Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Viðhorf til skattheimtu, hófsemdar og samspils skatta og velmegunar, kemur fram með ýmsum hætti. Það skal játað að oft á ég erfitt með að skilja hugmyndafræði skattheimtuflokkanna, sem byggist á þeirri sannfæringu að ríki og sveitarfélög séu að „afsala sér tekjum“ ef skattar og gjöld eru lækkuð eða ef skattar eru lægri en leyfileg hámarksálagning samkvæmt lögum.
Jafnvel þegar gjöld eru hækkuð, en ekki jafnmikið og hinir skattaglöðu höfðu hug á, er því haldið fram að um sé að ræða „eftirgjöf“ tekna. Þannig var 50% hækkun kolefnisgjalda sögð „eftirgjöf“ þar sem stjórnarmeirihluti taldi of langt gengið að hækka gjöldin um 100%. Þegar fjármagnsskattur var hækkaður úr 20% í 22% var ríkisstjórnin sökuð um að „gefa eftir“ tekjur þar sem vel hefði verið hægt að hækka skattinn í 25% – jafnvel 30%.
Þótt ég eigi erfitt með að skilja hugmyndafræði af þessu tagi átta ég mig sæmilega á þeirri sannfæringu sem hún byggist á: Sjálfsaflafé einstaklinga er eign hins opinbera. Ríkið á allt það sem einstaklingurinn aflar og ríkið „afsalar sér“ því sem hann heldur eftir þegar búið er að greiða skatta og gjöld.
Í hugum skattaglaðra vinstri manna er það merki um fullkomið „getuleysi“ til að afla ríki og sveitarfélögum tekna þegar skattstofnar eru ekki „fullnýttir“ eins og það er kallað þegar annað hvort er slakað á skattaklónni eða opinber gjöld eru ekki í hæstu hæðum samkvæmt lögum. Að sama skapi er það eitur í beinum vinstri manna að leggja til í langtímaáætlunum um opinber fjármál að aukinn hluti hagvaxtar verði eftir í vösum einstaklinganna. Með því verður hlutfallsleg stærð ríkis og sveitarfélaga af þjóðarkökunni minni þegar kakan stækkar en engu að síður verður kökusneið þeirra stærri og verðmætari.
Svo það sé sagt enn einu sinni. Skattaglaðir vinstri menn eru áhugasamari um að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni en að baka stærri köku. Með sama hætti eru þeir uppteknir af því að auka jöfnuð í þjóðfélaginu en hafa minni áhyggjur af því að bæta almenn lífskjör. Margret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, gerði góðlátlegt grín að vinstri mönnum og benti á að þeir vilji jafna kjörin niður á við en hægri menn berjist fyrir því að bæta kjör allra upp á við.
Sveitarfélögum refsað
Í samráðsgátt stjórnvalda liggur skýrsla starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi um breytingar á lögum um sjóðinn. Um það verður ekki deilt að endurskoðunin er löngu tímabær. En tillögur að breytingum valda mér áhyggjum og þá ekki síst tvö af meginmarkmiðum sem virðist vera stefnt að:
Að beita sveitarfélög fjárhagslegum þvingunum til sameiningar í stað þess að innleiða fjárhagslega hvata.
Að þvinga sveitarfélög til að leggja á hámarksútsvar. „Vannýting“ útsvars verður dregin frá framlögum úr Jöfnunarsjóði. Sem sagt: Nýti „sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags“. Hið sama á við um álagningu fasteignagjalda.
Nái þessar tillögur fram að ganga verður refsivendinum beitt harkalega gagnvart þeim sveitarfélögum sem hafa ákveðið að gæta hófsemi í álögum á íbúa – hófsemi sem þeim er tryggð í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Tillögur um refsingu vegna „vannýtingar“ afnemur í reynd 3. og 23. gr. laganna, annars vegar um fasteignagjöld og hins vegar útsvar. Og þá er spurning um raunverulegt sjálfstæði sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu.
Svo það sé skýrt. Á meðan ég sit á þingi mun ég aldrei samþykkja breytingar af þessu tagi, jafnvel þótt gildandi reglur um Jöfnunarsjóðinn séu í mörgu gallaðar.
Það eru gild rök fyrir því að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og/eða tryggja aukna samvinnu þeirra. En sameining verður að vera á forsendum íbúanna sjálfra. Tilraunir til lögþvingunar hafa ekki gengið eftir og þá virðist eiga að beita fjárhagslegum þumalskrúfum til að ná fram pólitískum markmiðum um fækkun sveitarfélaga. Valdboð og þvinganir í stað jákvæðra hvata. Tilskipanir í stað valfrelsis íbúanna.
Gegn samkeppni og hófsemd
Sveitarfélögin eru 64 talsins og hefur fækkað um 60 frá aldamótum. Flest voru sveitarfélögin 229 árið 1950. Rökin fyrir sameiningu, sem fram til þessa hefur fyrst og síðast verið á forsendum íbúanna sjálfra, er hagkvæmni stærðarinnar (þó þar geti Reykjavík aldrei orðið fyrirmyndin) og þar með meiri styrkur til að sinna þeim umsvifamiklu og mikilvægu verkefnum sem hvíla á herðum sveitarfélaganna. En „stærðarhagkvæmnin“ tryggir ekki að fjármunir íbúanna séu nýttir með skynsamlegum hætti eða þeir fari til þeirra verkefna sem íbúarnir leggja áherslu á. (Spyrjið íbúa höfuðborgarinnar). Stærð sveitarfélags er heldur ekki ávísun á góða þjónustu, ekki frekar en á góða fjárhagsstöðu.
Í desember 2016 benti ég á það í grein að fátt veiti kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum og stjórnsýslunni allri meiri aga og aðhald en samkeppni um íbúana og fyrirtækin: „Í mörgum tilfellum munu sveitarfélög telja það besta kostinn að sameinast eða auka samvinnu til að vera betur í stakk búin til að veita öfluga þjónustu og gæta hófsemdar í álögum á íbúa og fyrirtæki. Sameining yrði á forsendum samkeppninnar og betri þjónustu en ekki í leit – villuleit – að hagkvæmni stærðarinnar, líklega með Reykjavíkurborg sem sérstaka fyrirmynd.“
Þær tillögur sem kynntar hafa verið um breytingar á Jöfnunarsjóði draga úr samkeppni sveitarfélaga og þar með verður agavald íbúanna minna en ella. Að baki tillögunum er vond hugmyndafræði þar hófsemd í opinberum álögum er talin merki um „getuleysi“, „eftirgjöf tekna“ og „vannýtingu tekjustofna“. Verst er að fá staðfestingu á því hve hugmyndafræði skattheimtusinna er orðin rótgróin í allri nálgun þegar kemur að skatta- og gjaldakerfi hins opinbera.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2023.