Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Hún er í Samfylkingunni. Ég í Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt bókstaf stjórnmálafræðinnar erum við pólitískir andstæðingar. Þó er fleira sem sameinar okkar en sundrar. Við eigum meiri samleið en ætla mætti af þeirri einföldu mynd sem stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar draga gjarnan upp. Við erum bæði sannfærð um að þrátt fyrir ýmsa galla sé íslenskt samfélag gott samfélag, sem er mótað af sögu og menningu, samofið kristnum gildum. Við höfnum bæði tilraunum til að kollvarpa stjórnarskránni. Ég held að mér sé óhætt að halda því fram að við séum bæði stolt af Íslandi án þess að fyllast hroka gagnvart öðrum þjóðum, menningu þeirra og trúarbrögðum. Við erum samherjar í að verja borgaraleg gildi (svo notuð sé einföldun úr stjórnmálafræðinni) – viljum opið og frjálst samfélag. En okkur greinir auðvitað á um ýmislegt, en í flestu því sem mestu skiptir erum við samstiga.
Kristrún Heimisdóttir, varaformaður kirkjuþings og lektor í lögfræði, setur mál sitt fram með skýrum og afgerandi hætti í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn sunnudag:
„Á Íslandi erum við svo heppin að búa að ákveðinni samfélagsgerð. Ég held að það skipti máli fyrir okkur að verja, vernda og styðja það sem hefur mótað þessa samfélagsgerð og er ástæðan fyrir því að svo margir vilja koma og vera hérna. Þar er hlutur kirkjunnar geysilega stór. Þetta á ekki bara við um Ísland heldur Norðurlöndin öll. Allt það sem markar samfélagsgerðina á Norðurlöndunum á sér sterkar kristnar rætur og áhrifin eru ómæld. Í Danmörku, Svíþjóð og víðar er verulega mikil umræða og umfjöllun um kristni og kirkju.“
Aðgangur bannaður
Kristrún hefur með gagnrýnum hætti bent á hvernig búið sé að „banna börnum aðgang“ að Jesú en „öll mættu þau horfa á TikTok“. Þannig hefði borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ákveðið að „setja strangar reglur um kirkjusókn grunnskólabarna og prestarnir upplifðu það eins og væri búið að loka á þá“. Með þessu hafði verið byggt undir þá skoðun að kirkjuheimsóknir séu bannaðar með landslögum:
„Það var sagt að ekki mætti innræta börnum neitt. Ef við horfum í kringum okkur þá er fjöldinn allur af aðilum sem hafa frítt spil til að innræta börnum allt mögulegt. Spurningin sem stendur eftir er: Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættulegt? Menn þurfa að svara þeirri spurningu. Við búum í samfélagi þar sem fólk notar nafn hans stanslaust. Hvaða skynsemi er í því að það sé numið brott úr kennslu í skólum eða samfélaginu?“
Afleiðingin er sú að mennskan eigi í mikilli vörn. „Það er stór hluti af mennskunni að viðurkenna að eitthvað sé æðra manninum sjálfum. Ef maður hefur enga slíka hugmynd þá skapast andlegt tómarúm,“ segir Kristrún í viðtalinu og bendir á hið augljósa; að guðfræðileg hugsun sé mótefni við vélræna hugsun nútímans.
Orð Kristrúnar tóna ágætlega við predikun herra Karls Sigurbjörnssonar biskups í Kópavogskirkju á gamlársdag 2017. Hann varaði við afleiðingum trúleysis. Hugleiða þurfi hvað gerist ef „Jesú Kristi er rýmt út úr lífi einstaklinga og samfélags – eins og virðist keppikefli svo margra sem ráða uppeldi og skoðanamótun á Íslandi í dag“. Karl minnti á að virkustu „mannhatursmaskínur og drápsvélar allra tíma voru hin guðlausu ríki 20. aldarinnar, Sovétríkin, Þýskaland nasismans og Kína“.
Sömu kraftar
Hægt en skipulega hefur trúin á Guð verið gerð útlæg úr íslenskum skólum og opinberu lífi. Jesús hefur verið settur út í horn og reynt að skera á kristnar rætur samfélagsins. Hugmyndafræði trúleysis skal vera leiðarvísir samtímans.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvort sömu kraftar séu að verki þegar kemur að því að ryðja trúnni út, færa samfélagið í átt að trúleysi og baráttunni fyrir því að bylta stjórnskipan landsins og innleiða eitthvað sem kallað hefur verið „nýja stjórnarskráin“. Markmiðið er að minnsta kosti það sama; að slíta upp rætur samfélagsins og henda þeim gildum sem mótað hafa gott samfélag umburðarlyndis og frelsis. Unnið er að því að kollvarpa samfélagsgerðinni.
Kristrún Heimisdóttir hefur verið mjög gagnrýnin á tilraunir til að umbylta stjórnarskránni og hafnar því að til sé eitthvað sem heitir „nýja stjórnarskráin“. Árið 2021 skrifaði hún áhrifamikla grein í Tímarit lögfræðinga um breytingarreglu stjórnarskrárinnar og hvernig umræðan um „nýju stjórnarskrána“ rataði á villigötur. Í viðtali við Morgunblaðið, í tilefni af skrifunum, sem vöktu mikla athygli, sagði Kristrún meðal annars:
„Sú hugmynd að gerbylta stjórnarskrá í mjög vel virkandi lýðræðisþjóðfélagi, sem ég tel að Ísland sé, er mjög áhættusöm. Hún getur ekki aðeins valdið upplausn í stjórnmálum, heldur hefur hún einnig óheillavænleg áhrif á réttarríkið sjálft, setur fordæmi í uppnám og eyðir fyrirsjáanleika, sem samfélagið hvílir að miklu leyti á.“
Tilraunum til að bylta stjórnarskránni var hrundið þótt ekki hafi allir gefið byltinguna upp á bátinn. Með svipuðum hætti og stjórnarskráin var varin verður að taka til varna fyrir kristin gildi og bjóða Jesú aftur velkominn í skóla landsins. Trúin og vonin eru tvíburasystur. Í trúnni felst vonin – bjartsýni á framtíðina. Vonin fóstrar trúna á hið góða. Samfélag án trúar og vonar er samfélag sem hægt og bítandi missir sjónar á framtíðinni. Og það er rétt sem Kristrún sagði í áðurnefndu viðtali síðasta sunnudag: „Með því að virða okkar eigin sið og eigin arfleifð og okkar eigin rætur erum við miklu líklegri til að geta skilið hvernig aðrir sem hér búa hugsa.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst 2023.