Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Kjaramál eru gríðarlega mikilvægt en jafnframt vandmeðfarið heildarsamhengi með mörgum mismunandi breytum. Í öllu falli má slá því föstu að lífskjör snúast ekki bara um krónutöluhækkanir launa, sem þó eru hér há í öllum alþjóðlegum samanburði.
Staðan heilt yfir ágæt
Þrátt fyrir verðbólguna er útlit fyrir að kaupmáttur heimilanna vaxi á þessu ári, líkt og hann hefur gert undanfarin ár af miklum krafti. Þessu er öfugt farið víðast í nágrannaríkjunum.
Umtalsverðar launahækkanir urðu á almennum vinnumarkaði en alls hækkaði launavísitala um 12,4% á síðasta ári. Að auki fólust talsverðar kjarabætur í tekjuskattsbreytingum síðustu áramóta sem skila meiri tekjuaukningu yfir áramótin en sem nemur verðbólgu.
Tilfærslutekjur frá ríkinu til þeirra sem minnst hafa á milli handanna, bætur almannatrygginga, húsnæðisbætur og barnabætur, hækkuðu einnig. Ágæt staða heimilanna heilt yfir birtist í þeirri staðreynd að vanskil heimilanna á lánum hafa ekki mælst minni undanfarinn áratug.
Þróun launa umfram þróun framleiðni
Svo verðbólgan lækki að markmiði þurfa aðgerðir Seðlabankans, opinberra fjármála og ákvarðanir á vinnumarkaði að miða að sama marki. Hækki útgjöld hins opinbera eða laun á vinnumarkaði umfram það sem framleiðsla hagkerfisins leyfir getur það einfaldlega ekki leitt til annars en verðbólgu sem brýst svo fram í hærri vöxtum og kaupmáttarrýrnun.
Þróun launa nú er umfram þróun á framleiðni. Það er staða sem verður að gefa gaum, annars töpum við öll, og allra mest þau sem átti kannski mest að koma til aðstoðar með hærri launum.
Við höfum náð góðum árangri undanfarin ár með því að skoða hvernig raunverulegur kaupmáttur skilar sér til fólks. Lægstu laun hafa einmitt verið í brennidepli, með ágætum árangri.
Það hefur verið gert með því að horfa í samhengi á framleiðnina, bótakerfin, húsnæðismarkaðinn og skattkerfið. Við verðum að halda áfram á þeirri leið en tryggja að framleiðni standi undir launahækkunum. Það verður varla gert nema með jarðvegi fyrir nýsköpun og alþjóðaviðskipti en áhyggjuefni er að takmarkanir á erlenda fjárfestingu eru hér meðal þeirra mestu innan OECD.
Kjaradeilur og verkfallsréttur eru mikilvægur partur af samfélaginu. Það segir sig þó sjálft að 150 stéttarfélög á litla íslenska vinnumarkaðinum er glórulaus staða. Það hlýtur að vera hægt að horfa til hinna norrænu landanna og taka mið af norræna vinnumarkaðsmódelinu sem breyttist í heildstæðari og skilvirkari átt þegar þau stóðu frammi fyrir sama kröfuharða lögmálinu um línudans framleiðni og launa.
Kjaraviðræðum er ekki lokið og það er stutt í næstu samninga. Samtalið má ekki snúast eingöngu um krónutölur, heldur hvað við getum gert til að auka velsæld samfélagsins í heild og allra sem hér búa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2023.