Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Í vikunni hætti Reykjavíkurborg við fyrirhugaða skuldabréfaútgáfu, sem fara átti fram í gærdag. Borgin virðist hafa metið áhugaleysi markaðsaðila á útboðinu bæði niðurlægjandi fyrir borgina og undirstrika vantraust á fjárhagsstöðu og greiðslugetu hennar.
Borgin uppfyllir ekki lágmarks- viðmið
Slæm fjárhagsstaða Árborgar hefur verið til umfjöllunar að undanförnu, en sveitarfélagið brást við eftir að hafa borist erindi frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
Það kallar þó ekki síður á umræðu, að í febrúarlok barst Reykjavíkurborg sams konar bréf frá eftirlitsnefndinni, þar sem á það var bent að borgin uppfyllti ekki öll lágmarksviðmið nefndarinnar fyrir grunnrekstur sveitarfélags. Meirihlutinn hefur enn ekki séð ástæðu til að taka bréfið til umræðu í borgarstjórn.
Áhyggjur eftirlitsnefndar koma ekki á óvart. Útkomuspá fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir 15,3 milljarða halla af rekstri borgarsjóðs. Skuldir samstæðunnar jukust um 35 milljarða árið 2022. Áætlanir gera ráð fyrir að skuldir haldi áfram að aukast um 83 milljarða til ársins 2027. Samhliða hefur starfsmönnum borgarinnar fjölgað um 25% síðastliðin fimm ár, langt umfram lýðfræðilega þróun. Óstjórn ríkir í rekstri borgarinnar og báknið heldur áfram að blása út.
Víðtækt vantraust
Borgarbúar hafa fjölmargar ástæður til að vantreysta borgaryfirvöldum – þær ná langt út fyrir tölulegar staðreyndir um fjárhagsstöðu og greiðslugetu. Undanfarna mánuði hafa íbúar til að mynda mótmælt vegna biðlistavanda leikskólanna, viðhaldsvanda skólahúsnæðis og slælegrar vetrarþjónustu.
Á haustdögum var skipaður stýrihópur um endurskoðun þjónustuhandbókar um vetrarþjónustu í Reykjavík. Þegar gerði veðurofsa í borginni í desember hafði hópurinn varla hugsað heila hugsun – engar greiningar, tillögur eða niðurstöður höfðu borist frá hópnum. Þegar nær ófært var í borginni í desember var íbúum sagt að halda ró sinni – stýrihópurinn væri að vinna að endurskoðun þjónustuhandbókar.
Nú, heilum sjö mánuðum eftir skipan stýrihópsins, hefur loks borist niðurstaða. Margvíslegar ágætar tillögur hafa borist frá hópnum – en sumar jafn sjálfsagðar og sú að snjómokstur þurfi að taka mið af snjóþunga hverju sinni.
Hvar eru breytingarnar?
Reglulega birtast okkur skýr dæmi um seinaganginn í borgarkerfinu og aðgerðaleysi meirihlutans. Það á ekki að þurfa sjö mánaða kaffisamsæti með tilheyrandi skýrslugerð til að hrapa niður á augljósar staðreyndir – og höfuðborg á ekki að þurfa að óttast niðurlægingu í skuldabréfaútboðum.
Borgin er illa rekin, henni er illa stýrt og stjórnkerfið í molum. Á meðan láta meirihlutaflokkarnir sem allt sé í lukkunnar velstandi. Hversu lengi þurfum við að bíða hinna marglofuðu breytinga?
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 13. apríl 2023.