Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Harkaleg kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins stefnir lífskjörum launafólks í hættu. Ekki aðeins félagsmanna Eflingar heldur einnig annarra um allt land. Erfitt er að skilja hvernig hægt er að sigla öllu í strand þegar reynt er að landa samningum til nokkurra mánaða – samningum sem endurspegla kjarasamninga sem yfirgnæfandi meiri hluti launafólks á almennum vinnumarkaði hefur þegar samþykkt. Og það er óskiljanlegt að forysta verkalýðsfélags telji sig þess umkomna að svipta eigin félagsmenn réttinum til að taka afstöðu til miðlunartillögu ríkissáttasemjara, sem var lögð fram til að höggva á þann hnút sem kjaraviðræður Eflingar og atvinnurekenda voru og eru í.
Verkfallsvopn launafólks getur reynst beitt í baráttu þess fyrir kjarabótum. Rétturinn til verkfalla er óumdeildur, alveg með sama hætti og réttur atvinnurekenda til að leggja á verkbann er tryggður með lögum. En réttindum fylgja einnig skyldur. Sé vopnunum beitt geta þau valdið skaða til skemmri og lengri tíma.
Verkföll og verkbönn veikja efnahagslegar undirstöður samfélagsins og takmarka möguleika til að tryggja og auka kaupmátt launa. Undan þessu einfalda lögmáli komast aðilar vinnumarkaðarins ekki. Bætt lífskjör nást ekki með því að grafa undan atvinnulífinu og undirstöðum efnahagslífsins.
Skylda að ná samningum
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma síðastliðinn mánudag benti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þá skyldu sem forysta launafólks og atvinnurekenda hefur; að ná samningum: „Skylda þessara aðila er að ná samningum við samningaborðið. Það er stóra málið. Þannig á það að vera í heilbrigðu samfélagi þar sem er heilbrigður vinnumarkaður, að aðilar leysi úr þessum málum sín á milli.“
Ábending forsætisráðherra er kórrétt. Samtök atvinnurekenda og launafólks hafa sameiginlega axlað þá ábyrgð að semja um kaup og kjör. Þeir samningar verða að byggjast á efnahagslegum raunveruleika. Aðeins þannig er hægt að bæta lífskjör ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa.
Verkföll, verkbönn og erfiðar kjaradeilur beina athyglinni óhjákvæmilega að innanmeinum sem hrjá íslenskan vinnumarkað sem og áhrifaleysi og vanmætti almennings. Æ fleiri hafa áttað sig á því að vinnumarkaðslöggjöfin er barn síns tíma og þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Vinnumarkaðurinn er ekki heilbrigður. Skilaboð forsætisráðherra eru að minnsta kosti skýr: Þegar vinnumarkaðurinn er heilbrigður leysa atvinnurekendur og forysta launafólks deilumál sín á milli.
Settur ríkissáttasemjari hefur lýst því að himinn og haf séu á milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Það er stál í stál. Lausn ekki í sjónmáli. Með framgöngu sinni hefur Efling grafið undan embætti ríkissáttasemjara og virt að vettugi rétt félagsmanna til taka ákvörðun um eigin kaup og kjör. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu getur löggjafinn ekki setið með hendur í skauti.
Nauðsynlegar lagabreytingar
Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru að stofni til frá 1938 en hafa tekið nokkrum breytingum. Í 3. gr. segir að kjarasamningur taki gildi „frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun“. Í 15. gr. laganna er svipað ákvæði um boðun verkfalls/verkbanns sem telst gild ef „ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna“.
Með öðrum orðum: Það þarf aðeins meirihluta 20% félagsmanna til að boða verkfall/verkbann eða fella gerða kjarasamninga. Reynsla síðustu vikna undirstrikar nauðsyn þess að herða skilyrði laganna og koma þannig í veg fyrir að mikill minnihluti (liðlega 10%) taki ákvörðun fyrir meirihluta. Hægt er að sækja fyrirmynd í lög um opinbera starfsmenn. Í 15 gr. þeirra laga segir: „Boðun verkfalls er því aðeins lögmæt að ákvörðun um hana hafi verið tekin í almennri leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi sem er samningsaðili. Til að samþykkja verkfallsboðun þarf a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra samþykkt hana.“
Ekki er síður nauðsynlegt að gerð verði breyting á 29. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Það verður að vera skýrt að stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda sé skylt að framkvæma kosningu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara innan fjögurra vikna. Um leið verði lögfest að miðlunartillagan fresti verkföllum/verkbönnum og hafi sömu áhrif og kjarasamningur, þ.e. hún sé ígildi kjarasamnings þar til og ef hún hefur verið felld í atkvæðagreiðslu.
Sameiginlegir hagsmunir
Þessar breytingar eru skref í að gera vinnumarkaðinn og löggjöfina sem um hann gilda heilbrigðari. Ég læt að þessu sinni liggja á milli hluta nauðsyn þess að tryggja raunverulegt félagafrelsi. En forysta verkalýðsfélags sem virðir lýðræðislegan rétt félagsmanna að vettugi, líkt og gert hefur verið, rennir (líklega ómeðvitað) frekari stoðum undir nauðsyn þess að tryggja félagafrelsi ekki aðeins í orði heldur einnig á borði.
Samtök atvinnulífsins og öll stærstu samtök launafólks á almennum vinnumarkaði, fyrir utan Eflingu, gerðu kjarasamninga til skamms tíma í desember síðastliðnum. Markmið samninganna, sem voru samþykktir með afgerandi stuðningi, var í senn einfalt og flókið. Að tryggja kaupmátt launa andspænis aukinni verðbólgu, verjast atvinnuleysi og leggja um leið hornstein að nýrri sókn til bættra lífskjara með kjarasamningum til langs tíma.
Um það verður ekki deilt að sameiginlega hefur okkur tekist að stórauka kaupmátt ráðstöfunartekna á síðustu árum, ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa. Það eru allar forsendur fyrir því að sækja enn frekar fram á komandi misserum og árum. En þá verður að tryggja skynsamlegt samspil milli hærri launa, framleiðniaukningar, skatta á launafólk og þeirra gjalda sem lögð eru á fyrirtæki af ríki og sveitarfélögum. Þar fara hagsmunir Eflingarfélaga og atvinnurekenda saman. Vonandi þarf ekki allt að „fara í skrúfuna“ áður en deiluaðilar átta sig á þessum sannindum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2023.