Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Tápmiklir unglingar eru nýkomnir til starfa í vinnuskólum sveitarfélaga, þar sem þeir sinna verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds. Vinnuframlag unglinganna er mikilvægt og vegur þungt í umhirðu viðkomandi sveitarfélaga. Það á ekki síst við um hverfi Reykjavíkur þar sem víða er þörf á að auka umhirðu.
Unglingavinnan er launuð og flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað tímakaupið í henni á milli ára í samræmi við launahækkanir á vinnumarkaði. Reykjavíkurborg sker sig hins vegar úr þar sem ekki stendur til að nein hækkun verði á tímalaunum Vinnuskóla Reykjavíkur frá fyrra ári (2022).
Með slíkri launafrystingu 13 – 16 ára eru kjör þessa aldurshóps skert verulega þar sem verðbólga mælist nú mikil, á meðan allir aðrir kjarahópar hjá Reykjavíkurborg fá umtalsverðar kjarabætur.
Svo virðist sem meirihluti borgarstjórnar telji sig þannig hafa fundið breiðu bökin, sem eiga að axla byrðarnar í baráttunni við verðbólguna.
Þegar unglingar mættu til starfa í Vinnuskólann, 9. júní sl., höfðu nemendur hans ekki enn fengið upplýsingar um kaup og kjör í sumar. Upplýst var í borgarráði viku síðar að launin í skólanum yrðu óbreytt á milli ára.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 20. júní 2023, að tímalaun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur hækki um 9% á milli ára eða í samræmi við launavísitölu
Slík launaleiðrétting í þágu unglinga í Vinnuskólanum er grundvallaratriði, sem myndi auk þess valda óverulegum útgjaldaauka fyrir borgarsjóð.
Um þrjú þúsund unglingar eru nú skráðir til starfa í Vinnuskólann. Áætlað er að laun þeirra nemi samtals 281 milljón króna miðað við óbreytt kaup á milli ára. Áætluð launaleiðrétting vegna verðbólgu ofan á þau laun er talin kosta tæpar þrjátíu milljónir króna til viðbótar.
Þrátt fyrir að launamál Vinnuskólans væru til umræðu á nefndum borgarstjórnarfundi, hafnaði meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar að taka tillöguna til afgreiðslu þar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu því leggja tillöguna fram að nýju á fundi borgarráðs í dag í von um að hún hljóti náð fyrir augum meirihlutans.
Launin lægst í Reykjavík
Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað vinnuskólalaun sín verulega á milli ára að Reykjavíkurborg undanskilinni, sem borgar nú langlægstu launin. Tímalaun vinnuskóla flestra nágrannaveitarfélaganna eru nú 12% hærri en í Reykjavík og í Mosfellsbæ eru þau um 17% hærri.
Vinnuskólinn er fyrsta reynsla þúsunda unglinga af vinnumarkaðnum. Með slíkri launafrystingu sendir meirihluti borgarstjórnar þessum unglingum slæm skilaboð og sýnir mikilvægu vinnuframlagi þeirra í þágu Reykjavíkurborgar, óvirðingu.
,,Hvorki boðlegt né sanngjarnt“
Ungmennaráð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fordæmdi umrædda launafrystingu í Vinnuskólanum með sérstakri yfirlýsingu í síðustu viku: ,,Launin hafa ekki hækkað frá því í fyrra þrátt fyrir gífurlega verðbólgu. Unglingar í vinnuskólanum hafa nú unnið í fjóra daga án þess að vita launin sín. Þetta er hvorki boðlegt né sanngjarnt. Ungmennin hafa hvorki verkfallsrétt né veikindarétt. Viljum við kenna þessu unga fólki, sem er nú að kynnast vinnumarkaðnum að þetta sé eðlilegt? Erum við að senda þeim réttu skilaboðin með því að segja þeim of seint frá laununum sínum, borga þeim of lítið og skerða réttindi þeirra,“ segir í yfirlýsingu ungmennaráðsins.
Flestir hljóta að geta fallist á reykvískir unglingar eiga betra skilið en þá framkomu, sem þeim hefur verið sýnd í þessu máli.
Þarna er tækifæri til bætingar hjá Reykjavíkurborg.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. júní 2023.