Ásmundur Friðriksson alþingismaður:
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar ritað og rætt um laun fatlaðra einstaklinga. Við hjá Þroskahjálp á Suðurnesjum höfum farið aðrar leiðir í launamálum en þeir sem við berum okkur saman við. Þar hefur öll okkar orka síðustu 10 árin farið í að bæta kjör og aðbúnað þeirra sem hjá okkur vinna. Eftir að þjónusta sem ríkið veitti fötluðu fólki var flutt frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 stóð Þroskahjálp á Suðurnesjum frammi fyrir miklum vanda. Fótum var kippt undan umsvifamiklum rekstri í Ragnarsseli. Þar var tekið á móti fötluðum börnum úr grunn- og framhaldsskólunum á Suðurnesjum eftir skólatíma og þeim boðin fjölbreytt félagsþjónusta, sjúkraþjálfun og gæsla. Með yfirtöku málefna fatlaðra til sveitarfélaganna færðist öll sú þjónusta yfir til skólanna. Sagan geymir afrek þessa fólks sem vann sig út úr vandanum, losaði húsnæði í Ragnarsseli og greiddi upp skuldir þegar tekjurnar hættu að berast.
En draumurinn um stuðning og atvinnusköpun fyrir fatlaða var á lífi. Dósaseli óx fiskur um hrygg og er sjálfstætt félag í eigu Þroskahjálpar á Suðurnesjum, sem hefur ekki notið opinberra styrkja umfram önnur fyrirtæki eða atvinnulíf.
Styrkari rekstur, betri laun
Framan af var rekstur Dósasels erfiður en góðir hlutir að gerast. Fyrstu árin í rekstri voru lág laun greidd til viðbótar við bætur, en með samstilltu átaki stjórnarmanna, Endurvinnslunnar og fjölgun farþega á Keflavíkurflugvelli, var skotið styrkum fótum undir starfsemina í Dósaseli. Meginmarkmiðið var að styrkja reksturinn og bæta starfskjör og aðstöðu starfsmanna. Við gerðum samkomulag við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur um kjör okkar starfsmanna. Markmiðið var að fatlaðir starfsmenn Dósasels fengju sambærileg launakjör og á almennum vinnumarkaði. Því fylgdi mikil áskorun fyrir veikburða rekstur og litla tekjumöguleika. Með samningum fengu starfsmenn Dósasels öll þau réttindi sem aðrir félagsmenn í VSFK hafa. Þar með talið aðgengi að leigu sumarhúsa, afslátt í líkamsrækt og önnur hlunnindi. Þrátt fyrir að okkar fólk nýti sér þessi hlunnindi á takmarkaðan hátt eru þau mikilvæg fyrir starfsmenn okkar og stöðu þeirra. Að þau sitji við sama borð og aðrir. Við erum þakklát starfsmönnum VSFK fyrir hjálpsemi og ekki síður fyrir að taka á móti okkar fólki eins og öðrum fullgildum félagsmönnum á starfssvæði VSFK. Í dag greiða allir starfsmenn félagsgjald til VSFK.
Launin sambærileg
Í dag skrifa allir starfsmenn Dósasels undir ráðningasamning þar sem fram kemur starfshlutfall og laun. Útborguð samningslaun okkar í dag eru samkvæmt meðfylgjandi samningi og launaseðli eins starfsmanns: Dagvinnulaun 2.225 kr./klst. og næturvinna 4.004 kr./klst. Þá fær okkar fólk eins og aðrir launamenn greitt 10,17% orlof inn á orlofsreikning sem greitt er út í maí á hverju ári. Launahækkanir eru uppfærðar í takt við það sem gerist á almennum vinnumarkaði.
Starfsandinn er líkari stóru heimili en vinnustað, þar sem nýliðar njóta þekkingar þeirra reyndari og samkennd er ríkur þáttur í daglegu lífi á vinnustaðnum og utan hans. Við erum öll einstök og hlúum að hæfileikum hvert annars sem gera okkur að sterku teymi á öflugum vinnustað með ríka þjónustulund. Þegar einhver þarf að fara í bílpróf, fá ný gleraugu eða sækja sér heilbrigðisþjónustu er það oft leyst eins og á hverju öðru heimili og vinnuveitandinn greiðir kostnaðinn. Eðlilega er Dósasel ekki vinnustaður fyrir alla fatlaða og það þarf töluvert líkamlegt og andlegt atgervi til að standast álag og vinnutíma.
Uppskeran er ríkuleg
Þjónusta starfsmanna í Dósaseli er samfélagsleg þjónusta þeirra við íbúa á Suðurnesjum. En starfsemin nýtur líka stuðnings einstaklinga og fyrirtækja sem við erum þakklát fyrir. Fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli hafa lagt starfseminni lið og sum gefa allar tómar dósir og flöskur í gjafasjóð Dósasels. Eldri borgarar, sem alltaf eru á röltinu, safna dósum og leggja í gjafasjóð og margir aðrir sýna stuðning í verki. Starfsemin í Dósaseli verður aldrei sterkari en það bakland sem íbúarnir sýna henni. En starfsmenn Dósasels standa líka vaktina fyrir íþróttahreyfinguna og þjónusta flugstöðina á Keflavíkurflugvelli alla daga ársins, þegar kallað er eftir að tæma full ílát af flöskum og dósum.
Ánægjulegustu tíðindin eru þegar starfsmenn okkar eru kallaðir til starfa hjá öðrum fyrirtækjum. Hæfileikar og reynsla okkar fólks er eftirsótt í þjónustustörf og við gleðjumst innilega þegar til þeirra er leitað. Margir hafa þannig fest sig í sessi á almennum vinnumarkaði á eigin ábyrgð, með reynslu og þekkingu úr Dósaseli. Uppskeran af starfinu verður ekki ríkulegri en það. Kannski finnst fólki þetta allt svo sjálfsagt, en það er það ekki og ábyrgð okkar allra er mikil á því að þessi tækifæri sem við sköpum í Dósaseli verði áfram fyrir hendi.
Okkar starfsmenn rísa undir þeirri ábyrgð. Þess vegna er það okkar ósk að samfélagið á Suðurnesjum standi áfram vörð um starfsemina í Dósaseli. Þannig tryggjum við sambærileg launakjör fyrir okkar fólk og tíðkast á almennum vinnumarkaði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. ágúst 2023.