Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Innviðaráðuneytið hélt nýlega fróðlega ráðstefnu um öryggi í samgöngum undir heitinu ,,Á réttri leið.“ Fjallað var um hinn góða árangur sem náðst hefur hérlendis við að auka öryggi í samgöngum og tiltækar leiðir til að gera enn betur.
Ráðstefnan var haldin til heiðurs Ragnhildi Hjaltadóttur, sem nýlega lét af starfi ráðuneytisstjóra, og hlaut hún verðskuldaðar þakkir fyrir ómetanlegt framlag til öryggismála.
Ljóst er að við Íslendingar höfum náð afar ánægjulegum árangri við fækkun alvarlegra umferðarslysa á undanförnum áratugum. Að baki þessum árangri liggja margvíslegar ástæður og samvinna margra aðila. Meðal annars má nefna betri umferðarmannvirki, bætta umferðarmenningu, framþróun í öryggisbúnaði bifreiða, aukna umferðarlöggæslu, markvissan áróður og fræðslu.
Gífurlegur kostnaður vegna umferðarslysa
Betur má þó ef duga skal. Talið er að árlegur heildarkostnaður vegna umferðarslysa sé um sjötíu milljarðar króna. Við þessa háu tölu bætast ómældar andlegar þjáningar fórnarlamba og aðstandenda þeirra.
Margt er hægt að gera til að stuðla að enn frekari fækkun slysa. Mikilvægast er að ráðast að rótum vandans með því að gera úrbætur á þeim stöðum þar sem flest alvarleg slys verða. Gera verður þá kröfu að við úthlutun vegafjár verði umferðaröryggissjónarmið höfð í fyrirrúmi en ekki kjördæmapot. Þótt margt hafi verið vel gert, vantar mikið upp á að slysafækkandi aðgerðir njóti skýlauss forgangs.
Tifandi tímasprengjur
Löngu fyrir síðustu aldamót var bent á að brýnustu úrbætur á þjóðvegakerfi landsins (utan borgarinnar) fælust í aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, annað hvort með tvöföldun (2+2) eða 2+1 breikkun. Um er að ræða umferðarþunga vegkafla á Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, sem samtals eru um 120 kílómetrar að lengd. Mikið var um framaná-árekstra á umræddum vegköflum, en slíkir árekstrar leiða oftast til alvarlegra slysa. Breikkun þessara vegkafla hefur tekið furðu langan tíma í ljósi þess að lengi hefur verið ljóst að slíkar umbætur eru mikilvirkasta leiðin til að fækka alvarlegum umferðarslysum.
Vel hefur þó miðað við breikkun þessara hættulegu vegkafla undanfarin ár. Hefur það stórbætt umferðarflæði og fækkað framaná-árekstrum verulega sem voru lengi stór hluti banaslysa í umferðinni á landsvísu.
Enn á þó eftir að aðskilja akstursstefnur á nokkrum umferðarþungum vegköflum á höfuðborgarsvæðinu, sem segja má að séu tifandi tímasprengjur. Úrbætur á þessum köflum verða að hafa forgang fram yfir framkvæmdir á vegum, sem eru ekki eins hættulegir.
Aukið öryggi á Reykjanesbraut
Ekki hefur til að mynda enn verið lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar sem hafist var handa við árið 2003 eða fyrir tuttugu árum. Þótt framkvæmdinni sé ekki lokið, hefur hún fyrir löngu sannað gildi sitt þar sem alvarlegum slysum hefur stórlega fækkað á þeim köflum, sem breikkaðir hafa verið.
Fækkun slysa á Suðurlandsvegi
Miklar umbætur hafa verið gerðar á Suðurlandsvegi og eru framaná-árekstrar nánast úr sögunni á Hellisheiði en framkvæmdum við aðskilnað akstursstefna þar lauk árið 2015. Nú í maí lauk síðan breikkun Suðurlandsvegar á kaflanum milli Hveragerðis og Selfoss. Var það mikið þjóðþrifaverk enda eykur nýi vegurinn umferðaröryggi til muna á þessum kafla, sem áður var einn hinn hættulegasti á landinu.
Brýnt að ljúka breikkun Vesturlandsvegar
Breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes, frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum, er einhver mikilvægasta umferðaröryggisframkvæmd sem nú er unnið að. Mörg alvarleg slys hafa orðið á þessum vegkafla en breikkun hans og aðskilnaður akstursstefna mun stórauka umferðaröryggi og fækka slysum.
Til stóð að ljúka breikkun alls kaflans árið 2023. Framkvæmdum við fyrri áfanga verksins, frá Kollafirði að Grundarhverfi, lýkur í sumar. Enn ríkir þó óvissa um hvenær hafist verður handa við síðari áfangann, þ.e. frá Grundarhverfi að Hvalfjarðargöngum.
Frekari seinkun framkvæmdarinnar er óviðunandi enda vitað að vegkaflinn er einn hinn hættulegasti á landinu. Vonandi munu ríkisstjórn og Alþingi taka höndum saman og tryggja tafarlausan framgang þessarar brýnu framkvæmdar í þágu umferðaröryggis. Slík forgangsröðun væri í góðu samræmi við boðskap áðurnefndrar ráðstefnu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 10. ágúst 2023.