Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Það er óhætt að segja að neyð ríki í dagvistunarmálum í Reykjavík. Meðalaldur barna við innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar er nú 21 mánuður og hefur varla lækkað. Í ofanálag berast nú fregnir af því að fjölmargir leikskólar borgarinnar muni ekki taka við fleiri börnum í haust vegna slælegs ástands húsnæðis borgarinnar.
Foreldrar ungra barna eru því í mikilli óvissu. Við lesum frásagnir fólks sem hefur þurft að hverfa af vinnumarkaði þegar fæðingarorlofi lýkur og fólks sem hefur þurft að flytja í foreldrahús og leigja út fasteignir sínar til þess að geta lifað af einum tekjum.
Það eru allir sammála um að leikskólavandinn sé margþættur. Það kemur því á óvart að ekki hafi verið brugðist við honum með fjölbreyttum og nýstárlegum lausnum. Vandinn er enda ekki nýr af nálinni og háfleyg loforð hafa verið gefin árum saman.
Vandi reykvískra foreldra var til að mynda kveikjan að fyrirspurn sem ég sendi dómsmálaráðherra sl. haust um hvort hann hygðist skoða útvíkkun dvalarleyfis vegna vistráðningar (au pair) frá ríkjum utan EES-svæðisins þannig að heimilt yrði að endurnýja leyfið að ári liðnu.
Vistráðningarsamningur getur enda verið valkostur til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Dómsmálaráðherra hefur þegar lagt inn frumvarp í samráðsgátt varðandi þetta atriði.
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur sömuleiðis bent á margvíslegar lausnir við vandanum og hefur meðal annars hvatt til endurskoðunar á skólakerfinu í heild sinni. Það sé kominn tími til að ræða hvort skynsamlegt gæti verið að grunnskólagangan hefjist við fimm ára aldur og ljúki þá ári fyrr.
Með þessu væri leikskóla- og grunnskólastigið skoðað heildstætt.
Fyrir rúmum tveimur árum samþykkti Alþingi að lengja fæðingarorlof og fæðingarstyrki í tólf mánuði. Við alþingismenn ættum ef til vill að skoða af alvöru frekari leiðir til þess að koma til móts við örvæntingarfulla foreldra.
Meirihlutanum í Reykjavík veitir ekki af aðstoð, ef hann á annað borð hefur áhuga á að taka til hendinni í málaflokknum.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. mars 2023