Við höldum áfram leitinni
'}}

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Ég er oft spurður af ungu fólki sem þyrst­ir í upp­lýs­ing­ar um hug­mynda­fræði frels­is hvar þeirra sé helst að leita. Við sem höf­um skipað okk­ur und­ir fána frjáls­hyggj­unn­ar – trúna á mátt og getu ein­stak­lings­ins og að frumrétt­ur hans sé frelsið, and­legt og efna­hags­legt frelsi – erum gæfu­söm. Hundruð bóka standa okk­ur til boða eft­ir ís­lenska og er­lenda hugsuði. Hayek, Friedm­an, Sowell, Mill, Popp­er og Nozicks, svo fá­ein­ir séu nefnd­ir. Ólaf­ur Björns­son, Birg­ir Kjaran, Jón Þor­láks­son og Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son hafa hver með sín­um hætti lagt mik­il­væg­an skerf inn í ís­lenska hug­mynda­bar­áttu. Þá er ónefnd­ur Matth­ías Johann­essen, rit­stjóri og skáld, en í kist­ur hans hef ég alltaf leitað - sí­fellt meira eft­ir því sem árin líða.

Árið 1982 gaf Mattías út safn­ritið Fé­lagi orð – grein­ar, sam­töl og ljóð. Í grein sem hann skrifaði árið 1981 rifjar Matth­ías upp að Hall­dór Lax­ness hafi haldið því fram í Skálda­tíma að stalín­ismi og nasismi væru grein­ar á sama meiði. „Það er ekki lítið sagt og íhug­un­ar­efni fyr­ir okk­ur með til­liti til þess „sann­leika“, sem við reyn­um að finna með aðstoð frjáls­hyggju og lýðræðis. En sá al­gildi sann­leiki er því miður ekki held­ur til. Það er í raun eitt af aðals­merkj­um frjáls­hyggj­unn­ar að játa svo ein­falda staðreynd, þótt slík afstaða dragi ekki úr frjáls­hyggju­mönn­um að halda áfram leit­inni að því þjóðfé­lagi, sem næst gæti kom­ist þeim þjóðfé­lags­sann­leik, sem við, að því er virðist, þráum um­fram allt. Þó er mér nær að halda, að leit­in sé eft­ir­sókn­ar­verðari en „sann­leik­ur­inn“ sjálf­ur, á sama hátt og eft­ir­vænt­ing­in er einatt skemmti­legri en reynsla og raun­veru­leiki.“

Matth­ías og Karl Popp­er hafa greini­lega átt góða sam­leið í mörgu. Í viðtali við Hann­es Hólm­stein árið 1985 bend­ir Popp­er á að frjáls­hyggj­an verði aldrei fullsköpuð. „Hún er enda­laus leit að lausn­um, til­raun til að tak­marka valdið, binda það, svo það geti horft til heilla fyr­ir fólk.“

Stóri­sann­leik­ur ekki til

Matth­ías seg­ir frjáls­hyggju­menn sann­færða um að Stóri­sann­leik­ur sé ekki til. Það sé hins veg­ar ekki and­stætt frjáls­hyggju að lúta boðskap Krists um sann­leik þess fyr­ir­heitna lands sem hann boðar. „Og eina leið okk­ar frjáls­hyggju­manna til að skilja marx­isma með ein­hverju móti er sú að líta á hann sem trú­ar­brögð. Hann á ým­is­legt sam­eig­in­legt með fjölgyðistrú fyrri tíma, þegar kóng­ar og keis­ar­ar voru tekn­ir í guða tölu.“

