Ásdís Kristjánssdóttir bæjarstjóri Kópavogs:
Reglulega heyrist ákall stjórnmálamanna um að fullnýta skattstofna og seilast þannig dýpra í vasa skattgreiðenda. Á mínu fyrsta ári í embætti hef ég þó aldrei heyrt bæjarbúa óska eftir því að greiða hærra útsvar og hvað þá hærri fasteignagjöld. Ég hef frá fyrsta degi, og í raun fyrir kosningar, talað fyrir því að stilla skattheimtu í hóf og mun halda áfram þeirri stefnu.
Það er auðvelt að missa sjónar á því sem skiptir máli ef áherslur beinast ekki að þeim verkefnum sem mestu skipta fyrir bæjarbúa hverju sinni. Sveitarstjórnarfulltrúum er treyst fyrir því að standa vörð um grunnþjónustu og tryggja um leið að innviðir séu til staðar fyrir íbúa. Þá skiptir höfuðmáli að halda fast utan um rekstur bæjarins og koma í veg fyrir að skuldir aukist, ekki síst í ljósi þess að fyrirséð er að þjónusta sveitarfélaga þyngist á komandi árum.
Skattalækkanir og litlar skuldir
Rekstur Kópavogsbæjar stendur á traustum grunni, sérstaklega í samanburði við önnur nærliggjandi sveitarfélög. Þrátt fyrir erfitt efnahagsumhverfi hafa skuldir verið greiddar niður og skuldahlutfall er langt undir lögbundnu lágmarki. Það er meðvituð ákvörðun okkar sem stýrum rekstri bæjarins, enda leiða skuldir dagsins í dag til skertrar þjónustu síðar meir.
Við lítum ekki á skattstofna sveitarfélagsins sem vannýtta tekjulind. Við viljum miklu fremur skapa rými til að skila ábata af góðum rekstri til bæjarbúa í formi skattalækkana. Þessar áherslur endurspeglast vel í verkum okkar á fyrsta ári í embætti.
Á árinu 2023 lækkuðu fasteignaskattar í Kópavogi um 400 milljónir króna og eru með þeim lægstu á landsvísu. Það eru skattalækkanir sem allir bæjarbúar njóta góðs af. Með þeirri ákvörðun erum við að svara ákalli Kópavogsbúa um lægri álögur fasteignagjalda sem við fundum svo sterkt fyrir í kosningabaráttunni fyrir um rúmu ári síðan. Í því endurspeglast líka það sem ég tel rétt viðhorf, að bera eigi virðingu fyrir eignum og fjármagni einstaklinga og fyrirtækja. Stjórnvöld eiga að hafa takmarkaðan rétt á því að seilast í þá vasa.
Þjónusta í forgang
Það er mikilvægt að nýta fé skattgreiðenda á sem bestan máta með því að forgangsraða verkum og hagræða í rekstri. Þrátt fyrir niðurgreiðslu skulda er á sama tíma verið að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á innviðum, eins og leik- og grunnskólum, íþróttamannvirkjum og viðhald fasteigna í eigu bæjarins svo dæmi séu tekin. Samhliða því setjum við aukið fjármagn í mennta- og velferðarmál til að tryggja góða þjónustu.
Nýverið voru kynntar breytingar á starfsemi menningarhúsanna í Kópavogi, með það að markmiði að efla menningarstarfið í bænum og forgangsraða fjármunum með öðrum hætti. Reynt hefur verið að afvegaleiða umræðuna um þær breytingar og því ranglega haldið fram að meirihlutinn sé að boða niðurskurð í menningarstarfsemi bæjarins. Einnig má nefna færslu Héraðsskjalasafns Kópavogs til Þjóðskjalasafns, sem sparar ekki aðeins bænum fjárfestingu í nýju húsnæði fyrir umtalsverðar upphæðir, heldur verður aðgangur að safnkostinum ekki síðri, eins og þjóðskjalavörður hefur staðfest.
Það er og verður áfram forgangsmál okkar að setja þjónustu við bæjarbúa í forgang og byggja upp öflugt samfélag þar sem sköttum á bæjarbúa er stillt í hóf. Kannanir sýna að Kópavogsbúar eru ánægðir með þjónustu bæjarins og við ætlum að tryggja að svo verði áfram undir okkar forystu. Kópavogur er sveitarfélag í fremstu röð og verður áfram.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2023.