Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Þriðja eldgosið á Reykjanesskaga á jafnmörgum árum sýnir, svo ekki verður um villst, að nýtt gostímabil er hafið á svæðinu, sem gæti staðið öldum saman. Reykjaneseldar, síðasta goshrina á svæðinu, stóðu í þrjátíu ár og lauk þeim um miðja Sturlungaöld eða árið 1240. Reykjaneseldar voru þó aðeins síðasta hrinan af mörgum á þriggja alda eldsumbrotaskeiði sem stóð frá 950-1240.
Í yfirstandandi goshrinu hefur þróunin orðið sú að gosvirkni færist í norðaustur frá Fagradalsfjalli og þar með nær Hvassahrauni (Afstapahrauni) og höfuðborgarsvæðinu. Talið er að kvikugangurinn teygi sig undir Keili og hafa jarðvísindamenn nefnt að þar geti gosið með skömmum fyrirvara. Frá Keili eru einungis um fjórir kílómetrar að Hvassahrauni.
Það væri afar óábyrgt að taka ekki tillit til þessarar framvindu við skipulag og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Á það ekki síst um skipulag nýrrar íbúabyggðar, vegi og flugvelli.
Óviðunandi áhætta
Hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni eru óraunhæfar vegna jarðhræringa og eldgosahættu eins og jarðvísindamenn hafa reyndar bent á árum saman. Afar heimskulegt væri að leggja flugvöll svo nálægt virku eldsumbrotasvæði. Þótt ekki gysi á sjálfum flugvellinum, gætu eldsumbrot í næsta nágrenni haft margvísleg neikvæð áhrif á starfsemi hans. Til dæmis vegna gasmengunar, reykjarkófs og öskufalls.
Atvinnuflugmenn hafa einnig um langa hríð varað við hugmyndum um flugvöll í Hvassahrauni vegna lélegra aðflugsskilyrða og sviptivinda.
Mikill kostnaður
Óverjandi er að halda áfram að sóa hundruðum milljóna króna til frekari rannsókna vegna flugvallar í Hvassahrauni. Stöðva á fjáraustur í slíkt gæluverkefni, sem virðist hafa þann tilgang helstan að friða flugvallarandstæðinga í Reykjavík.
Ljóst er að kostnaður við lagningu innanlandsflugvallar í Hvassahrauni yrði ekki undir fimmtíu milljörðum króna. Alþjóðaflugvöllur þar myndi kosta a.m.k. 377 milljarða króna að núvirði samkvæmt kostnaðarmati samgönguráðuneytisins frá 2019.
Þrátt fyrir mikla ókosti hefur Hvassahraun um árabil verið haldreipi þeirra, sem vilja flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík sem fyrst. Endurtekin eldsumbrot í nágrenni Hvassahrauns, e.t.v. 5-6 kílómetra frá fyrirhuguðu flugvallarstæði, ættu að verða til þess að jafnvel hörðustu flugvallarandstæðingar endurskoði hug sinn til málsins. Enn hefur ekki fundist flugvallarkostur á höfuðborgarsvæðinu, sem er jafngóður eða betri en Reykjavíkurflugvöllur.
Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar
Reykjavíkurflugvöllur mun því áfram gegna mikilvægu hlutverki í innanlandsflugi, sjúkraflugi og björgunarflugi. Sjúkraflug hefur aukist mikið á síðustu árum og er nú almennt viðurkennt sem mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þá gegnir Reykjavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki í millilandaflugi sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. júlí 2023.