Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Að öðru óbreyttu verða alþingiskosningar eftir rúmlega tvö ár. Sitjandi ríkisstjórn er tæplega hálfnuð með kjörtímabilið. En þótt langt sé í kosningar eru hægt og bítandi að teiknast upp með ágætlega skýrum hætti þeir valkostir sem kjósendur standa frammi fyrir í kjörklefanum. Valkostirnir eru kjósendum gamalkunnir þótt sumar umbúðirnar hefi breyst í áranna rás.
Samfylkingin hefur í sumu dregið réttan lærdóm af reynslunni. Draumurinn um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið læstur ofan í skúffu og safnar þar ryki með „nýju stjórnarskránni“. En Samfylkingar – sem nú vilja helst kalla sig sósíaldemókrata – eru hins vegar við sama heygarðshornið í skattamálum og umsvifum ríkisins. Greining Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag fangaði stefnu Samfylkingarinnar vel: „Þetta er bara gamla Samfylkingin, meiri skattar og stærra ríki.“
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar var skýr í skilaboðum sínum, jafnt þegar hún tókst á við aðra flokksformenn (og aðallega Bjarna Benediktsson) í Silfri Egils og í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið um liðna helgi. „Það þarf að endurskoða hvernig við fjármögnum velferðarkerfið. Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, fjármögnun sem fer í uppbyggingu á húsnæði og stuðning við opinber húsnæðisúrræði. Þetta eru kostnaðarsöm úrræði,“ sagði Kristrún við Morgunblaðið sem er sannfærð um að vandi ríkissjóðs sé fyrst og síðast tekjuvandi: „Það hafa ekki orðið almennilegar breytingar á fjármálahliðinni í langan tíma. Ég hræðist engan veginn umræðu um fjármögnun, sem þarf að vera sanngjörn og réttlát.“
Sem sagt: Komist Samfylkingin til valda eftir næstu kosningar verða skattar hækkaðir og útgjöld ríkisins aukin stórkostlega. Það er því miður rótgróin sannfæring meðal vinstri flokka og raunar miðjuflokka einnig, að tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga séu vannýttir ef skattar og gjöld eru ekki í hæstu hæðum. Að hið opinbera sé að „afsala“ sér tekjum með því að þyngja ekki álögur á heimili og fyrirtæki.
Gegn hugmyndafræði ríkishyggjunnar
Gegn þessari hugmyndafræði stendur Sjálfstæðisflokkurinn og er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur pólitíska burði til að koma í veg fyrir að draumar vinstri ríkishyggjunnar rætist. Í Morgunblaðsviðtalinu benti Kristrún réttilega á að við „erum búin að vera með sama fjármálaráðherra í yfir áratug, og það hefur haft mikil áhrif á samfélagið“. (Það voru tíu ár í gær, þriðjudag frá því að Bjarni tók við lyklunum að fjármálaráðuneytinu).
Undir forystu Bjarna Benediktssonar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum frá 2013 en hefur þurft að gera málamiðlanir í þremur samsteypustjórnum. Verkin tala sínu máli.
Strax og Bjarni tók við fjármálaráðuneytinu varð algjör stefnubreyting. Hafist var handa við að vinda ofan af verkum vinstri stjórnar sem hafði setið í ríflega fjögur ár. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru afnumdar skerðingar á grunnlífeyri ellilífeyrisþega, sem vinstri stjórnin hafði komið á. Og meðal fyrstu verka var undirbúningur að losun hafta og uppgjör á slitabúum gjaldþrota banka. Nánast ekkert hafði verið gert í þeim efnum enda forysta vinstri stjórnarinnar sannfærð um að ekki væri hægt að losa Ísland úr gjaldeyrishöftum nema ganga inn í Evrópusambandið. Með festu knúðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, og Bjarni fram samninga við þrotabú föllnu bankanna um stöðugleikaframlög til ríkissjóðs sem metin voru á um 660 milljarða króna. Og fjötrar hafta voru brotnir niður. Ekki í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið slíkt verkefni að sér.
Skattar lækkaðir
Tekjuskattar og þá fyrst og síðast þeirra sem hafa lægstu launin hafa lækkað í tíð Bjarna í fjármálaráðuneytinu. Tekjuskattur einstaklinga lækkaði á árunum 2014 til 2018 um 25 milljarða á ársgrundvelli með tilheyrandi hækkun ráðstöfunartekna heimilanna. Róttækar kerfisbreytingar í tíð sitjandi ríkisstjórnar hafa tryggt frekari lækkun með innleiðingu nýs lægra skattþreps. Þessi lækkun hefur fyrst og síðast komið þeim best sem eru í lægstu tekjuhópunum en fólk með meðaltekjur hefur einnig notið góðs af.
