Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Það hljómar kannski ótrúlega en allt í einu er ekki ósennilegt að norðanáttin okkar verði senn aðdráttarafl í sjálfu sér ef fram heldur sem horfir með þann þrúgandi hita sem er að verða árviss sumargestur hjá mörgum nágrönnum okkar. Það getur samt verið erfitt að hugsa þannig einmitt meðan rokið bylur á gluggunum og útiblómin fjúka um koll þessa fáu daga sem við höfðum tekið frá til að njóta sumarsins.
Við eigum það til að einblína á litlu málin fyrir framan okkur á hverjum tíma og virðumst þurfa að vanda okkur til að muna að við eigum að hugsa stórt og til langs tíma. Við vitum fátt um framtíðina annað en það að hlutirnir munu breytast, samfélagsbreytingar síðustu þrjátíu ára verða líklega aðeins forleikur að breytingunum sem eru í vændum næstu þrjátíu ár.
Það sem við vitum hins vegar er að við þurfum að gera okkar besta til að búa okkur undir framtíðina. Við þurfum að mennta fólk fyrir nýjar kröfur, nýta orku fyrir nýjar lausnir og innleiða nýja nálgun til að bæta heilbrigðisþjónustuna og búa hana undir breytt þjóðfélag með hækkandi lífaldri.
Það sem við vitum líka er hvaða grunnur hefur alltaf gefist best til að mæta áskorunum með farsælum hætti. Við vitum að frelsi til athafna hefur byggt þann grunn sem okkar góða samfélag byggist á. Ríkið hefur það hlutverk að þjóna og styðja þá sem það þurfa en á að öðru leyti að hafa sem minnst afskipti af fólki og því sem það áorkar.
Einhverra hluta vegna hefur þjóðfélagsumræðan færst í æ meiri mæli frá því að ræða á hvaða grunni við ætlum að stefna áfram sem samfélag. Dagskrárvaldið er iðulega yfirtekið af mislitlum smámálum með það eina augljósa markmið að þyrla upp ryki og skapa tortryggni. Einhverjir myndu segja að það væri eðli þjóðfélagsumræðu að einblína á hvaðeina það litla sem gæti farið betur. Það er gott og blessað en það er ekki ástæða til að yppa bara öxlum yfir að trekk í trekk sé umræðan færð úr fókus um grundvallarhagsmunamál þjóðarinnar.
Það er svo stutt síðan Ísland átti fullt í fangi með að sanna sig sem alvöru þjóð meðal þjóða að eldri kynslóðir muna þá tíma vel. Það er ekkert sjálfgefið í því að þau lífsgæði og öryggi sem við höfum vanist verði áfram fyrir hendi.
Það sem við eigum að ræða er hvernig við tryggjum að svo verði áfram og að við gerum enn betur. Að í óvissu og hraðari breytingum en nokkurn hefði órað fyrir búi börnin okkar og barnabörn við umhverfi stöðugleika og yfirvegaðs samtals í stað óráðsíu og gífuryrða, umhverfis þar sem góðar hugmyndir og atorka fá að þrífast til að vinna á áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.
Ef okkur lánast að tryggja slíka kjölfestu samfélagsins verður það svo verðugt aukaverkefni að komast til botns í því hvort norðanáttin sé bölvun eða blessun.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2023.