Öngþveiti í málefnum flóttamanna – ábyrgð og lausnir
'}}

Birgir Þórarinsson alþingismaður:

Mál­efni hæl­is­leit­enda hafa tölu­vert verið rædd að und­an­förnu. Til lands­ins streym­ir fólk sem aldrei fyrr og ósk­ar eft­ir alþjóðlegri vernd. Fjöl­menn­asti hóp­ur­inn kem­ur frá Venesúela. Þar í landi er Ísland aug­lýst sér­stak­lega hjá ferðaskrif­stof­um sem ákjós­an­leg­ur áfangastaður fyr­ir þá sem vilja sækja um hæli. Á þessu ári hafa 1.136 manns frá Venesúela sótt um hæli á Íslandi en á sama tíma hafa 35 sótt um í Nor­egi. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að fólkið frá Venesúela sé ekki flótta­menn í skiln­ingi lag­anna held­ur yf­ir­gefi land sósí­al­ism­ans af efna­hags­leg­um ástæðum. Þetta fólk á því ekki rétt í hinu alþjóðlega neyðar­kerfi hæl­is­leit­enda, sem er fyr­ir þá sem eru hætt komn­ir í sínu heimalandi, t.d. vegna stríðsátaka.

Ábyrgðin ligg­ur hjá kær­u­nefnd út­lend­inga­mála

Fyrr­ver­andi formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Þor­steinn Páls­son, sagði fyr­ir skömmu að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn bæri ábyrgð á stöðunni í út­lend­inga­mál­um. Þessi um­mæli bera vott um að Þor­steinn átti sig ekki á hvernig hæl­is­leit­enda­kerfið á Íslandi virk­ar. Þor­steinn skip­ar sér nú í hóp Viðreisn­ar, sem vill óhefta mót­töku hæl­is­leit­enda og spar­ar ekk­ert í mál­flutn­ingi á Alþingi fyr­ir þeirri stefnu. Kær­u­nefnd út­lend­inga­mála ber fyrst og fremst ábyrgð á því ófremd­ar­ástandi sem upp er komið í fótta­manna­mál­um á Íslandi. Nefnd­in er sjálf­stæð í störf­um sín­um. Úrsk­urðir nefnd­ar­inn­ar eru end­an­leg­ir gagn­vart stjórn­völd­um. Hvorki rík­is­stjórn né Alþingi segja nefnd­inni fyr­ir verk­um og stjórn­völd geta ekki kært niður­stöðu henn­ar til dóm­stóla. Þetta er valda­mik­il sjö manna nefnd. Rekst­ur henn­ar kost­ar 273 millj­ón­ir á ári. Ákvarðanir nefnd­ar­inn­ar í mál­efn­um fólks frá Venesúela hafa kostað skatt­greiðend­ur millj­arða. Nefnd­in ákvað að all­ir þeir sem koma frá Venesúela fái fjög­urra ára vernd og þar með sömu rétt­indi og Íslend­ing­ar í vel­ferðar­kerf­inu. Þetta vita þeir sem kaupa sér flug­f­ar til Íslands frá Venesúela.

Leggja ber niður kær­u­nefnd út­lend­inga­mála

Áhrifa­rík­asta leiðin til að ná tök­um á stjórn­leysi í flótta­manna­mál­um á Íslandi er að leggja niður kær­u­nefnd út­lend­inga­mála og færa úr­sk­urðar­valdið í mála­flokkn­um aft­ur til dóms­málaráðuneyt­is­ins. Aug­ljóst er að nefnd­in er ekki störf­um sín­um vax­in. Hún viðhef­ur allt aðra stefnu gagn­vart fólki frá Venesúela en hinar Norður­landaþjóðirn­ar og önn­ur ríki Evr­ópu. Nor­eg­ur veit­ir eng­um frá Venesúela fjög­urra ára vernd. Það sama gild­ir í Dan­mörku. Svíþjóð vís­ar meiri­hluta um­sókna frá Venesúela frá. Spánn hafnaði rúm­lega tíu þúsund um­sókn­um frá Venesúela á síðasta ári. Á Íslandi hafn­ar nefnd­in eng­um og þær frétt­ir bár­ust hratt til Venesúela. Kær­u­nefnd­in hef­ur ákveðið að svona skuli þetta vera. Dóms­málaráðherra ræður engu um það. Alþingi ekki held­ur, nema það leggi nefnd­ina niður með laga­breyt­ingu.

Útlend­inga­stofn­un hef­ur á und­an­förn­um vik­um hafnað um­sókn­um um hæli frá Venesúela. Þær bíða nú niður­stöðu kær­u­nefnd­ar­inn­ar. Staðfesti nefnd­in niður­stöðuna mun straum­ur­inn til lands­ins minnka veru­lega og staða þeirra sem fyr­ir eru í land­inu breyt­ast. Kær­u­nefnd­in hef­ur til­kynnt að hún þurfi þrjá mánuði til að ákveða sig. Á meðan held­ur straum­ur­inn til lands­ins frá Venesúela áfram. Nefnd­in gæti stytt þenn­an tíma t.d. með því að lesa skýrslu norsku kær­u­nefnd­ar­inn­ar um stöðu mála í Venesúela. Lest­ur­inn tek­ur um 20 mín­út­ur. Norðmenn sendu sendi­nefnd til Venesúela til að kynna sér aðstæður og niðurstaðan er skýr: ekki er að finna ástæður fyr­ir fjög­urra ára vernd.

Kær­u­nefnd­in skeyt­ir engu um álag á sveit­ar­fé­lög­in

Íslend­ing­ar vilja hjálpa fólki í neyð og það höf­um við sann­ar­lega gert gagn­vart fólki frá stríðshrjáðri Úkraínu. Við get­um hins veg­ar ekki látið sjö manna nefnd á Skúla­göt­unni setja leigu­markaðinn, fé­lagsþjón­ust­una og skóla­kerfið í stærstu byggðarlög­un­um á hvolf. Svo ekki sé talað um of­spennt heil­brigðis­kerfi.

Ekki fær staðist að nefnd, sem ekki þigg­ur umboð sitt frá kjós­end­um, ákveði að Ísland skuli vera eina ríkið í Evr­ópu sem býður öll­um íbú­um frá Venesúela fjög­urra ára dval­ar­leyfi, 28 millj­ón manna þjóð. Venesúela býr bless­un­ar­lega ekki við stríðsátök. Kær­u­nefnd út­lend­inga­mála legg­ur aug­ljós­lega ekk­ert mat á áhrif ákvörðunar sinn­ar fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in og á vel­ferðar­kerfið á Íslandi. Störf­um nefnd­ar­inn­ar er því í ýms­um efn­um al­var­lega áfátt og blas­ir bein­ast við að leggja hana niður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2023.