Rasistarnir í Sjálfstæðisflokknum

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Umræðan um útlendingamál verður sífellt háværari og það er jákvætt. Það er gott að öfgafullum minnihlutahópum hefur ekki tekist að kæfa niður umræðu um áskoranir í samfélaginu og gerð þess. Við viljum nefnilega halda áfram að búa í samfélagi þar sem öll mannréttindi, líka skoðana- og tjáningarfrelsi eru höfð í hávegum, ekki bara í orði heldur á borði.

Áskoranirnar í útlendingamálum verða sífellt flóknari, ekki bara hér á landi heldur víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Að vísu erum við, eins og svo oft áður, nokkrum árum og jafnvel áratugum á eftir nágrannalöndum okkar þegar kemur þessum málaflokki. Það er jákvætt því við getum þá lært af þeim, bæði um það sem vel hefur tekist og það sem betur hefði mátt fara. Enda er rík hefð fyrir því hérlendis að líta til reynslu og framkvæmdar á Norðurlöndunum í flestum málaflokkum og engin rök hníga til þess að undanskilja þennan.

Undanfarin ár hefur umsóknum um alþjóðlega vernd, hælisumsóknum, fjölgað verulega hérlendis og hælisveitingum sömuleiðis. Þróunin hefur verið langt umfram það sem gerist í nágrannalöndum okkar og þar þýðir ekki að skella skuldinni á stríðið í Úkraínu þótt við höfum sannarlega tekið á okkur byrðar. Önnur lönd standa okkur þó miklu framar hvað Úkraínu varðar og það af litlum efnum. Vert er að undirstrika að nágrannaríki stríðshrjáðs ríkis bera sérstaka skyldu til að taka við flóttafólki.

Hér á Íslandi eru langflestir sammála um að við leggjum okkar af mörkum til lausnar á vanda flóttafólks. Ísland er ríkt land í alþjóðlegum samanburði og vel í stakk búið til þess að láta gott af sér leiða. Þótt fámennið setji okkur skorður viljum við standa okkur vel við að taka á móti fólki sem flýr stríðsátök og ofsóknir. Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en í dag, eða yfir 100 milljónir manna, og þeim fer fjölgandi. Átta milljónir þeirra eru frá Úkraínu.

Þegar við hins vegar berum okkur saman við nágrannalönd okkar er ljóst að stefna okkar er frábrugðin. Krafan um gagnsætt og sanngjarnt kerfi og að aðstoð beinist þangað sem hennar er þörf er í fyrirrúmi hjá nágrönnum okkar. Sú afstaða byggist á lærdómi sem dreginn hefur verið af áratugalangri reynslu. Þótt við höfum verið hér sein til, höfum við undanfarið gert vissar umbætur í málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd til að auka jafnræði og gagnsæi. Við þurfum að halda áfram þeirri vegferð. Enda er kerfi, þar sem tafir eru á málsmeðferð og jafnvel felur fyrir stjórnvöldum verða að keppikefli, bæði gallað og ósanngjarnt, um það hljótum við öll að vera sammála.

Það er óásættanlegt að fólki sé skipt í tvo hópa í fyrir fram mótaðri umræðu um málefni fólks á flótta; þá sem fylgjandi eru móttöku flóttamanna eða andvígir. Ég tel að almenn sátt ríki um að Ísland skuli uppfylla skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna, taka vel á móti fólki á flótta undan raunverulegum ógnum; taka vel á móti sínum minnstu bræðrum og geri ekki minna en þeir sem best gera í þeim efnum.

Þeir sem uppnefna þá sem vilja betrumbæta útlendingalöggjöf okkar og færa hana nær því sem gerist hjá nágrannaþjóðunum, kalla þá jafnvel rasista, þeir mættu endurskoða afstöðu sína. Er ásættanlegt að fólk sem ekki á rétt á hæli Íslandi, dvelji hér langtímum saman á annarra kostnað? Er það réttlát og sanngjörn niðurstaða? Röksemdir óskast fyrir þeirri afstöðu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 2023