Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Opinberum starfsmönnum fjölgaði um 11.400 á árunum 2015-2021 eða um 21,4%. Á sama tíma fjölgaði starfsfólki á almennum vinnumarkaði um 4.200 eða um 3%.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Félag atvinnurekenda lét gera og kynnti nýlega á ársfundi sínum. Skýrslan ber yfirskriftina Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu? og er allrar athygli og umræðu verð. Ég ræddi um fjölgun opinberra starfa á þessum ársfundi Félags atvinnurekenda og í framhaldinu í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni þar sem líka var forystumaður einna af stærstu heildarsamtökum launafólks á vinnumarkaðnum. Sá hafði það ítrekað til málanna að leggja að með því að ræða þennan kjarna skýrslunnar umræddu væri „talað niður til opinberra starfsmanna“ (!) og viðraði jafnframt afar þrönga og sérstaka sýn sína á samhengi hluta á vinnumarkaði og í sjálfu hagkerfinu.
Nefndur viðmælandi í útvarpsþættinum skýrði heildarfjölgun opinberra starfsmanna með auknum umsvifum í heilbrigðiskerfinu vegna heimsfaraldursins og fjölgun opinberra starfa tengdum vinnumarkaðsúrræðum vegna atvinnuleysis. Ekki dettur mér í hug að andmæla því og tek undir að skýringuna megi að einhverju leyti rekja til þessa en alls ekki alla. Mesta athygli vekur nefnilega sú niðurstaða að störfum í opinberri stjórnsýslu hafi fjölgað mest. Þar bættust við 4.600 starfsmenn á árunum 2015-2021 sem jafngildir fjölgun um 60%!
Þessar upplýsingar segja sögu sem eðlilegt er að ræða og velta fyrir sér orsök og afleiðingum án þess að hlaupið sé í skotgrafir og talað sé um að slík umræða jafngildi því að „tala niður“ til opinberra starfsmanna. Ég frábið mér með öllu að slíkt vaki fyrir mér, fjarri því.
Merkilegt er annars til þess að hugsa að á undanförnum árum og áratugum hafi vinnumarkaðurinn okkar þróast með þeim hætti að einkageirinn á oft í vandræðum með að fá fólk til starfa í samkeppni við opinbera geirann og kjaraþróunina þar. Samt heldur einkamarkaðurinn opinbera kerfinu uppi, eðli máls samkvæmt!
- Laun eru orðin hærri víða í opinbera kerfinu en á einkamarkaði.
- Lífeyrisréttindi eru orðin jöfn í opinbera geiranum og á einkamarkaði.
- Vinnutíminn er styttri hjá hinu opinbera.
- Starfsöryggið er meira með ráðningarvernd hins opinbera.
- Verðmætin verða til í einkageiranum til að standa undir stjórnsýslu og opinberri starfsemi að stórum hluta.
Skrifað er í skýin að ríkisútgjöld eiga eftir að aukast vegna öldrunar þjóðarinnar. Engin önnur viðbrögð duga en að auka verðmætasköpun í landinu og það meira en lítið. Við verðum að stækka kökuna. Skapa fleiri störf og stórauka gjaldeyristekjur. Fyrir liggur að við þurfum að auka útflutning um þúsund milljarða króna á næstu tveimur áratugum til að halda hér uppi þeim lífsgæðum sem við þekkjum í dag. Það gerir um milljarð króna á viku!
Eina leiðin og eina ráðið til að auka verðmætasköpun er að örva einkaframtakið enda verður nánast allur útflutningur til í einkageiranum. Straumurinn liggur hins vegar í aðra átt í samfélaginu okkar og það er með miklum ólíkindum. Það birtist ekki síst í stórfjölgun starfa hjá ríki og sveitarfélögum á sama tíma og störfum fjölgar takmarkað á almennum markaði.
Hvað sem hver segir þá ber brýna nauðsyn til þess að stíga á bremsur, stöðva þenslu opinbera kerfisins, koma á það böndum og draga úr umsvifum þess með því að flytja þaðan verkefni og störf til einkageirans í mun meira mæli en gert hefur verið. Í þeim efnum höfum við ekki val.
Við verðum í raun að starfa í samræmi við þá staðreynd að verðmætin skapast í atvinnurekstri einkaframtaksins en ekki í skrifborðsskúffum opinberra embættismanna. Mörg dæmi eru hins vegar um að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sannfæringu fyrir því að verðmætin skapist innan skrifstofuveggja hins opinbera. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2023.