Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Lindarhvolsmálið hefur ekki farið fram hjá mörgum en líklegt er að sjónarmið umfram upphlaup stjórnarandstöðunnar hafi farið fram hjá mörgum. Það er þá ábyrgðarhluti okkar í stjórnmálum að reyna að varpa skýrara ljósi á málið.
Stöðugleikaframlög svokölluð voru eignir sem teknar voru án endurgjalds af kröfuhöfum 2015 í framhaldi af uppgjöri vegna fjármálahrunsins. Fjármálaráðherra lagði til á sínum tíma að þau færu undir Seðlabankann en Alþingi vildi að þau færu frekar undir fjármálaráðuneytið en framkvæmdin yrði í höndum sjálfstæðs félags sem fékk heitið Lindarhvoll og Ríkisendurskoðun hefði með því eftirlit. Í meðförum Lindarhvols jókst virði framlaganna um 70 milljarða umfram áætlun.
Þegar Ríkisendurskoðun tók út starfsemina var fyrst fenginn til þess settur ríkisendurskoðandi sem skilaði svo ókláruðum athugunum þegar nýr ríkisendurskoðandi var kjörinn vorið 2018. Nýr ríkisendurskoðandi lauk svo verkinu samkvæmt reglum embættisins um fullnustu mála og skilaði sem lokaskýrslu vorið 2020.
Undanfarin ár hefur staðið styr um hvort þingið eða aðrir aðilar í stjórnkerfinu ættu að birta hið ókláraða plagg sem settur ríkisendurskoðandi sendi við lok vinnu sinnar. Síðan þá hefur okkur stjórnarliðum verið brigslað um að vera að hylma yfir einhver myrkraverk með því að birta ekki plaggið. Tekist hefur verið á um lagalega stöðu málsins og álit komið fram um að plaggið beri að birta. En lögfræðiálit eru ekki óskeikul og þegar liggja fyrir nokkrar niðurstöður úrskurðarnefndar um upplýsingamál um hið gagnstæða, þegar um var að ræða aðila sem falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar.
Ríkisendurskoðandi hefur svo sagt bæði ítrekað og skýrt að greinargerðin frá 2018 sé óklárað vinnuskjal sem megi ekki undir nokkrum kringumstæðum birta, sbr. ákvæði laga um Ríkisendurskoðun. Það er synd að ekki virðist hvarfla að fólki að plaggið hafi ekki verið birt vegna þessarar lagalegu stöðu en ekki einhverrar yfirhylmingar. Það er dagljóst að pólitískt hefði verið mun auðveldara að birta bara þetta plagg – og að mínu áliti virðingarvert að það hafi ekki verið gert þrátt fyrir það.
Það má árétta að ekki var um tvær mismunandi skýrslur að ræða og annarri „stungið undir stól“. Fyrra plaggið var hálfnað verk sem var svo klárað og birt sem lokaskýrsla. Munurinn á drögunum og lokaskýrslunni skýrist eflaust af því að komið hafi fram frekari upplýsingar.
Þó Ríkisendurskoðun beri ábyrgð á niðurstöðunni breytir það því ekki að ef einhverjum finnst sem þar þurfi að skoða eitthvað nánar fer það væntanlega sína réttu leið. Að kalla saman þing nú hefði engan tilgang nema að þjóna pólitískri sýndarmennsku, mögulega vegna þess að eftir að plagginu var lekið er furðu hljótt um alla þá pólitísku skandala sem þar áttu að leynast.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2023.