Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Breikkun Vesturlandsvegar, frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum, er einhver mikilvægasta umferðaröryggisframkvæmd á Íslandi um langt skeið. Fjölmörg alvarleg slys hafa orðið á umræddum vegkafla en breikkun hans og aðskilnaður akreina mun stórauka umferðaröryggi og fækka slysum. Fyrri áfanga verksins lýkur í sumar (2023). Mikilvægt er að framkvæmdir við seinni áfanga hefjist sem fyrst.
Heildarverkefnið snýst um að breikka veginn og aðskilja þannig akreinar á níu kílómetra kafla. Á hluta leiðarinnar verður vegarkaflinn tvöfaldaður en annars breytt í 2+1 veg. Um 30 vegamót, tengingar og þveranir voru á leiðinni en þeim verður fækkað mjög og þrjú hringtorg lögð í staðinn. Undirgöng verða á fimm stöðum í þágu gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarenda.
Verkinu hefur seinkað nokkuð en samkvæmt aðgerðaáætlun samgöngumála 2019-2023 átti að ljúka því öllu á árinu 2023. Fyrri áfanga lýkur í sumar en hann nær frá Kollafirði að Grundarhverfi. Enn ríkir óvissa um hvenær hafist verður handa við síðari áfangann, þ.e. frá Grundarhverfi að Hvalfjarðargöngum.
Hættulegur vegkafli
Breikkun vegkaflans er eitt brýnasta samgönguverkefni landsins enda ljóst að hún mun fækka alvarlegum slysum verulega. Aðskilnaður akstursstefna og fækkun vegtenginga vega þar þyngst.
Fimm manns létust í fjórum banaslysum á umræddum vegkafla á tímabilinu 2012-2022. Jafnframt urðu þar sjö slys með samtals sautján alvarlega slösuðum. Þá urðu 37 slys til viðbótar með meiðslum, áverkum og áföllum.
Svo mörg slys og alvarleg slys á þessum vegkafla eru algerlega óviðunandi. Eðlilegt er að borgarstjórn hafi skoðun á málinu og knýi á um að löngu tímabærum umferðaröryggisaðgerðum á vegkaflanum verði ekki frestað frekar.
Áhugalítill meirihluti
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að borgarstjórn Reykjavíkur skori á Alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að framkvæmdir við síðari áfanga verksins verði boðnar út sem fyrst til að koma málinu í höfn. Tillaga um það var á dagskrá borgarstjórnarfundar 16. maí 2023 en þá ákvað meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar einhliða að taka málið af dagskrá án umræðu. Undirritaður flutti tillöguna loks á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 6. júní en meirihlutinn vísaði málinu frá, nánast umræðulaust, með þeim rökstuðningi að það væri utan verksviðs borgarstjórnar.
Slíkt tómlæti meirihlutans gagnvart afar brýnu umferðaröryggismáli í Reykjavík er með ólíkindum. Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað innan borgarkerfisins varðandi skipulagsþátt málsins þar sem samræma hefur þurft mörg sjónarmið með umferðaröryggi að leiðarljósi. Eftir alla þá vinnu virðist meirihlutinn vera áhugalaus um þessa brýnu framkvæmd. Að minnsta kosti vill hann ekki knýja á um að henni verði lokið sem fyrst.
Skýr afstaða Kjalnesinga
Íbúaráð Kjalarness hefur ítrekað látið málið til sín taka og hvatt til þess að seinni áfangi verksins verði boðinn út sem fyrst. ,,Um er að ræða gríðarlegt hagsmuna- og öryggismál fyrir íbúa Kjalarness og alla þá sem nýta Vesturlandsveg,“ segir í ályktun ráðsins frá 19. apríl 2023.
Flestar sveitarstjórnir líta á það sem hlutverk sitt að knýja á um brýnar samgönguframkvæmdir við ríkið. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík virðist hins vegar frekar vilja letja en hvetja til slíkra framkvæmda. Það er von mín að fjárveitingarvaldið láti slíkt áhugaleysi ekki hafa áhrif á sig og sjái til þess að síðari áfangi breikkunar Vesturlandsvegar verði boðinn út sem fyrst.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2023.