Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Í vikunni lagði ég á ný fram frumvarp á Alþingi, ásamt nokkrum þingmönnum, um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Tillaga okkar er sú að sveitarstjórnum verði í sjálfsvald sett að ákveða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn innan þeirra einu marka að fulltrúarnir verði aldrei færri en þrír. Breytingartillaga í þessa veru hefur áður verið flutt á þinginu, síðast á 152. löggjafarþingi þar sem Kjartan Magnússon var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum, skal fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn ákveðinn innan nánar tilgreinda marka sem lögin kveða á um. Þannig skal fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa vera 23-31 þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri. Á þessum grundvelli var borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar fjölgað úr 15 í 23 árið 2018, eða um rúm 53%. Fyrir breytinguna var hlutfall borgarfulltrúa af borgarbúum sambærilegt því sem gerist í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna. Reykjavík hefur nú hlutfallslega flesta borgarfulltrúa af höfuðborgum Norðurlandanna, auk þess sem Reykjavík sker sig úr sem eina borgin á Norðurlöndunum þar sem allir borgarfulltrúar eru í fullu starfi sem stjórnmálamenn. Auk 23 borgarfulltrúa, eru svokallaðir „fyrstu varaborgarfulltrúar“ á föstum launum. Þeir eru nú átta talsins fyrir þá átta flokka sem fengu menn kjörna í borgarstjórn, og fær því 31 borgarfulltrúi fasta launagreiðslu fá Reykjavíkurborg.
Til samanburðar má nefna að í Kaupmannahöfn sitja 55 kjörnir fulltrúar í borgarstjórn, en sveitarfélagið Kaupmannahöfn hefur 650.000 íbúa. Störf almennra borgarfulltrúa eru hlutastörf. Í Helsinki eru borgarfulltrúarnir 85, en íbúar sveitarfélagsins eru um 658.000. Borgarfulltrúar fá einungis greidda lágmarksþóknun fyrir mætingu á fundi og er því ekki hægt að líta svo á að um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða. Borgarfulltrúar í Stokkhólmi eru 101 talsins, en íbúafjöldi í Stokkhólmi er um 980.000. Aðeins 13 borgarfulltrúar starfa sem stjórnmálamenn í fullu starfi en aðrir kjörnir fulltrúar gegna hlutastarfi, langflestir í minna en 40% hlutfalli. Í Ósló eru borgarfulltrúar 59 talsins, en um 697.000 íbúar búa í höfuðborginni. Störf almennra borgarfulltrúa eru hlutastörf.
Það er mikilvægt að standa vörð um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og hæfilegur fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa hlýtur að vera háður huglægu mati þar sem aðstæður sveitarfélaga geta verið misjafnar. Því færi betur á því að matið væri í höndum sveitarfélaganna sjálfra, sem eru í mun betri aðstöðu til að meta sínar þarfir í þessum efnum en löggjafinn. Við leggjum því til breytingu á lagaákvæði sem leiðir m.a. til þess að höfuðborg okkar sker sig svo rækilega úr í samanburðinum. Og það með afskaplega neikvæðum formerkjum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. mars 2023.