Birgir Þórarinsson alþingismaður:
Málefni hælisleitenda hafa töluvert verið rædd að undanförnu. Til landsins streymir fólk sem aldrei fyrr og óskar eftir alþjóðlegri vernd. Fjölmennasti hópurinn kemur frá Venesúela. Þar í landi er Ísland auglýst sérstaklega hjá ferðaskrifstofum sem ákjósanlegur áfangastaður fyrir þá sem vilja sækja um hæli. Á þessu ári hafa 1.136 manns frá Venesúela sótt um hæli á Íslandi en á sama tíma hafa 35 sótt um í Noregi. Sterkar vísbendingar eru um að fólkið frá Venesúela sé ekki flóttamenn í skilningi laganna heldur yfirgefi land sósíalismans af efnahagslegum ástæðum. Þetta fólk á því ekki rétt í hinu alþjóðlega neyðarkerfi hælisleitenda, sem er fyrir þá sem eru hætt komnir í sínu heimalandi, t.d. vegna stríðsátaka.
Ábyrgðin liggur hjá kærunefnd útlendingamála
Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, sagði fyrir skömmu að Sjálfstæðisflokkurinn bæri ábyrgð á stöðunni í útlendingamálum. Þessi ummæli bera vott um að Þorsteinn átti sig ekki á hvernig hælisleitendakerfið á Íslandi virkar. Þorsteinn skipar sér nú í hóp Viðreisnar, sem vill óhefta móttöku hælisleitenda og sparar ekkert í málflutningi á Alþingi fyrir þeirri stefnu. Kærunefnd útlendingamála ber fyrst og fremst ábyrgð á því ófremdarástandi sem upp er komið í fóttamannamálum á Íslandi. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir gagnvart stjórnvöldum. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi segja nefndinni fyrir verkum og stjórnvöld geta ekki kært niðurstöðu hennar til dómstóla. Þetta er valdamikil sjö manna nefnd. Rekstur hennar kostar 273 milljónir á ári. Ákvarðanir nefndarinnar í málefnum fólks frá Venesúela hafa kostað skattgreiðendur milljarða. Nefndin ákvað að allir þeir sem koma frá Venesúela fái fjögurra ára vernd og þar með sömu réttindi og Íslendingar í velferðarkerfinu. Þetta vita þeir sem kaupa sér flugfar til Íslands frá Venesúela.
Leggja ber niður kærunefnd útlendingamála
Áhrifaríkasta leiðin til að ná tökum á stjórnleysi í flóttamannamálum á Íslandi er að leggja niður kærunefnd útlendingamála og færa úrskurðarvaldið í málaflokknum aftur til dómsmálaráðuneytisins. Augljóst er að nefndin er ekki störfum sínum vaxin. Hún viðhefur allt aðra stefnu gagnvart fólki frá Venesúela en hinar Norðurlandaþjóðirnar og önnur ríki Evrópu. Noregur veitir engum frá Venesúela fjögurra ára vernd. Það sama gildir í Danmörku. Svíþjóð vísar meirihluta umsókna frá Venesúela frá. Spánn hafnaði rúmlega tíu þúsund umsóknum frá Venesúela á síðasta ári. Á Íslandi hafnar nefndin engum og þær fréttir bárust hratt til Venesúela. Kærunefndin hefur ákveðið að svona skuli þetta vera. Dómsmálaráðherra ræður engu um það. Alþingi ekki heldur, nema það leggi nefndina niður með lagabreytingu.
Útlendingastofnun hefur á undanförnum vikum hafnað umsóknum um hæli frá Venesúela. Þær bíða nú niðurstöðu kærunefndarinnar. Staðfesti nefndin niðurstöðuna mun straumurinn til landsins minnka verulega og staða þeirra sem fyrir eru í landinu breytast. Kærunefndin hefur tilkynnt að hún þurfi þrjá mánuði til að ákveða sig. Á meðan heldur straumurinn til landsins frá Venesúela áfram. Nefndin gæti stytt þennan tíma t.d. með því að lesa skýrslu norsku kærunefndarinnar um stöðu mála í Venesúela. Lesturinn tekur um 20 mínútur. Norðmenn sendu sendinefnd til Venesúela til að kynna sér aðstæður og niðurstaðan er skýr: ekki er að finna ástæður fyrir fjögurra ára vernd.
Kærunefndin skeytir engu um álag á sveitarfélögin
Íslendingar vilja hjálpa fólki í neyð og það höfum við sannarlega gert gagnvart fólki frá stríðshrjáðri Úkraínu. Við getum hins vegar ekki látið sjö manna nefnd á Skúlagötunni setja leigumarkaðinn, félagsþjónustuna og skólakerfið í stærstu byggðarlögunum á hvolf. Svo ekki sé talað um ofspennt heilbrigðiskerfi.
Ekki fær staðist að nefnd, sem ekki þiggur umboð sitt frá kjósendum, ákveði að Ísland skuli vera eina ríkið í Evrópu sem býður öllum íbúum frá Venesúela fjögurra ára dvalarleyfi, 28 milljón manna þjóð. Venesúela býr blessunarlega ekki við stríðsátök. Kærunefnd útlendingamála leggur augljóslega ekkert mat á áhrif ákvörðunar sinnar fyrir sveitarfélögin og á velferðarkerfið á Íslandi. Störfum nefndarinnar er því í ýmsum efnum alvarlega áfátt og blasir beinast við að leggja hana niður.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2023.