Til varnar kristnum gildum

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Hún er í Sam­fylk­ing­unni. Ég í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Sam­kvæmt bók­staf stjórn­mála­fræðinn­ar erum við póli­tísk­ir and­stæðing­ar. Þó er fleira sem sam­ein­ar okk­ar en sundr­ar. Við eig­um meiri sam­leið en ætla mætti af þeirri ein­földu mynd sem stjórn­mála­fræðing­ar og fjöl­miðlar draga gjarn­an upp. Við erum bæði sann­færð um að þrátt fyr­ir ýmsa galla sé ís­lenskt sam­fé­lag gott sam­fé­lag, sem er mótað af sögu og menn­ingu, samofið kristn­um gild­um. Við höfn­um bæði til­raun­um til að koll­varpa stjórn­ar­skránni. Ég held að mér sé óhætt að halda því fram að við séum bæði stolt af Íslandi án þess að fyll­ast hroka gagn­vart öðrum þjóðum, menn­ingu þeirra og trú­ar­brögðum. Við erum sam­herj­ar í að verja borg­ara­leg gildi (svo notuð sé ein­föld­un úr stjórn­mála­fræðinni) – vilj­um opið og frjálst sam­fé­lag. En okk­ur grein­ir auðvitað á um ým­is­legt, en í flestu því sem mestu skipt­ir erum við sam­stiga.

Kristrún Heim­is­dótt­ir, vara­formaður kirkjuþings og lektor í lög­fræði, set­ur mál sitt fram með skýr­um og af­ger­andi hætti í viðtali við Morg­un­blaðið síðastliðinn sunnu­dag:

„Á Íslandi erum við svo hepp­in að búa að ákveðinni sam­fé­lags­gerð. Ég held að það skipti máli fyr­ir okk­ur að verja, vernda og styðja það sem hef­ur mótað þessa sam­fé­lags­gerð og er ástæðan fyr­ir því að svo marg­ir vilja koma og vera hérna. Þar er hlut­ur kirkj­unn­ar geysi­lega stór. Þetta á ekki bara við um Ísland held­ur Norður­lönd­in öll. Allt það sem mark­ar sam­fé­lags­gerðina á Norður­lönd­un­um á sér sterk­ar kristn­ar ræt­ur og áhrif­in eru ómæld. Í Dan­mörku, Svíþjóð og víðar er veru­lega mik­il umræða og um­fjöll­un um kristni og kirkju.“

Aðgang­ur bannaður

Kristrún hef­ur með gagn­rýn­um hætti bent á hvernig búið sé að „banna börn­um aðgang“ að Jesú en „öll mættu þau horfa á TikT­ok“. Þannig hefði borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn í Reykja­vík ákveðið að „setja strang­ar regl­ur um kirkju­sókn grunn­skóla­barna og prest­arn­ir upp­lifðu það eins og væri búið að loka á þá“. Með þessu hafði verið byggt und­ir þá skoðun að kirkju­heim­sókn­ir séu bannaðar með lands­lög­um:

„Það var sagt að ekki mætti inn­ræta börn­um neitt. Ef við horf­um í kring­um okk­ur þá er fjöld­inn all­ur af aðilum sem hafa frítt spil til að inn­ræta börn­um allt mögu­legt. Spurn­ing­in sem stend­ur eft­ir er: Af hverju í ósköp­un­um mega börn ekki vita eitt­hvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættu­legt? Menn þurfa að svara þeirri spurn­ingu. Við búum í sam­fé­lagi þar sem fólk not­ar nafn hans stans­laust. Hvaða skyn­semi er í því að það sé numið brott úr kennslu í skól­um eða sam­fé­lag­inu?“

Af­leiðing­in er sú að mennsk­an eigi í mik­illi vörn. „Það er stór hluti af mennsk­unni að viður­kenna að eitt­hvað sé æðra mann­in­um sjálf­um. Ef maður hef­ur enga slíka hug­mynd þá skap­ast and­legt tóma­rúm,“ seg­ir Kristrún í viðtal­inu og bend­ir á hið aug­ljósa; að guðfræðileg hugs­un sé mót­efni við vél­ræna hugs­un nú­tím­ans.

