Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Í lok árs 2021 átti ríkið alfarið eða ráðandi hlut í 40 félögum, auk minni hluta í ýmsum félögum. Heildareignir þessara 40 félaga námu 4.074 milljörðum króna og eigið fé 951 milljarði. Yfir fimm þúsund starfsmenn eru innan veggja ríkisfélaganna. Flest ríkisfélögin eru hlutafélög, opinber hlutafélög og einkahlutafélög.
Í ársskýrslu ríkisfyrirtækja 2021, sem birt var í september síðastliðnum, kemur fram að í heild námu heildartekjur ríkisfélaganna 304 milljörðum króna. Samanlagður hagnaður var rúmlega 76 milljarðar. Ríkissjóður fékk 15 milljarða í arð frá ríkisfélögunum.
Í ársskýrslunni eru sjö af 40 ríkisfyrirtækjum talin vera á samkeppnismarkaði og níu að hluta, eins og kemur fram á meðfylgjandi töflu. En sum fyrirtæki sem eru ekki talin vera á samkeppnismarkaði eru það ekki vegna þess að ekki sé hægt að koma við samkeppni, heldur vegna þess að ríkisvaldið – löggjafinn – hefur tekið ákvörðun um að banna samkeppni. Þetta á t.d. við um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Afnám einkasölu ríkisins á smásölu áfengis myndi án nokkurs vafa leiða til mikillar samkeppni. Löggjafinn einn stendur í vegi fyrir henni.
Forsendur breytast
Í ársskýrslunni segir að forsendur fyrir eignarhaldi ríkisins á einstökum félögum geti verið mjög ólíkar, „auk þess sem rök fyrir eignarhaldinu geta breyst með tímanum“. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að rökin að baki eignarhaldi ríkisins séu endurmetin reglulega. Aðstæður breytast, tækni fleygir fram, neysluvenjur breytast sem og samkeppnisumhverfi. Spyrja þarf hvað réttlæti það að binda sameiginlega fjármuni landsmanna í ákveðnum rekstri og hvort einkaaðilar geti ekki sinnt honum með betri og hagkvæmari hætti. Vega það og meta hvort hagsmunum almennings sé betur komið með því að umbreyta eignum ríkisfyrirtækja í samfélagslega innviði eða niðurgreiðslu skulda. Ekki skiptir minna máli að huga að þeim áhrifum sem ríkisreksturinn hefur á samkeppnisumhverfi og möguleika frumkvöðla til að hasla sér völl á markaði með nýja tækni og þjónustu!
Einu sinni þótti það eðlilegt að ríkið væri í skipaútgerð og bókaútgáfu. Fáum dettur það í hug í dag, ekki frekar en að ríkið stundi áhættusama síldarútgerð eða áburðarframleiðslu (þeir eru þó til sem láta sig dreyma um slíkan ríkisrekstur). Endurskoðun á slíkum ríkisrekstri var ekki án átaka og endurskoðun á umfangi og tilgangi einstakra ríkisfélaga á komandi árum verður það ekki heldur.
Auðvitað á meginreglan, þegar forsendur ríkisrekstrar eru endurskoðaðar, að vera sú að ríkið dragi sig út af samkeppnismarkaði. Þetta á til dæmis við um fjölmiðla, fjármálastarfsemi og leigumarkað. Telji löggjafinn nauðsynlegt að tryggja að ákveðnum verkefnum sé sinnt, s.s. menningarlegu hlutverki, er hægt að gera það með því að virkja krafta sjálfstætt starfandi fyrirtækja og einstaklinga. Heilbrigði á leigumarkaði verður ekki náð með ríkisrekstri leigufélags heldur með því að tryggja einfalt regluverk, nægt framboð af byggingarlóðum og skýra löggjöf um réttindi og skyldur leigjenda og leigusala.
Ný tækni og breyttar neysluvenjur
En það er hægt að ganga lengra í að losa um eignir sem bundnar eru í ríkisrekstri – nýta þær betur í þágu almennings. Ríkið á að huga að því hvort, og þá með hvaða hætti, hægt sé að búa til jarðveg fyrir samkeppni á sviðum þar sem engin samkeppni er. Þetta á við um smásölu áfengis.
Tækni og breyttar neysluvenjur hafa hægt og bítandi grafið undan forsendum Íslandspósts sem sinnir alþjónustu á póstmarkaði, auk þess að vera í samkeppni við einkaaðila á sviði flutninga- og hraðsendingaþjónustu. Íslandspóstur er gott dæmi um hve nauðsynlegt það er að umbreyta ríkisfyrirtæki. Í fyrsta lagi verður að draga fyrirtækið að fullu út af samkeppnismarkaði og í öðru lagi skylda fyrirtækið til að bjóða út þjónustu. Með því yrði byggt undir fjölda frumkvöðla og fyrirtækja úti um allt land á sviði flutninga- og póstþjónustu – ekki ósvipað og gert var þegar Vegagerðin hóf að bjóða út vegagerð og þjónustu.
Ársskýrsla ríkisfyrirtækja dregur upp ágæta mynd af þeim ríkisfélögum sem heyra undir efnahags- og fjármálaráðherra. En á vegum ríkisins eru ýmsar aðrar umsvifamiklar stofnanir sem leika æ stærra hlutverk í íslensku efnahagslífi. Sumar stofnanirnar eru að hluta á samkeppnismarkaði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Byggðastofnun og Menntasjóður námsmanna eru dæmi. Endurskoðun á hlutverki og rekstri þessara stofnana er nauðsynleg.
Ohf-væðing mistök
Ég hef lengi verið sannfærður um að ohf-væðing ríkisfyrirtækja hafi verið tilraun sem mistókst. Ég hef líkt ohf-væðingunni við eitur sem seytlar um æðar atvinnulífsins. Samkeppnisumhverfið hefur orðið óheilbrigðara en ella. Opinberu hlutafélögin hafa gert hugmyndir um hlutverk ríkisins þokukenndari og markmiðin, skyldurnar og verkefnin óskýrari. Auðvitað hefur fleira haft þar áhrif, en opinberu hlutafélögin hafa nýtt sér félagaformið – umgjörðin hefur gert þau líkari lokuðum einkafyrirtækjum en hefðbundnum ríkisfyrirtækjum. Í skjóli eignarhalds er sótt inn á samkeppnismarkaði og lagt til atlögu við einkafyrirtæki – lítil og stór.
Vonir um að gagnsæi í ríkisrekstrinum myndi aukast með því að færa fyrirtæki í búning opinbers hlutafélags hafa orðið að engu. Það tók Ríkisendurskoðun mörg ár að fá stjórnendur Ríkisútvarpsins ohf. til að fara eftir ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. Opinbera hlutafélagið Isavia þverskallaðist við að fara eftir fyrirmælum Úrskurðarnefndar upplýsingamála og afhenda gögn vegna samkeppni um leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Dæmin eru fleiri.
Um leið og við horfum með gagnrýnum hætti á rekstur ríkisfélaga verðum við einnig að vinda ofan af ohf-væðingunni, óháð því hvort tekin er ákvörðun um hvort viðkomandi rekstur verði áfram í höndum ríkisins eða ekki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2023.