Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata var ekki að skafa utan af því í þingsal þegar vantrauststillaga fjögurra stjórnarandstöðuflokka á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var rædd á Alþingi 30. mars síðastliðinn. Hún hóf mál sitt með því að rökstyðja tillöguna: „Dómsmálaráðherra Íslands, Jón Gunnarsson, braut gegn þingskapalögum þegar hann bannaði Útlendingastofnun að afhenda þinginu þau gögn sem þingið óskaði eftir á grundvelli 51. gr. þingskapalaga. Með þessu athæfi sínu braut ráðherrann gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi. Hann braut gegn upplýsingarétti Alþingis Íslendinga. Það er grafalvarlegt brot gegn þinginu, brot sem þingið má ekki láta yfir sig ganga eins og ekkert hafi gerst.“
Ásakanir á hendur dómsmálaráðherra eiga rætur í ákvörðun hans um að breyta verklagi Útlendingastofnunar vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt árið 2021. Meginreglan er sú að Útlendingastofnun afgreiðir umsóknir um ríkisborgararétt en auk þess veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum. Áður en Alþingi tekur afstöðu til umsóknar skal Útlendingastofnun fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda, auk þess sem stofnunin sjálf skal gefa umsögn til þingsins. Umsóknir sem Alþingi hafði til meðferðar voru í forgangi hjá Útlendingastofnun – þ.e. þær voru teknar fram fyrir (jafnvel eldri umsóknir hjá stofnuninni). Á síðustu árum hefur umsóknum um ríkisborgararétt fjölgað gríðarlega og málsmeðferðartími lengst úr hófi. Umboðsmaður Alþingis gerði sérstaka athugasemd við hversu langan tíma það tæki að afgreiða umsóknir. Með hliðsjón af þessu ákvað ráðherra að umsóknir skyldu afgreiddar í tímaröð, óháð því hvort viðkomandi umsókn lægi hjá Útlendingastofnun sjálfri eða hjá Alþingi. Jafnræðis umsækjenda skuli gætt. Aldrei, ólíkt því sem sumir stjórnarandstæðingar hafa haldið fram, neitaði dómsmálaráðherra Alþingi um gögn vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt. Og aldrei skipaði hann Útlendingastofnun að neita Alþingi um upplýsingar og gögn.
51. gr. þingskapalaga
Eðli máls samkvæmt er réttur Alþingis til að afla gagna og upplýsinga ríkur. Í 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga segir að ef „að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum, þ.m.t. sjálfstæðum stjórnvöldum, eða að teknar verði saman upplýsingar út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarmanna þess efnis eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar“.
Á grundvelli þessa ákvæðis ákvað allsherjar- og menntamálanefnd að óska eftir umsögnum frá Útlendingastofnun vegna þeirra umsókna sem lágu fyrir nefndinni. Í minnisblaði skrifstofu Alþingis er komist að þeirri niðurstöðu að nefndin geti nýtt sér ákvæði umræddrar greinar til að fara fram á að gögn séu afhent. Hvergi er því hins vegar haldið fram að ráðherra hafi brotið lög.
Í liðinni viku var birt álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands um upplýsingarétt þingnefnda samkvæmt 51. gr. laga um þingsköp Alþingis og umsagnir stjórnvalda samkvæmt 6. gr. laga um ríkisborgararétt. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að Alþingi sé ekki rétt að beita umræddri grein þingskaparlaga þegar óskað er „eftir umsögnum stjórnvalda í tilefni af umsóknum um veitingu ríkisborgararéttar“. Í réttinum til að fara fram á að upplýsingar verði „teknar saman“ felist ekki „að stjórnvald skuli afla upplýsinga og leggja mat á þær í formi umsagna“.
Í nokkru hefur verið skondið að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstæðinga við álitsgerðinni. Hún er sögð smjörklípa og allt í einu snýst málið ekki um lögbrot heldur stjórnskipunarvenju, sem ráðherra geti ekki ákveðið að breyta einhliða.