Matth­ías hef­ur aldrei trúað á boð og bönn. Frjáls­hyggj­an krefj­ist þess skil­yrðis­laust að staðinn sé vörður um eins mikið frelsi í list­um og menn­ingu og unnt er. Það sé að vísu fram­leitt mikið af hvers­dags­legu „ófrum­legu dóti í nafni list­ar á okk­ar dög­um, en sára­lítið af list­ræn­um verðmæt­um“. Skil­vinda tím­ans sjái um þá und­an­rennu. Nauðsyn­legt sé að spyrja margra spurn­inga um ein­stak­ling­inn í því vel­meg­un­ar­sam­fé­lagi sem hef­ur sprottið úr frjáls­hyggju og lýðræði. Staldra við og spyrna við fæti. Og rit­stjór­inn er gagn­rýn­inn á fjöl­miðla og sú gagn­rýni á enn bet­ur við í dag en fyr­ir liðlega fjór­um ára­tug­um. „Dómgrein­ar­leysi í fjöl­miðlum er áber­andi. Alls kyns æði fer eins og reyk­ur um sinu­haga. Það minn­ir ann­ars veg­ar á hús­bónda­vald al­menn­ings­álits­ins, sem Mill nefn­ir svo, og hins veg­ar á hræðslu­gæði, sem talað er um í forn­um ís­lensk­um bók­um. Brenglað mat er hrika­leg staðreynd. Við sjá­um miðald­irn­ar hilla upp í nútíðinni, döns­um hugs­un­ar­laust inn í tóm­leika, fá­nýti, meiri tóm­leika. Sirk­us­dverg­ar með póli­tísk­ar gervi­lausn­ir og ófull­nægðan metnað reyna að draga að sér at­hygli. Þeir þykj­ast vera boðber­ar ein­stak­lings­frels­is, en eru full­trú­ar alræðis­hyggju og Stórasann­leika. Þá skort­ir alla sjálfs­gagn­rýni, skort­ir það sem kann að vera nauðsyn­leg­ast alls – efa­hyggju, sjálfs­virðingu.“

Sam­hljóm­ur ára­tug­anna

Með orð Matth­ías­ar um skort á sjálfs­gagn­rýni og efa­hyggju og stjórn­mála­menn gervi­lausna í huga las ég ádrepu Bene­dikts Jó­hann­es­son­ar, sem birt­ist á Vis­ir.is fyr­ir tveim­ur dög­um, af at­hygli enda nokk­ur sam­hljóm­ur milli þeirra tveggja þótt 42 ár séu á milli skrif­anna.

Bene­dikt er stofn­andi Viðreisn­ar, fyrr­ver­andi formaður flokks­ins og fjár­málaráðherra: „Oft hef ég talað um þá til­finn­ingu mína að þingsal­ur­inn kalli fram hið versta í fólki. Vænstu menn, karl­ar og kon­ur, rjúka upp í heil­agri vand­læt­ingu í þingsal yfir smáu sem stóru. Þetta vek­ur spurn­ing­una: Bera alþing­is­menn virðingu hver fyr­ir öðrum og stofn­un­inni sem þeir skipa? Ef ekki, hví skyldu aðrir treysta henni? Traust þjóðar­inn­ar til Alþing­is var 25% í síðustu mæl­ingu.“

Og Bene­dikt held­ur því fram að oft­ar en ekki breyt­ist „vænsta fólk til hins verra þegar það kemst í áhrifa­stöðu“. Verði hrokagikk­ir á ör­fá­um vik­um. „Þeir telja sig vaxa með því að gera lítið úr öðrum. Í stjórn­ar­and­stöðu er mál­efna­leg umræða tal­in ólík­leg til ár­ang­urs. Mál­flutn­ing­ur minni­hlut­ans virðist að mestu byggður á spæl­ing­um og nöldri í garð ráðherra, en óvenju­legt að heyra upp­lýs­andi rök­ræður, byggðar á reynslu og þekk­ingu þing­manna, enda fækk­ar sí­fellt í hópi þeirra þing­manna sem búa að reynslu úr at­vinnu­lífi eða for­ystu í fé­laga­sam­tök­um, svo dæmi séu tek­in af þekk­ingu sem nýst gæti við laga­setn­ingu eða stjórn lands­ins.“

Fjöl­miðlar eiga ef­laust sína sök skrif­ar Bene­dikt enda ná stór­yrði og hneyksl­un eyr­um þeirra.

Dóm­ur Bene­dikts er óvæg­inn en illa get ég and­mælt. Stjórn­mál sam­tím­ans ein­kenn­ast frem­ur af upp­hróp­un­um og merkimiða-póli­tík en bar­áttu fyr­ir hug­sjón­um. Sam­fé­lags­verk­fræðing­arn­ir hafa því miður náð yf­ir­hönd­inni. Póli­tísk rétt­hugs­un kæf­ir stjórn­mál­in og ógn­ar frels­inu. En ein­mitt þess vegna er mik­il­vægt að eiga góðan aðgang að hugsuðum frels­is­ins og kynn­ast hug­mynd­um þeirra og rök­stuðningi. Rit­stjór­inn og skáldið Matth­ías Johann­essen er einn þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. apríl 2023.