Orð Kristrún­ar tóna ágæt­lega við pre­dik­un herra Karls Sig­ur­björns­son­ar bisk­ups í Kópa­vogs­kirkju á gaml­árs­dag 2017. Hann varaði við af­leiðing­um trú­leys­is. Hug­leiða þurfi hvað ger­ist ef „Jesú Kristi er rýmt út úr lífi ein­stak­linga og sam­fé­lags – eins og virðist keppikefli svo margra sem ráða upp­eldi og skoðana­mót­un á Íslandi í dag“. Karl minnti á að virk­ustu „mann­hat­urs­ma­skín­ur og drápsvél­ar allra tíma voru hin guðlausu ríki 20. ald­ar­inn­ar, Sov­ét­rík­in, Þýska­land nas­ism­ans og Kína“.

Sömu kraft­ar

Hægt en skipu­lega hef­ur trú­in á Guð verið gerð út­læg úr ís­lensk­um skól­um og op­in­beru lífi. Jesús hef­ur verið sett­ur út í horn og reynt að skera á kristn­ar ræt­ur sam­fé­lags­ins. Hug­mynda­fræði trú­leys­is skal vera leiðar­vís­ir sam­tím­ans.

Ég hef oft velt því fyr­ir mér hvort sömu kraft­ar séu að verki þegar kem­ur að því að ryðja trúnni út, færa sam­fé­lagið í átt að trú­leysi og bar­átt­unni fyr­ir því að bylta stjórn­skip­an lands­ins og inn­leiða eitt­hvað sem kallað hef­ur verið „nýja stjórn­ar­skrá­in“. Mark­miðið er að minnsta kosti það sama; að slíta upp ræt­ur sam­fé­lags­ins og henda þeim gild­um sem mótað hafa gott sam­fé­lag umb­urðarlynd­is og frels­is. Unnið er að því að koll­varpa sam­fé­lags­gerðinni.

Kristrún Heim­is­dótt­ir hef­ur verið mjög gagn­rýn­in á til­raun­ir til að um­bylta stjórn­ar­skránni og hafn­ar því að til sé eitt­hvað sem heit­ir „nýja stjórn­ar­skrá­in“. Árið 2021 skrifaði hún áhrifa­mikla grein í Tíma­rit lög­fræðinga um breyt­ing­ar­reglu stjórn­ar­skrár­inn­ar og hvernig umræðan um „nýju stjórn­ar­skrána“ rataði á villi­göt­ur. Í viðtali við Morg­un­blaðið, í til­efni af skrif­un­um, sem vöktu mikla at­hygli, sagði Kristrún meðal ann­ars:

„Sú hug­mynd að ger­bylta stjórn­ar­skrá í mjög vel virk­andi lýðræðisþjóðfé­lagi, sem ég tel að Ísland sé, er mjög áhættu­söm. Hún get­ur ekki aðeins valdið upp­lausn í stjórn­mál­um, held­ur hef­ur hún einnig óheilla­væn­leg áhrif á rétt­ar­ríkið sjálft, set­ur for­dæmi í upp­nám og eyðir fyr­ir­sjá­an­leika, sem sam­fé­lagið hvíl­ir að miklu leyti á.“

Til­raun­um til að bylta stjórn­ar­skránni var hrundið þótt ekki hafi all­ir gefið bylt­ing­una upp á bát­inn. Með svipuðum hætti og stjórn­ar­skrá­in var var­in verður að taka til varna fyr­ir krist­in gildi og bjóða Jesú aft­ur vel­kom­inn í skóla lands­ins. Trú­in og von­in eru tví­bura­syst­ur. Í trúnni felst von­in – bjart­sýni á framtíðina. Von­in fóstr­ar trúna á hið góða. Sam­fé­lag án trú­ar og von­ar er sam­fé­lag sem hægt og bít­andi miss­ir sjón­ar á framtíðinni. Og það er rétt sem Kristrún sagði í áður­nefndu viðtali síðasta sunnu­dag: „Með því að virða okk­ar eig­in sið og eig­in arf­leifð og okk­ar eig­in ræt­ur erum við miklu lík­legri til að geta skilið hvernig aðrir sem hér búa hugsa.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst 2023.