Undir forystu Bjarna rættist gamall draumur okkar Sjálfstæðismanna. Almennum vörugjöldum var hent út í hafsauga og á árunum 2016 og 2017 voru tekin stór skref með því að afnema tolla á flestar vörur utan landbúnaðarvara. Árið 2013 var tryggingagjaldið 7,69%. Það er nú 6,35% – hefur lækkað um 1,34 prósentustig eða um liðlega 17%.
Með skattalegum aðgerðum hefur verið stutt myndarlega við rannsóknir og nýsköpun. Endurgreiðsla vegna rannsókna og þróunar er fjárfesting í framtíðinni – fjárfesting í tækifærum og störfum. Stefnan hefur svo sannarlega borið ávöxt og þannig hefur verið lagður grunnur að fjölbreyttara atvinnulífi.
Áralangt ranglæti vegna skattlagningar söluhagnaðar frístundahúsa með tilheyrandi skerðingum á réttindum almannatrygginga, hefur verið leiðrétt. Söluhagnaður frístundahúsnæðis sem verið hefur í eigu viðkomandi í sjö ár eða lengur er ekki lengur skattlagður og viðkomandi sætir ekki skerðingum á réttindum almannatrygginga. Þessi breyting kom ekki síst eldri borgurum til góða. Annað réttlætismál var hækkun skattfrelsismarka erfðafjárskatts.
Til viðbótar kemur skattfrjáls ráðstöfun séreignasparnaðar vegna íbúðakaupa. Þetta hefur skipt sköpun fyrir margt ungt fólk. Auðlegðarskattur vinstri stjórnarinnar, sem lagðist ekki síst á eldra fólk, féll niður og hætt var að leggja sérstakan orkuskatt á rafmagn.
Allar þessar aðgerðir og fleiri til hafa lagt grunninn að aukinni velsæld almennings á síðustu tíu árum. Hægt og bítandi hefur verið unnið að því að draga ríkið út úr rekstri fjármálafyrirtækja. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið hækkuð um 75% að raunvirði. Framlög til málefna öryrkja og aldraðra hafa tæplega tvöfaldast.
Ólíkt Kristrúnu vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja að heimilin og fyrirtækin fái aukinn hlut í hagvaxtarauka í framtíðinni. Þrátt fyrir lækkun skatta hafa tekjur ríkissjóðs vaxið gríðarlega á síðustu árum og útgjöldin einnig. Ríkið glímir ekki við tekjuvanda heldur útgjaldavanda sem horfast þarf í augu við.
Súpa hveljur
Kaupmáttur launa er 45% hærri en 2013. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa hækkað um ríflega þriðjung að raunvirði. Erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað á ævintýralegan hátt. Í lok fyrsta ársfjórðungs 2013 var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 22,6% af vergri landsframleiðslu. Í lok síðasta árs hafði staðan gjörbreyst. Jákvæð um 24,2% af landsframleiðslunni. Þrátt fyrir Covid og umfangsmiklar efnahagsaðgerðir ríkissjóðs til að styðja við heimili og fyrirtæki á erfiðum tímum, hafa skuldir ríkisins á hvern íbúa lækkað um 25,6% að raunvirði frá 2013.
Ég geri mér grein fyrir því að margir vinstri menn súpa hveljur þegar þeir átta sig á þeim skattalækkunum sem Bjarni Benediktsson hefur beitt sér fyrir. Þeir sjá hvert tekjutækifærið á fætur öðru renna úr greipum ríkissjóðs! En þeir geta sótt örlitla huggun í tvennt. Ýmsir skattar hafa sannarlega verið hækkaðir. Þannig hefur kolefnisgjaldið hækkað hressilega. Og af því hef ég áhyggjur enda eru vísbendingar um að grænir skattar leggist hlutfallslega þyngra á tekjulága hópa en tekjuháa. Hækkun fjármagnstekjuskatts var einnig erfið en á móti kom veruleg hækkun á frítekjumarki sem tryggði að skattbyrði almennt þyngdist ekki. En í heild hafa skattar og gjöld heimilanna lækkað um tugi milljarða á ári á síðustu tíu árum.
Öllu þessu ætlar formaður Samfylkingarinnar að kollvarpa. Hverfa af þeirri braut að gæta hófsemi í opinberum álögum og taka fremur Reykjavíkurborg sér til fyrirmyndar.
Valkostirnir eru og hafa alltaf verið skýrir. Nýr formaður Samfylkingarinnar ætlar ekki að breyta þeim. Enn líta vinstri menn á fyrirtæki og heimili sem tekjuhlaðborð hins opinbera. Stóraukin ríkisútgjöld eða aukin framleiðni og hagkvæmni í opinberum rekstri; hærri skattar eða lægri; lakari samkeppnishæfni eða betri; samdráttur eða aukin verðmætasköpun; aukin ríkisumsvif eða nýsköpun og einkarekstur. Um þetta snúast stjórnmálin á komandi árum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2023.