Meira fyrir minna í Kópavogi

Ásdís Kristjánssdóttir bæjarstjóri Kópavogs:

Reglu­lega heyr­ist ákall stjórn­mála­manna um að full­nýta skatt­stofna og seil­ast þannig dýpra í vasa skatt­greiðenda. Á mínu fyrsta ári í embætti hef ég þó aldrei heyrt bæj­ar­búa óska eft­ir því að greiða hærra út­svar og hvað þá hærri fast­eigna­gjöld. Ég hef frá fyrsta degi, og í raun fyr­ir kosn­ing­ar, talað fyr­ir því að stilla skatt­heimtu í hóf og mun halda áfram þeirri stefnu.

Það er auðvelt að missa sjón­ar á því sem skipt­ir máli ef áhersl­ur bein­ast ekki að þeim verk­efn­um sem mestu skipta fyr­ir bæj­ar­búa hverju sinni. Sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­um er treyst fyr­ir því að standa vörð um grunnþjón­ustu og tryggja um leið að innviðir séu til staðar fyr­ir íbúa. Þá skipt­ir höfuðmáli að halda fast utan um rekst­ur bæj­ar­ins og koma í veg fyr­ir að skuld­ir auk­ist, ekki síst í ljósi þess að fyr­ir­séð er að þjón­usta sveit­ar­fé­laga þyng­ist á kom­andi árum.

Skatta­lækk­an­ir og litl­ar skuld­ir

Rekst­ur Kópa­vogs­bæj­ar stend­ur á traust­um grunni, sér­stak­lega í sam­an­b­urði við önn­ur nær­liggj­andi sveit­ar­fé­lög. Þrátt fyr­ir erfitt efna­hags­um­hverfi hafa skuld­ir verið greidd­ar niður og skulda­hlut­fall er langt und­ir lög­bundnu lág­marki. Það er meðvituð ákvörðun okk­ar sem stýr­um rekstri bæj­ar­ins, enda leiða skuld­ir dags­ins í dag til skertr­ar þjón­ustu síðar meir.

Við lít­um ekki á skatt­stofna sveit­ar­fé­lags­ins sem vannýtta tekju­lind. Við vilj­um miklu frem­ur skapa rými til að skila ábata af góðum rekstri til bæj­ar­búa í formi skatta­lækk­ana. Þess­ar áhersl­ur end­ur­spegl­ast vel í verk­um okk­ar á fyrsta ári í embætti.

Á ár­inu 2023 lækkuðu fast­eigna­skatt­ar í Kópa­vogi um 400 millj­ón­ir króna og eru með þeim lægstu á landsvísu. Það eru skatta­lækk­an­ir sem all­ir bæj­ar­bú­ar njóta góðs af. Með þeirri ákvörðun erum við að svara ákalli Kópa­vogs­búa um lægri álög­ur fast­eigna­gjalda sem við fund­um svo sterkt fyr­ir í kosn­inga­bar­átt­unni fyr­ir um rúmu ári síðan. Í því end­ur­spegl­ast líka það sem ég tel rétt viðhorf, að bera eigi virðingu fyr­ir eign­um og fjár­magni ein­stak­linga og fyr­ir­tækja. Stjórn­völd eiga að hafa tak­markaðan rétt á því að seil­ast í þá vasa.

Þjón­usta í for­gang

Það er mik­il­vægt að nýta fé skatt­greiðenda á sem best­an máta með því að for­gangsraða verk­um og hagræða í rekstri. Þrátt fyr­ir niður­greiðslu skulda er á sama tíma verið að ráðast í um­fangs­mikl­ar fram­kvæmd­ir á innviðum, eins og leik- og grunn­skól­um, íþrótta­mann­virkj­um og viðhald fast­eigna í eigu bæj­ar­ins svo dæmi séu tek­in. Sam­hliða því setj­um við aukið fjár­magn í mennta- og vel­ferðar­mál til að tryggja góða þjón­ustu.

Ný­verið voru kynnt­ar breyt­ing­ar á starf­semi menn­ing­ar­hús­anna í Kópa­vogi, með það að mark­miði að efla menn­ing­ar­starfið í bæn­um og for­gangsraða fjár­mun­um með öðrum hætti. Reynt hef­ur verið að af­vega­leiða umræðuna um þær breyt­ing­ar og því rang­lega haldið fram að meiri­hlut­inn sé að boða niður­skurð í menn­ing­ar­starf­semi bæj­ar­ins. Einnig má nefna færslu Héraðsskjala­safns Kópa­vogs til Þjóðskjala­safns, sem spar­ar ekki aðeins bæn­um fjár­fest­ingu í nýju hús­næði fyr­ir um­tals­verðar upp­hæðir, held­ur verður aðgang­ur að safn­kost­in­um ekki síðri, eins og þjóðskjala­vörður hef­ur staðfest.

Það er og verður áfram for­gangs­mál okk­ar að setja þjón­ustu við bæj­ar­búa í for­gang og byggja upp öfl­ugt sam­fé­lag þar sem skött­um á bæj­ar­búa er stillt í hóf. Kann­an­ir sýna að Kópa­vogs­bú­ar eru ánægðir með þjón­ustu bæj­ar­ins og við ætl­um að tryggja að svo verði áfram und­ir okk­ar for­ystu. Kópa­vog­ur er sveit­ar­fé­lag í fremstu röð og verður áfram.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2023.