Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:
Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hefur ákveðið að hækka bílastæðagjöld í miðborg Reykjavíkur um 40%. Við breytinguna hækkar verð á bílastæði á gjaldsvæði P1 úr 430 í 600 krónur á klukkustund. Einnig verður gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 lengdur til kl. níu á kvöldin alla daga. Þá verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum á áðurnefndum gjaldsvæðum.
40% hækkun
40% hækkun opinberra þjónustugjalda er líklega einsdæmi þegar verðbólga mælist um 9%. Um er að ræða einhverja mestu hækkun á þjónustugjöldum hjá Reykjavíkurborg í marga áratugi eða síðan óðaverðbólga geisaði. Svo mikil hækkun gengur í berhögg við við kröfur verkalýðsleiðtoga og stjórnmálamanna um að hið opinbera verði að gæta hófs varðandi gjaldskrárhækkanir og opinberar álögur, í því skyni að ná verðbólgunni niður. Aukin gjaldheimta á Reykvíkinga með 40% hækkun bílastæðagjalda og stækkun gjaldsvæða, mun ekki stuðla að lækkun verðbólgunnar heldur hækkun hennar.
Breytingin hefur í för með sér stóraukna gjaldtöku af þeim bíleigendum sem nýta bílastæði á umræddum gjaldsvæðum í miðborginni og nálægum íbúahverfum. Með hækkuninni verða bílastæðagjöld í miðborg Reykjavíkur mun hærri en í mörgum borgum af svipaðri stærð í nágrannalöndum okkar. Líklegt er að svo mikil hækkun muni hafa neikvæð áhrif á rekstraraðstæður margra verslana og þjónustufyrirtækja í borginni. Að ferðamannaverslunum frátöldum eru fáar almennar verslanir eftir á Laugavegi. Full ástæða er til að óttast að 40% hækkun bílastæðagjalda fækki enn almennum verslunum í miðborginni og dragi úr fjölbreytni þeirra.
Skattur eða þjónustugjald?
Ekki er er einungis verið að hækka bílastæðagjöld á þá sem sækja verslanir eða aðra þjónustu í miðbæinn. Á sama tíma eru gjaldsvæði stækkuð þannig að þau ná einnig til hreinna íbúahverfa í Austurbænum og Vesturbænum. Þúsundir Reykvíkinga, sem hingað til hafa getað lagt án sérstaks gjalds fyrir utan heimili sitt, þurfa nú að greiða fyrir það eða finna stæði annars staðar í borginni.
Bílastæðagjöld eru í eðli sínu þjónustugjöld. Viðurkennt er að ef þjónustugjöld skili umtalsvert hærri tekjum en kostar að veita umrædda þjónustu, sé ekki lengur um gjaldtöku að ræða heldur dulbúna skattheimtu. Með fyrirhugaðri hækkun verður hagnaður Reykjavíkurborgar af bílastæðagjöldum mörg hundruð milljónum króna meiri en kostnaðurinn við að veita þjónustuna. Færa má rök fyrir því að slík gjöld séu því aukaskattur, sem standist ekki jafnræðisreglu því hann leggst eingöngu á íbúa sumra íbúahverfa og gesti þeirra.
Samráði hafnað
Svo umfangsmiklar breytingar á skipulagi bílastæðamála í borginni verðskulda að sjálfsögðu vandað samráð við borgarbúa og umræður á vettvangi borgarstjórnar. Það vakti því furðu mína þegar meirihlutinn lagði tillögur sínar fram eftir að borgarstjórn var farin í sumarfrí og krafðist þess að þær yrðu afgreiddar með forgangshraða á tveimur dögum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru fram á að tillögur meirihlutans yrðu kynntar fyrir samtökum rekstraraðila í miðborginni og íbúasamtökum og íbúaráðum á svæðinu. Eðlilegt hefði verið að gefa öllum þessum aðilum kost á að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar áður en þær hlutu afgreiðslu.
Meirihlutinn kærði sig hins vegar ekki um það, felldi samráðstillögu Sjálfstæðisflokksins og keyrði breytingarnar í gegn í miklum flýti á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur fyrir sumarfrí.
Ljóst er að meðal íbúa og rekstraraðila eru skoðanir skiptar um fyrirkomulag bílastæðamála í borginni. Einmitt þess vegna vildu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kalla eftir samtali og samráði áður en ráðist yrði í svo víðtækar breytingar í miðborginni og aðliggjandi íbúahverfum.
Því miður var það ekki gert.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2023.