Í taumi Pírata
Líkt og skýrt kom fram í upphaforðum Þórhildar Sunnu, sem var fyrsti flutningsmaður vantrauststillögunnar á Jón Gunnarsson var ástæðan meint brot hans á 51. gr. þingskapalaga. Og svo því sé haldið til haga þá hefur Þórhildur Sunna aldrei farið leynt með að hún hafi horn í síðu dómsmálaráðherra. Í stuttri grein á visir.is, 27. mars, skrifaði hún meðal annars: „Dómsmálaráðherra Íslands, maðurinn sem ber ábyrgð á málefnum lögreglu, dómstóla og sýslumanna og réttvísinni á Íslandi svona almennt og yfirleitt, hefur endurtekið verið staðinn að lygum. Hann lýgur að þinginu. Hann lýgur að fjölmiðlum. Hann lýgur að almenningi.“
Fjórir flokkar stjórnarandstöðunnar stóðu að baki tillögunni; Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins og Samfylkingin. Í umræðunni féllu stór orð sem sum hafa ekki elst sérlega vel.
„Dómsmálaráðherra braut lög sem ætlað er að tryggja að þingið ráði ferð í störfum sínum, braut lög sem ætlað er að tryggja að framkvæmdarvaldið ráði ekki för löggjafarvaldsins“, sagði Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar í umræðunni. Sigmar Guðmundsson, flokksbróðir Hönnu Katrínar, sakaði Jón Gunnarsson um lögbrot í samtali við mbl.is 29. mars. Hann sagðist ekki sjá „hvernig ráðherra getur setið áfram“. Í umræðum um vantraustið sagði hann meðal annars: „Menn eru á hröðum flótta undan grundvallaratriðum málsins. Þessa hugsun, sem ráðherrar eru væntanlega að ramma inn með atkvæði sínu í dag, má kjarna í fleygum orðum: Ég á þetta, ég má þetta. Mér finnst þetta, ég ætla að gera þetta. Ég ætla ekki að virða lög sem tryggja rétt þingsins til upplýsinga.“
Björn Leví Gunnarsson Pírati tók til máls um atkvæðagreiðsluna: „Umræðan hérna snýst dálítið um það, eins og hún er búin að vera, að við segjum: Það er sýnt fram á að ráðherra hafi brotið lög.“ Píratinn Andrés Ingi Jónsson sagði: „Við erum að ræða grundvallaratriði þar sem skjöl frá Útlendingastofnun koma jú við sögu, en grundvallaratriðið er það að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra beitti sér gegn afhendingu gagna til Alþingis. Hann fékk stofnunina með sér í það lið og gerði hana samseka í brotum á 51. gr. þingskapalaga.“
Sá er þetta skrifar tók þátt í umræðum um vantraustið og sagði það hafa „komið aðeins illa við mig að skynja það hversu persónuleg andúð á pólitískum andstæðingum er farin að vera ríkjandi þáttur í þessum þingsal á undanförnum mánuðum“. En ég hafi fengið enn eina staðfestinguna á því „að Píratar marka stefnuna hjá stjórnarandstöðunni, taka forystu í upphlaupsmálum. Flokkur fólksins, Viðreisn og Samfylkingin fylgja á eftir og eiga í fullu fangi með að halda í við Pírata.“ Þessi orð komu illa við nokkra stjórnarandstæðinga sem gerðu háreysti í þingsalnum. „Ég heyri það, að þetta kemur illa við suma hér. Ég heyri það. En hvort uppskeran verður eins og til er sáð fyrir þessa þrjá flokka sem fylgja Pírötum og leiðbeiningum þeirra og forystu verður þannig að það skili árangri á kjördegi á eftir að koma í ljós. Ég ætla að efast um það.“
Réttur þingmanna til að leggja fram vantraust á einstaka ráðherra eða ríkisstjórn í heild sinni er ótvíræður. Þennan rétt nýttu fjórir stjórnarandstöðuflokkar undir forystu Pírata. Vonin um að vinna pólitísk strandhögg rættust ekki. Eftir standa stóryrðin líkt og minnisvarði um upphlaup sem engu skilaði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2023.