Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Reykjavíkurborg hætti í fyrradag við skuldabréfaútboð sitt fyrir aprílmánuð, sem áformað var í gær, 12. apríl. Var útboð þar á undan einnig fellt niður, sem vera átti 8. mars.
Athygli vakti meðal markaðsaðila hversu seint borgin blés útboðið af. Venjulega eru upplýsingar um fyrirkomulag slíkra útboða tilkynntar á vef Kauphallar a.m.k. tveimur dögum áður en það fer fram. Tilkynning frá Reykjavíkurborg um niðurfellingu útboðsins í gær barst mjög seint eða kl. 16.49 í fyrradag.
Uggvænleg skuldaþróun
Skuldabréfaútboð hafa um langt skeið verið mikilvirkasti vettvangur vinstri meirihlutans til að fjármagna gífurlegan hallarekstur Reykjavíkurborgar. Áformað er að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 21 þúsund milljónum króna á árinu 2023 samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun. Til að mæta þessari miklu fjárþörf borgarsjóðs er gert ráð fyrir stórfelldri skuldabréfaútgáfu eða annarri lántöku.
Ljóst er að Reykjavíkurborg hugðist afla sér stóran hluta áðurnefndrar upphæðar með útgáfu skuldabréfa á fyrri hluta ársins. Niðurfelling tveggja útboða í röð gefa skýra vísbendingu um að ekki sé allt með felldu hjá borginni varðandi fyrirhugaðar lántökur. Þessar niðurfellingar má líklega rekja til áhugaleysis fjárfesta og ört versnandi kjara borgarinnar í skuldabréfaútboðum í janúar og febrúar.
Að undanförnu hefur ávöxtunarkrafa, sem gerð er til skuldabréfa Reykjavíkurborgar hækkað og er hún töluvert hærri en kröfur á samanburðarhæf bréf. Hækkun ávöxtunarkröfunnar má sennilega rekja til ört versnandi skuldastöðu borgarinnar og efasemda um að gildandi útgáfuáætlun standist. Hækkun kröfunnar hefur leitt til þyngri vaxtabyrði Reykjavíkurborgar á nýjum lánum.
Ávöxtunarkrafa skuldabréfa Reykjavíkurborgar nálgast nú að vera 3% yfir sambærilegum ríkisskuldabréfum.
Fátt um svör hjá borgarstjóra
Undirritaður tók málið upp á fundi borgarstjórnar í dymbilviku og spurði borgarstjóra, framkvæmdastjóra borgarinnar, hvernig borgin væri að fjármagna sig og á hvaða vöxtum þegar slíkt hökt væri á skuldabréfaútgáfu hennar.
Afar litlar upplýsingar fengust um málið hjá borgarstjóra á fundinum. Svaraði hann ekki skýrum spurningum, sem til hans var beint um málið. Sagði að hægt væri að ræða þessi mál í borgarráði eða við umræður um ársreiknings borgarinnar fyrir síðasta ár, sem fara munu fram í næsta mánuði. Er sérkennilegt að borgarstjóri vilji helst ræða um fjármögnun hallarekstrar yfirstandandi árs með baksýnisspegli, þ.e. undir umræðu um uppgjör liðins ár.
Borgin tilkynnti í fyrradag að þegar hefðu verið seld skuldabréf fyrir um 4,1 milljarð króna á árinu auk þriggja milljarða króna yfirdráttarláns (lánalínu) hjá Íslandsbanka. Greinilegt er því að Reykjavíkurborg er rekin á yfirdrætti um þessar mundir.
Yfirleitt er dýrara fyrir sveitarfélög að taka yfirdráttarlán en gefa út skuldabréf. Sé hins vegar lítill áhugi fyrir hendi hjá markaðsaðilum að kaupa skuldabréf sveitarfélags, getur það hins vegar neyðst til að taka yfirdráttarlán á enn hærri vöxtum.
Björgunaraðgerða er þörf
Þróun lánsfjármögnunar Reykjavíkurborgar að undanförnu er uggvænleg vísbending um mjög slæma fjárhagsstöðu hennar. Svo virðist sem skuldabréfamarkaðurinn sé hægt og rólega að loka á borgina.
Ef svo heldur áfram er raunveruleg hætta á greiðsluþroti hjá Reykjavíkurborg. Æskilegt er að fjárhagur borgarinnar verði tekinn til skoðunar í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála.
Miklar vaxtahækkanir að undanförnu hljóta að leiða til þess að öll ábyrg fyrirtæki og sveitarfélög endurskoði rekstur sinn og takmarki nýjar lántökur eins og kostur er.
Ekki verður hjá því komist að borgarstjórn verði gerð skýr grein fyrir stöðunni sem fyrst og að í framhaldinu verði gripið til björgunaraðgerða. Þær þurfa að fela í sér gagngera endurskoðun á öllum rekstri borgarinnar og víðtækar hagræðingaraðgerðir. Þá þarf að skoða sölu eigna í því skyni að grynnka á skuldum.
Heildarskuldir stefna í 464 milljarða
Um síðustu áramót námu heildarskuldir Reykjavíkurborgar um 442 milljörðum króna og höfðu þá hækkað um 35 milljarða á milli ára. Áætlað er að skuldirnar hækki um 22 milljarða á árinu og nemi um 464 milljörðum króna um næstu áramót.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 13. apríl 2023.