­ur­vinnsl­unn­ar og fjölg­un farþega á Kefla­vík­ur­flug­velli, var skotið styrk­um fót­um und­ir starf­sem­ina í Dósa­seli. Meg­in­mark­miðið var að styrkja rekst­ur­inn og bæta starfs­kjör og aðstöðu starfs­manna. Við gerðum sam­komu­lag við Verka­lýðs- og sjó­manna­fé­lag Kefla­vík­ur um kjör okk­ar starfs­manna. Mark­miðið var að fatlaðir starfs­menn Dósa­sels fengju sam­bæri­leg launa­kjör og á al­menn­um vinnu­markaði. Því fylgdi mik­il áskor­un fyr­ir veik­b­urða rekst­ur og litla tekju­mögu­leika. Með samn­ing­um fengu starfs­menn Dósa­sels öll þau rétt­indi sem aðrir fé­lags­menn í VSFK hafa. Þar með talið aðgengi að leigu sum­ar­húsa, af­slátt í lík­ams­rækt og önn­ur hlunn­indi. Þrátt fyr­ir að okk­ar fólk nýti sér þessi hlunn­indi á tak­markaðan hátt eru þau mik­il­væg fyr­ir starfs­menn okk­ar og stöðu þeirra. Að þau sitji við sama borð og aðrir. Við erum þakk­lát starfs­mönn­um VSFK fyr­ir hjálp­semi og ekki síður fyr­ir að taka á móti okk­ar fólki eins og öðrum full­gild­um fé­lags­mönn­um á starfs­svæði VSFK. Í dag greiða all­ir starfs­menn fé­lags­gjald til VSFK.

Laun­in sam­bæri­leg

Í dag skrifa all­ir starfs­menn Dósa­sels und­ir ráðninga­samn­ing þar sem fram kem­ur starfs­hlut­fall og laun. Útborguð samn­ings­laun okk­ar í dag eru sam­kvæmt meðfylgj­andi samn­ingi og launa­seðli eins starfs­manns: Dag­vinnu­laun 2.225 kr./​klst. og næt­ur­vinna 4.004 kr./​klst. Þá fær okk­ar fólk eins og aðrir launa­menn greitt 10,17% or­lof inn á or­lofs­reikn­ing sem greitt er út í maí á hverju ári. Launa­hækk­an­ir eru upp­færðar í takt við það sem ger­ist á al­menn­um vinnu­markaði.

Starfs­and­inn er lík­ari stóru heim­ili en vinnustað, þar sem nýliðar njóta þekk­ing­ar þeirra reynd­ari og sam­kennd er rík­ur þátt­ur í dag­legu lífi á vinnustaðnum og utan hans. Við erum öll ein­stök og hlú­um að hæfi­leik­um hvert ann­ars sem gera okk­ur að sterku teymi á öfl­ug­um vinnustað með ríka þjón­ustu­lund. Þegar ein­hver þarf að fara í bíl­próf, fá ný gler­augu eða sækja sér heil­brigðisþjón­ustu er það oft leyst eins og á hverju öðru heim­ili og vinnu­veit­and­inn greiðir kostnaðinn. Eðli­lega er Dósa­sel ekki vinnustaður fyr­ir alla fatlaða og það þarf tölu­vert lík­am­legt og and­legt at­gervi til að stand­ast álag og vinnu­tíma.

Upp­sker­an er ríku­leg

Þjón­usta starfs­manna í Dósa­seli er sam­fé­lags­leg þjón­usta þeirra við íbúa á Suður­nesj­um. En starf­sem­in nýt­ur líka stuðnings ein­stak­linga og fyr­ir­tækja sem við erum þakk­lát fyr­ir. Fyr­ir­tæki á Kefla­vík­ur­flug­velli hafa lagt starf­sem­inni lið og sum gefa all­ar tóm­ar dós­ir og flösk­ur í gjafa­sjóð Dósa­sels. Eldri borg­ar­ar, sem alltaf eru á rölt­inu, safna dós­um og leggja í gjafa­sjóð og marg­ir aðrir sýna stuðning í verki. Starf­sem­in í Dósa­seli verður aldrei sterk­ari en það bak­land sem íbú­arn­ir sýna henni. En starfs­menn Dósa­sels standa líka vakt­ina fyr­ir íþrótta­hreyf­ing­una og þjón­usta flug­stöðina á Kefla­vík­ur­flug­velli alla daga árs­ins, þegar kallað er eft­ir að tæma full ílát af flösk­um og dós­um.

Ánægju­leg­ustu tíðind­in eru þegar starfs­menn okk­ar eru kallaðir til starfa hjá öðrum fyr­ir­tækj­um. Hæfi­leik­ar og reynsla okk­ar fólks er eft­ir­sótt í þjón­ustu­störf og við gleðjumst inni­lega þegar til þeirra er leitað. Marg­ir hafa þannig fest sig í sessi á al­menn­um vinnu­markaði á eig­in ábyrgð, með reynslu og þekk­ingu úr Dósa­seli. Upp­sker­an af starf­inu verður ekki ríku­legri en það. Kannski finnst fólki þetta allt svo sjálfsagt, en það er það ekki og ábyrgð okk­ar allra er mik­il á því að þessi tæki­færi sem við sköp­um í Dósa­seli verði áfram fyr­ir hendi.

Okk­ar starfs­menn rísa und­ir þeirri ábyrgð. Þess vegna er það okk­ar ósk að sam­fé­lagið á Suður­nesj­um standi áfram vörð um starf­sem­ina í Dósa­seli. Þannig tryggj­um við sam­bæri­leg launa­kjör fyr­ir okk­ar fólk og tíðkast á al­menn­um vinnu­markaði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. ágúst 2023.