Ekki vísa þeim á dyr
'}}

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Ríki og sveit­ar­fé­lög gera ráð fyr­ir upp­bygg­ingu 35.000 íbúða hér­lend­is næstu tíu árin. Hlut­deild Reykja­vík­ur­borg­ar í upp­bygg­ingaráformun­um verði 36%, eða sem nem­ur 2.000 íbúðum ár­lega fyrstu fimm árin en 1.200 íbúðum ár­lega síðari fimm árin. Þessi metnaðarfullu mark­mið eru nauðsyn­leg, enda margra ára upp­söfnuð hús­næðisþörf í borg­inni sem er löngu tíma­bært að bregðast við. En munu áætlan­ir borg­ar­inn­ar ganga eft­ir?

Borg­in get­ur gripið til aðgerða

Á borg­ar­stjórn­ar­fundi síðastliðinn þriðju­dag sagði borg­ar­stjóri að Reykja­vík­ur­borg myndi ekki standa upp­bygg­ing­ar­hraða hús­næðis fyr­ir þrif­um – fyrst og fremst myndi hraðinn taka mið af aðgengi verk­taka að láns­fé hverju sinni. Varpaði hann þar ábyrgðinni al­farið yfir á lána­stofn­an­ir. Fjár­mögn­un hús­næðis­upp­bygg­ing­ar mun sann­ar­lega vera áhrifaþátt­ur næstu miss­er­in, en ekki má gera lítið úr ábyrgð borg­ar­inn­ar. Upp­bygg­ing­ar­hraði mun jafn­framt vera órjúf­an­lega samof­inn lóðafram­boði hverju sinni, sveigj­an­leika í upp­bygg­ing­ar­skil­mál­um og af­greiðslu­hraða inn­an stjórn­kerf­is­ins. Allt eru þetta þætt­ir sem borg­in hef­ur á sínu for­ræði – og þætt­ir þar sem tölu­vert svig­rúm er til fram­fara.

Hafna lausn­um í miðri krísu

Mik­il eft­ir­spurn er eft­ir hag­kvæmu hús­næði um land allt. Fáir aðilar fá hins veg­ar tæki­færi til að standa að upp­bygg­ingu hag­kvæms hús­næðis, og tak­markaður hóp­ur á rétt til bú­setu í slíku hús­næði.

Það skaut því skökku við á dög­un­um þegar stórt verk­taka­fyr­ir­tæki óskaði eft­ir lóð hjá Reykja­vík­ur­borg til að reisa níu hundruð hag­kvæm­ar íbúðir. Hönn­un og und­ir­bún­ingi íbúðanna væri þegar lokið – ein­göngu þyrfti lóðir svo hefja mætti upp­bygg­ing­una. Reykja­vík­ur­borg hafnaði beiðninni með þeim rök­um að lóðum væri al­mennt út­hlutað í útboðum. Sam­hliða var full­yrt að nægt lóðafram­boð væri í Reykja­vík.

Vart er hægt að taka und­ir þá full­yrðingu að nægt sé lóðafram­boðið, enda hvergi aðgengi­leg­ar upp­lýs­ing­ar um útboð á lóðum um þess­ar mund­ir. Jafn­framt hef­ur borg­in ít­rekað út­hlutað lóðum og bygg­ing­ar­heim­ild­um án útboðs á und­an­förn­um árum. Það virðist hægt að sveigja regl­urn­ar fyr­ir vild­ar­vini, en ekki stönd­uga aðila sem sýna vilja og bol­magn til að svara eft­ir­spurn á hús­næðismarkaði – í miðri hús­næðiskrísu.

Virkj­um kraft þeirra fram­taks­sömu!

Hús­næðismál­in eru ein stærsta áskor­un sem við mun­um standa frammi fyr­ir næsta ára­tug­inn. Svo mæta megi upp­safnaðri hús­næðisþörf, og fyr­ir­séðri þörf til framtíðar, verður nauðsyn­legt að bregðast við af krafti með áþreif­an­leg­um aðgerðum.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur ít­rekað bent á spenn­andi tæki­færi til hús­næðis­upp­bygg­ing­ar á eft­ir­sótt­um svæðum í borg­inni. Mætti þar nefna Örfiris­ey, Kjal­ar­nes, Staðar­hverfi í Grafar­vogi og Úlfarsár­dal. Við höf­um líka nefnt mik­il­vægi þess að tryggja sveigj­an­legri skipu­lags­skil­mála, hraðari málsmeðferð og lipr­ari stjórn­sýslu. Jafn­framt mætti huga að lægri álög­um, sem skipt geta sköp­um nú þegar bygg­ing­ar­kostnaður fer sí­fellt hækk­andi. En ekki síst verður nauðsyn­legt að virkja kraft þeirra fram­taks­sömu – sem bjóða sam­vinnu um eft­ir­sótt­ar lausn­ir á hús­næðismarkaði – ekki vísa þeim á dyr.

Árang­ur í sam­starfi við einkafram­tak

Metnaðarfull­um mark­miðum í hús­næðismál­um verður ekki náð nema til komi raun­hæf­ar aðgerðir. Mæta þarf hús­næðisþörf­inni með kröft­ugri fram­fylgd hús­næðisáætl­ana sam­hliða skipu­lagi nýrra svæða, í öfl­ugu sam­starfi við einkafram­tak. Tryggja þarf sveigj­an­legri skipu­lags­skil­mála, sta­f­ræn­ar lausn­ir, lip­urri stjórn­sýslu og lægri álög­ur fyr­ir bygg­ing­ariðnað í Reykja­vík. Ein­ung­is þannig náum við raun­veru­leg­um ár­angri.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2023.