Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Staða fólks með vímuefnavanda hefur verið rædd á Alþingi undanfarna daga enda höfum við þingmenn ekki farið varhluta af háværri umræðu og ákalli vegna bágrar stöðu þessa hóps. Heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir því að við tökum á vímuefnavandanum innan heilbrigðiskerfisins og tekið fjölmörg jákvæð skref þegar kemur að skaðaminnkandi úrræðum. Við þurfum samt að gera miklu, miklu betur.
Umræðan undanfarið hefur ekki síst varðað það neyðarástand sem ríkir vegna ópíóíðafaraldurs hérlendis. Tugir einstaklinga hafa þegar látið lífið á þessu ári vegna ofskömmtunar. Þróunin er ógnvænleg og flest fórnarlömbin eru ungt fólk. Þessi staða er þyngri en tárum taki.
Því miður fær fólk með vímuefnavanda ekki enn sama stuðning og þjónustu í félags- og heilbrigðiskerfinu og annað langveikt fólk. Sjúklingarnir koma alls staðar að lokuðum dyrum og raunin er því sú að fólk með lífshættulegan sjúkdóm, oft og tíðum ungt fólk, lætur lífið, á biðlistum sem virðast engan endi taka.
SÁÁ – Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, gegna lykilhlutverki í baráttunni við fíknisjúkdóma. Starfsemi samtakanna er að miklu leyti fjármögnuð með frjálsum framlögum og sjálfboðaliðastarfi á vegum þeirra. Sem dæmi má nefna að meðferðir sjúklinga með ópíóíðafíkn eru aðeins fjármagnaðar að litlu leyti af hinu opinbera, en sjúklingum með ópíóíðafíkn hefur fjölgað mikið - mest hjá yngsta hópnum.
Mikilvægur þáttur í fjáröflun SÁÁ er salan á SÁÁ-álfinum sem landsmenn eru fyrir löngu farnir að kannast við. Salan er nú hafin á fjölförnum stöðum um allt land og fer hún fram út 14. maí.
Við vitum að besta leiðin til að draga úr vímuefnavandanum er að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði. Hið góða starf SÁÁ er lífsbjörg fjölmargra sem glíma við fíknisjúkdóm. Ég hvet því alla til að leggja samtökunum lið með því að kaupa álfinn!
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. maí 2023